Launavísitala
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um launavísitölu á þskj. 361. Frv. þetta sem hér liggur fyrir er flutt í tengslum við breytingu á lánskjaravísitölu sem ákveðin var með útgáfu reglugerðar nr. 18 frá 23. jan. sl. Með þessari reglugerð var ákveðið að lánskjaravísitalan yrði samsett af vísitölu framfærslukostnaðar, vísitölu byggingarkostnaðar og launavísitölu þar sem hver hefur þriðjungsvægi. Ákvæði um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár er í lögum um stjórn efnahagsmála o.fl., nr. 13/1979. Skv. 39. gr. þeirra laga er það eitt skilyrða verðtryggingar að miðað sé við opinbera skráða vísitölu. Einu fyrirmælin sem nú eru í lögum um mat launavísitölu eru í lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga. Í 6. gr. þeirra laga er kveðið á um ,,launavísitölu til greiðslujöfnunar``. Þessi vísitala skal að jöfnu samsett úr vísitölu atvinnutekna á mann og vísitölu meðalkauptaxta allra launþega. Launavísitala til greiðslujöfnunar er metin mánaðarlega og nýtt til greiðslujöfnunar opinberra húsnæðislána. Undanfarin tvö ár hefur ekki verið hægt að reikna þessa vísitölu í samræmi við fyrirmæli laganna þar sem mánaðarlegar áætlanir um vísitölu atvinnutekna og meðalkauptaxta hafa ekki verið tiltækar. Hagstofan hefur því reist vísitölu þessa á áætlunum um breytingar greiddra launa, einkum dagvinnulauna að teknu tilliti til samningsbundinna breytinga annarra launaþátta.
    Þótt launavísitala til greiðslujöfnunar sé opinber vísitala er engu að síður ljóst að ákvæði 6. gr. laga nr. 63/1985, sem hún er reist á, er ófullnægjandi hvað snertir útreikning opinberrar launavísitölu sem fullnægir þeim skilyrðum sem sett eru í 39. gr. laga nr. 13/1979, um vísitölu sem heimilt sé að miða verðtryggingu við. Því er hér flutt sérstakt frv. um launavísitölu sem fullnægir þessum skilyrðum.
    Í frv. þessu er lagt til að sett verði almenn lög um gerð launavísitölu. Ekki er nauðsynlegt að kveða sérstaklega á um hagnýtingu þessarar launavísitölu til útreiknings lánskjaravísitölu, enda eru almenn ákvæði þar að lútandi í lögum nr. 13/1979, eins og áður segir. Jafnframt sýnist eðlilegt að ákvæði laga um launavísitölu séu almenns eðlis og varði einungis gerð slíkrar vísitölu fremur en að þau séu háð tiltekinni notkun hennar.
    Í almennum athugasemdum sem fylgja frv. þessu er gerð ítarleg grein fyrir þeim vandamálum sem við er að etja við mat á launabreytingum og hvernig ástandi mála er nú háttað í þessum efnum. Hér er bæði um það að ræða að þær reglubundnu upplýsingar, sem nú er að hafa um launabreytingar, eru lakari en æskilegt er og að úrvinnsla upplýsinga er ýmsum vandkvæðum háð hvað snertir skilgreiningu og sundurgreiningu hinna ýmsu þátta launa. Þá er mat á launabreytingum í kjarasamningum jafnan erfiðleikum bundið eins og nánar er lýst í grg. frv. Af þessum sökum er nauðsynlegt að rík áhersla verði lögð á að endurskipuleggja gerð reglubundinna og

samræmdra launaskýrslna. Þetta er á verksviði Hagstofunnar, en miklu skiptir að unnið verði að þessu í nánu samráði við þá aðila sem hafa með höndum söfnun upplýsinga um laun og mat á launabreytingum hver á sínu sviði. Hér er einkum um að ræða kjararannsóknarnefndir og hagdeildir samtaka á vinnumarkaðinum, svo og Þjóðhagsstofnun. Þetta starf hefur þegar verið hafið og hefur Hagstofan leitað samstarfs um þetta verkefni við ýmsa þessara aðila.
    Í upphafi hefur vinnan m.a. beinst að því að skipuleggja reglubundið flæði upplýsinga um launagreiðslur í hverjum mánuði. Þetta hefur þegar verið unnið að hluta í samvinnu Hagstofunnar, launaskrifstofu ríkisins, launaskrifstofu Reykjavíkurborgar og kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna. Þá hefur einnig verið leitað eftir reglubundnum launaupplýsingum frá samninganefnd bankanna. Loks hefur tekist ágætt samstarf milli Hagstofunnar og kjararannsóknarnefndar ASÍ og vinnuveitenda um endurbætur á söfnun nefndarinnar á launaupplýsingum. Hér er m.a. um að ræða að reynt verður að stækka úrtak nefndarinnar og að aukin áhersla verður lögð á söfnun mánaðarlegra upplýsinga um launagreiðslur í stað ársfjórðungslegra til þessa. Allt þetta ætti að vera til bóta. Auk þess sem þarf að endurbæta og auka þær launaupplýsingar, sem þegar er safnað og ég gat um áðan, verður jafnframt að stefna að upplýsingasöfnun frá þeim hluta vinnumarkaðarins sem lítil eða engin vitneskja er nú um.
    Af öðrum áhugaverðum þáttum má nefna upplýsingar um laun eftir landshlutum og eftir kynjum. Í þessu sambandi gæti reynst nauðsynlegt að Hagstofan tækist á hendur sérstakar vinnumarkaðs- og launakannanir meðal einstaklinga. Jafnframt þarf að skipuleggja hagnýtingu þeirra launa- og tekjuupplýsinga sem verða tiltækar á næstunni, þ.e. úr tekjuskattskerfinu eftir að staðgreiðsla var tekin upp og frá lífeyrissjóðum eftir að iðgjaldsstofn SAL, Sambands almennra lífeyrissjóða, hefur að fullu verið samræmdur í ársbyrjun 1990.
    Ég ætla nú víkja að einstökum greinum frv.
    Í 1. gr. er kveðið á um að Hagstofa Íslands skuli reikna og birta launavísitölu í hverjum mánuði. Álitamál er við hvaða tíma skuli miða nákvæmlega, en hér er lagt til að launavísitalan miðist við meðaltal mánaðar
fremur en upphaf eða lok mánaðar. Tvær ástæður sýnast mæla með þessu. Í fyrsta lagi fellur vísitala sem miðuð er við meðaltal mánaðar betur að þeim launaathugunum sem nú eru gerðar. Því ætti að vera auðveldara en ella að bera hana saman við aðrar heimildir og leiðrétta eftir því sem ný vitneskja fæst um launabreytingar. Í öðru lagi má ætla að breytingar launavísitölunnar verði heldur jafnari sé miðað við meðaltal mánaðar fremur en upphaf. Í 1. gr. er lagt til að vísitalan verði sett 100 í desember 1988 miðað við laun í nóvember 1988. Vísitalan verður því fyrst reiknuð fyrir janúar 1989 og tekur þá til breytinga frá nóvember til desember 1988.

