Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Á þskj. 449 flyt ég nokkrar brtt. við mál það sem nú er til umræðu og skal ég lýsa þeim með fáeinum orðum.
    Gert er ráð fyrir breytingu við 3. gr. frv. Í þeirri brtt. er Atvinnutryggingarsjóði heimilað að kaupa hlutdeildarskírteini hjá hlutafjársjóði Byggðastofnunar. Komið hefur fram í starfi Atvinnutryggingarsjóðs að svo kunni að fara að sjóðurinn ráðstafi ekki öllu því reiðufé sem hann hefur eða 2 millj. kr. Það stafar fyrst og fremst af því að fleiri fyrirtæki en menn hugðu í upphafi munu ekki geta fengið þá skuldbreytingu sem sjóðurinn veitir og kann því að fara svo að eitthvað af þessu fé geti orðið til ráðstöfunar til aðstoðar fyrirtækjum sem þangað hafa leitað í gegnum hlutafjársjóðinn. Því þykir eðlilegt að heimila stjórn Atvinnutryggingarsjóðs að verja einhverju af því fjármagni sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar til að kaupa hlutdeildarskírteini í hlutafjársjóðnum.
    Þá er gerð brtt. við 6. gr. Hún er á þá leið að í 6. gr. falli brott setningin: ,,Ber sjóðurinn ábyrgð á greiðslu þeirra skuldabréfa með eignum sínum.`` Þetta er um þær ábyrgðir sem sjóðurinn veitir. Í staðinn komi grein sem er svohljóðandi: ,,Ríkissjóður ábyrgist skuldbindingar Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina og greiðir þær ef eignir og tekjur hans hrökkva ekki til.`` Þetta mál hefur verið mikið til umræðu og mönnum sýnst sitt hverjum um ábyrgð ríkissjóðs á starfsemi Atvinnutryggingarsjóðs. Ríkisstjórnin leitaði álits nokkurra lögfræðinga, m.a. þeirra sem samið höfðu frv., einnig ríkislögmanns. Þessar álitsgreinar voru nokkuð misvísandi. Þeir sem sömdu frv. töldu að ríkissjóður gæti aldrei fríað sig ábyrgð á heildarstarfsemi sjóðsins þrátt fyrir þessa setningu en sögðu þó að þessi setning gæti út af fyrir sig valdið nokkrum efasemdum. Þeir lögðu þess vegna til að sú breyting yrði gerð sem hér er lögð til í þessari brtt.
    Niðurstaða ríkislögmanns var svipuð en þó fremur í þá veru að það kynni að vera vafasamt að ríkissjóður bæri þarna fulla ábyrgð og hann lagði einnig til að til að taka af öll tvímæli yrði svipuð brtt. gerð. Því er lagt til að þessi breyting verði gerð á frv.
    Þá er það 3. liður, þ.e. brtt. við 8. gr. sem er eingöngu í því fólgin að hlutafjársjóður Byggðastofnunar verði undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum hverju nafni sem nefnast, þar með talið lántökuskatti, eins og Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina, enda er hér að sjálfsögðu um tvær greinar á sama meiði að ræða.
    Þá er komið að brtt. við 9. gr. Þar er eingöngu um þá breytingu að ræða að rétt þykir að taka fram í greininni að til sjóðsins skuli einnig renna sérstaklega framlag ríkissjóðs ef Alþingi ákveður svo, annars vegar til reksturs sjóðsins og hins vegar til kaupa á hlutabréfum. Að sjálfsögðu má segja að þetta sé óþarft. Alþingi getur ætíð ákveðið að láta fjármagn renna til sjóðsins en þeim sem fjölluðu um þetta mál þótti þó rétt að taka það fram og má segja að þar sé

gefið undir fótinn með slíkt framlag.
    Þá er loks lögð til breyting við 10. gr. og er lagt til að lokasetning greinarinnar falli brott. Sú grein er þannig: ,,Hlutafjársjóðurinn skal gefa reglulega út gengi á hlutdeildarskírteinum.`` Þetta þykir nokkuð erfitt í framkvæmd. Telja ýmsir ekki ljóst hvernig þessi hlutdeildarskírteini yrðu metin til gengis og því er lagt til að þetta verði fellt út.
