Vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Fyrsta athugasemd mín í tilefni af þessari fyrirspurn er þessi: Ég hefði gjarnan kosið að sá sem telur sig eiga eitthvað sökótt við mig eða telur að ummæli mín séu ekki samboðin virðingu Alþingis beindi máli sínu til mín en ekki annarra.
    Ég rifja upp, virðulegi forseti, að fyrir fáum dögum mátti lesa í blöðum þá skoðun háttvirts landsbankastjóra nýskipaðs, sem mun að vísu telja sig enn þá vera í pólitík, sennilega á grundvelli þess að hann þiggur fyrir það biðlaun, að æðsti yfirmaður ríkisfjármála á Íslandi, hæstv. fjmrh., væri sérmenntaður í því að villa um fyrir fólki, en þegar við bættist að hann væri að upplagi ákaflega óheiðarlegur maður væri ekki von á góðu. Ég læt þetta sítat í ræðu háttvirts landsbankastjóra, fyrrum hv. þm., þess sem einhver mestur miðmundi þótti nú að í þingliði Sjálfstfl., nægja en gæti látið gamminn geysa í að lesa upp úr þingræðum hv. þm., núverandi bankastjóra, og spyrja hvort ummæli væru samboðin virðingu Alþingis, en ég minnist þess ekki að menn hafi gripið þá til þess leiks að fara að spyrja aðra ráðherra um mat þeirra eða viðhorf til slíkra ummæla.
    Ég minnist þess ekki t.d. að þegar hæstv. fyrrv. forsrh., utanrrh. og dómsmrh. lét frá sér fara þau ummæli að tiltekinn ritstjóri hér í bæ væri fulltrúi mafíu sem kenndi við ákveðið dagblað hafi aðrir stjórnmálamenn rokið upp til handa og fóta út af því máli.
    Ég minnist þess ekki þegar hæstv. fyrrv. ráðherra Matthías Bjarnason lýsti þeirri skoðun sinni á tilteknum hópi manna í þessu þjóðfélagi að þeir væru gróðapungar að aðrir þingmenn rykju til til þess að spyrja aðra ráðherra eða forustumenn í flokkum álits á þessum skoðunum.
    Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að minna á það að til er ákaflega mikilvirkur hugmyndafræðingur hér í borg, hér í þessu landi sem heitir Hannes Hólmsteinn Gissurarson og er gúrú hv. fyrirspyrjanda, hugmyndafræðingur mikill og hefur það eftir Friedman hagfræðingi að seðlabankar ættu ekki að vera til --- og það er reyndar útbreidd skoðun í Sjálfstfl. og ekki bara haldið fram af hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni að seðlabankar ættu ekki að vera til. Er ástæða til að spyrja hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson eða Hannes Hólmstein Gissurarson, háttvirtan hugmyndafræðing, að því hvort þeir eigi að biðjast afsökunar á þeim hnjóðsyrðum í garð starfsmanna Seðlabankans að þeir eru þeirrar skoðunar að stofnunin ætti alls ekki að vera til, það ætti enginn að vinna þar? Ég held ekki. Ég held að þessi orð nægi til þess að sýna hversu mikill leikaraskapur og hversu mikill kjánaskapur er fólginn í fyrirspurn af þessu tagi og það var hárrétt hjá forseta að hafna fyrirspurninni en laukrétt hjá henni, hæstv. forseta, að heimila þessa umræðu.
    Það væri ekki úr vegi að minna síðan höfund slagorðsins um ,,báknið burt``, hv. fyrirspyrjanda, manninn sem verður að lokum minnst kannski fyrst og fremst fyrir að hafa hnoðað saman þessu slagorði,

að tilefni þessara ummæla voru svar við fyrirspurn á almennum fundi þar sem undirritaður var spurður, sá sem hér stendur, hvort það væri líklegt að núverandi ríkisstjórn mundi ganga betur fram í því að framfylgja kjörorðinu um ,,báknið burt`` en hefði tekist í samstarfi við Sjálfstfl. Ég lýsti af því tilefni þeirri skoðun minni að ef menn vildu koma í veg fyrir síþenslu í ríkisbákni, ef menn vildu koma í veg fyrir sífellda fjölgun starfsmanna á vegum hins opinbera langt umfram fjölgun þjóðar skyldu menn skoða það mál t.d. út frá tvennu: Annars vegar út frá starfskröfum fjmrn., sem vinnur undir einhverri mestu herkví og álagi í þessu landi, og hins vegar starfsliðið undir ,,svörtuloftum``, í musteri peningamála og fór síðan nokkrum efnislegum orðum þar sem ég lýsti skoðunum mínum á árangri af ráðgjöf og stjórnmennsku Seðlabankans á undanförnum árum í peningamálum. Orðalagið hefði ég auðvitað átt að nota á annan veg. Ég hefði ekki átt að tala um blýanta. Ég hefði átt að tala um tölvuútskriftir sem kæmu að litlu gagni.