    Í 2. gr. eru tillögur um hvernig skilgreina skuli þau laun sem launavísitalan á að mæla. Lagt er til að reynt verði að meta breytingar allra launaþátta, enda er ljóst að dagvinnulaun og breytingar þeirra gefa ófullnægjandi mynd af raunverulegum launagreiðslum og breytingum þeirra. Rétt er að taka tvennt fram sérstaklega. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að í reglugerð verði nákvæmari skilgreining á launum þeim sem mæla á en í sjálfum lögunum. Í öðru lagi má benda á til að taka af vafa í því efni að í frv. er lagt til að miðað sé við greidd laun allra launþega fyrir fastan vinnutíma en ekki tekjur. Í þessu felst að ætlast er til að breytingar á vinnutíma og samsetningu hans hafi ekki áhrif á launavísitöluna nema ef um er að ræða samningsbundnar breytingar sem jafna má til launabreytinga.
    Í 3. gr. er fjallað um söfnun upplýsinga um launamál og samráð í því efni sem ég hef þegar vikið að.
    Í 4. gr. er loks gert ráð fyrir að nánari ákvæði um útreikning launavísitölu verði sett með reglugerð. Í reglugerðinni virðist einkum nauðsynlegt að kveða á um tvö atriði:
    Í reglugerðinni virðist einkum nauðsynlegt að kveða á um tvö atriði. Annars vegar þyrfti að skilgreina nánar en í frv. þau laun sem vísitalan á að mæla, eins og áður er vikið að. Hins vegar þyrfti að kveða sérstaklega á um leiðréttingu launavísitölunnar vegna hagnýtingar hennar til útreiknings lánskjaravísitölu.
    Eins og þegar hefur verið vikið að er ekki hægt að reikna með því að þær tölur sem Hagstofan birtir í mánuði hverjum, um launabreytingar milli tveggja næstliðinna mánuða, séu endanlegar þar sem haldgóð vitneskja um launabreytingar fæst oft fyrst nokkuð löngu eftir að launin hafa breyst. Því er óhjákvæmilegt að vísitalan verði leiðrétt því að ella er hætta á að skekkjur safnist upp og vísitalan verði slæmur mælikvarði á raunverulegar launabreytingar. Ýmislegt virðist mæla með því að leiðréttingar sem varða næstliðna sex mánuði, miðað við útreikningsmánuð launavísitölu hverju sinni, skuli hafa áhrif á þá launavísitölu sem verður hluti af lánskjaravísitölu. Slíkar leiðréttingar geta þó aldrei haft áhrif á lánskjaravísitöluna með afturvirkum hætti, heldur geta þær einungis gilt við útreikning hennar fyrir mánuðina næst á eftir að þær koma fram í launavísitölunni. Ljóst er að lengi verður hægt að leiðrétta launavísitöluna en eðlilegt þykir að áhrifum leiðréttinga á lánskjaravísitölu séu sett ákveðin tímamörk. Takmarkið við sex mánuði, eins og hér hefur verið gert ráð fyrir, miðast annars vegar við að verðtrygging samninga um sparifé og lánsfé til skemmri tíma en tveggja ára sé óheimil samkvæmt lögum. Undantekningar eru gerðar varðandi tiltekna sparifjárreikninga, en þeir þurfa þó að vera til a.m.k. sex mánaða og sömu takmörk gilda um samanburðartímabil svonefndra skiptikjarareikninga. Hins vegar ætti þessi tími að vera nægilega langur til þess að öruggt sé að skýrslur kjararannsóknarnefndar

ASÍ og vinnuveitenda séu fram komnar, en þær gefa mjög mikilvægar upplýsingar um launabreytingar.
    Að lokum er rétt að ítreka að þótt þetta frv. sé flutt í tengslum við breytingu á lánskjaravísitölu er það í reynd óháð henni. Ég tel æskilegt að um frv. verði fjallað efnislega í því ljósi, enda hefur gerð vandaðrar launavísitölu sjálfstætt gildi fyrir stjórn efnahagsmála yfirleitt.
    Herra forseti. Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til að málinu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.