    Ég vil svo, herra forseti, fara fáeinum orðum um þennan hlutafjársjóð sem mér heyrist í raun skýrður á nokkuð furðulegan máta bæði af einstaklingum og í fjölmiðlum. Ég tel að þessi hugmynd um hlutafjársjóð sé hin þarfasta. Ég mótmæli því að hér sé um einhvern skussasjóð að ræða eins og ég heyrði nefnt. Mér er fyllilega ljóst að mjög þarf að vanda reglugerð um þennan sjóð og alls ekki er auðvelt að tryggja reglur sem að öllu leyti eru viðunandi. Það er alls ekki ætlunin að hér sé um sjóð að ræða sem á að taka við ,,fallitt`` fyrirtækjum. Hins vegar er staðreyndin sú að af þeim 60--70 fyrirtækjum sem ekki fá afgreiðslu í Atvinnutryggingarsjóði eru í fyrsta lagi æði mörg sem alls ekki eru gjaldþrota í laganna skilningi en hafa samt ekki rekstrargrundvöll og alveg ljóst að til að þau fái rekstrargrundvöll þurfa þau að fá inn nýtt og meira eigið fé. Þarna eru einnig fyrirtæki sem mörg hver eru máttarstoðir viðkomandi byggðarlags. Sum þessara fyrirtækja eru þannig stödd að þau eru með skuldir umfram hugsanlegt söluverð eigna. Ég tel afar vafasamt að hlutafjársjóðurinn komi inn í slík fyrirtæki til að bjarga þeim skuldum sem eru umfram eignir. Í mörgum slíkum tilfellum hygg ég að fyrirtækin verði annaðhvort að ganga í gegnum gjaldþrotaskipti eða nauðungarsamninga eða eitthvað annað sem tryggir þá að eigið fé fyrirtækjanna sé a.m.k. nálægt núllinu áður en hlutafjársjóðurinn getur komið inn. Þannig að ýmsar þær bollaleggingar, sem ég hef séð og heyrt, að þessi sjóður eigi að kaupa upp skuldir umfram eignir, tel ég ekki koma til greina. Til þess þarf einhverja allt aðra aðgerð. Hann getur hins vegar bætt eiginfjárstöðu fyrirtækja sem samkvæmt lögum og reglum eru ekki gjaldþrota þannig að hún verði viðunandi. Í þessu sambandi getur þessi sjóður orðið afar mikilvægur fyrir fjölmörg
byggðarlög þar sem svona er ástatt með það fyrirtæki sem ber uppi þunga atvinnulífsins á staðnum.
    Ég hef skilið þessa hugmynd svo að m.a. væri til þess ætlast að bankar og sjóðir geti keypt hlutdeildarskírteini og það fjármagn yrði síðan notað til þess að yfirtaka skuldir hjá viðkomandi stofnunum og breyta þeim í hlutafé í eigu hlutdeildarsjóðsins. Þetta finnst mér skynsamleg hugmynd vegna þess að viðskiptabankar eru háðir takmörkunum að þessu leyti en að mati lögfræðinga geta þeir komið inn í slíka endurreisn mikilvægra fyrirtækja með því að kaupa hlutdeildarskírteini í þessum sjóði. Þetta þykir mér eitt athyglisverðasta við þessa hugmynd.
    Ég vona að samkomulag geti orðið um það að koma þessum sjóði á fót, enda eru þessar tillögur reyndar komnar inn í frv., þegar samþykktar við 2.

umr. hér í hinni hv. deild. Mér þykir sjálfsagt og eðlilegt að nefndin taki þetta mál til endurskoðunar aftur því hér eru fluttar nokkrar brtt. sem, eins og ég hef áður skýrt, hafa fram komið nú í þessu langa hléi sem hv. þm. hafa gert mjög að umræðuefni, sem að vísu hefur ekkert verið lengra en önnur jólahlé, en því hefur unnist tími til að skoða mál eins og það sem hér er til umræðu, þ.e. þennan hlutafjársjóð.
    Ég ætla svo að leyfa mér, herra forseti, að koma aðeins að því máli sem hér var áðan á dagskrá, þ.e. sem hv. þm. Friðrik Sophusson gerði að umræðuefni, þ.e. gildi laganna til 10. apríl 1989. Út af fyrir sig er það rétt hjá hv. þm. að þetta kann að hafa litla þýðingu því að flest það sem í lögunum er er með dagsetningar sem eru fyrr. Í 2. gr. kemur t.d. fram að fjárhæð í launalið í verðlagsgrundvelli búvöru skuli til 1. mars 1989 ekki taka meiri hækkun en mælt er fyrir. Mér sýnist þetta ekki skipta miklu máli og vel koma til greina, ef menn óska þess, að nefndin sem fær seinna málið til meðferðar skoði hvort slík breyting valdi einhverjum erfiðleikum. Ég held hins vegar að það megi vel standa 10. apríl þess vegna.