Vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Þetta er nokkuð athyglisverð umræða og að mörgu leyti skemmtileg þó ekki sé greiddur af henni skemmtanaskattur. Hún er athyglisverð fyrir það að þetta er fyrsta stórmálið sem Sjálfstfl. telur ástæðu til að taka fyrir í sérstakri umræðu. Það er ekki vandi frystihúsanna eða útgerðarinnar, það er ekki. Það er engin ástæða til að ræða um það. Það er ekki vandi heimilanna í landinu. Það er ekki vandi byggðarlaganna. Hvar er hinn stóri vandi í þjóðfélaginu? Hvar er sá sem helst þarf að verja, taka upp hönd fyrir og hjálpa, lítilmagninn sem þarf að styðja á hinum hála ís? Hvar er sá sem vegið er ódrengilega að af núv. ríkisstjórn? Hver er sá sem á bágt? Hverjum þarf að hjálpa? Hver er það sem gjörvöll forustusveit Sjálfstfl. þarf að taka upp hanskann fyrir í ræðustól á Alþingi? Litli maðurinn? Það er Seðlabankinn. Og verð ég að segja, virðulegi forseti, að lokum í þessari athugasemd minni að er nú illa fjarri góðu gamni hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson.