Vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hæstv. menntmrh. að fullkomin ástæða er til að efna sérstaklega til umræðu utan dagskrár um vanda frystihúsanna, sérstakrar umræðu um vanda heimilanna og til sérstakrar umræðu um vanda byggðarlaganna því auðvitað yfirgnæfir sá vandi þau óvarkáru orð utanrrh. sem hér er fjallað um. Auðvitað er það laukrétt hjá hæstv. menntmrh. að þessi ríkisstjórn hefur komið byggðarlögum og fyrirtækjum og heimilum í vanda og stefnir í mörgum byggðarlögum á vonarvöl þar sem atvinna hefur legið niðri og sums staðar er svo komið að innan fárra vikna rennur upp sá tími að fjölmargir einstaklingar fá ekki einu sinni rétt til atvinnuleysisbóta. Geta menn þá hugsað sér hvernig komið er fyrir heimilunum á slíkum stöðum. Auðvitað yfirgnæfir það allt annað í þjóðfélaginu að atvinnuleysi hafi verið í desembermánuði meira en skýrslur hafa mælt síðan 1969 sem er ótvíræður mælikvarði á hvernig þessi ríkisstjórn hefur dugað, hvernig hún hefur reynst.
    Annars stóð ég aðallega upp til að vekja athygli á þeirri ég vil segja skemmtilegu uppákomu að hv. 3. þm. Vesturl. Eiður Guðnason skuli sjá ástæðu til að reyna að kenna öðrum mönnum háttvísi. Ég hygg að það sé eitt spaugilegasta atvik sem komið hefur fyrir í sögu þingsins.