Vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Þar sem forseti hefur tilkynnt mér að ég sé síðastur ræðumanna í þessari umræðu og þar með sé umræðu lokið skal ég stytta mál mitt.
    Ég þakka virðulegum og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það kom skýrt fram hjá honum að hann er ekki sammála því sem kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. Sömuleiðis vil ég þakka hv. þingflokksformanni Alþfl. fyrir að segja það skýrt og skorinort að hann hefði ekki tekið svona til orða.
    Ég ætla ekki að hafa nein orð um kjark eða kjarkleysi hæstv. utanrrh. Hann skýldi sér á bak við aðra menn. Það gera sumir þegar illa stendur á. Ég bara minni á að fyrir menn sem halda fram t.d. að hinir og þessir séu síbrotamenn eða taka fyrir ákveðinn hóp manna og eru sjálfir í valdastöðum er það kannski stórmannlegra að fylgja þá slíkum hugmyndum eftir ef þeir meina það sem þeir eru að segja. Sjálfur hef ég skilið ráðherra svo að hann vilji Seðlabankann burt eða þá að draga úr starfsemi hans. Hann getur hnippt í sessunaut sinn, hæstv. viðskrh. og þeir unnið saman að þessu máli. Það mundi verða þeim miklu betra ef þeir ynnu með þeim hætti fremur en að flytja ræður á borð við þær sem hæstv. ráðherra hefur gert.
    Ég ætla ekki að gera langt mál úr því, en ég hélt satt að segja að gæsabóndinn úr Borgarfirðinum væri kominn hingað til að flytja varnarræðu fyrir gæsir sem hefði verið skvett vatni á. Ég ætla ekkert að gera meira úr því. Því hefur verið svarað. Ég vil einungis segja það í lokin, virðulegur forseti, að ég vonast til þess að þessar umræður hafi orðið til þess að við áttuðum okkur á að stjórnmálamenn geta talað saman á ákveðinn hátt. Við sem erum í þessum sal getum talað saman með þeim hætti sem hæstv. utanrrh. gerði af því að við getum svarað hverjir öðrum í þessum sal. Það er hins vegar umhugsunar virði fyrir okkur öll, ef við viljum að það sé tekið mark á orðum, að velja þau þá þannig að þegar til alvörunnar kemur og menn meina það sem þeir eru að segja að þá sé hægt fyrir almenning í þessu landi og aðra að segja: Þetta er það sem stjórnmálamaðurinn ætlar sér að gera, þetta er það sem hann vill.
    Í þessu kraðaki stóryrða er mikil hætta á því að merking orðanna tapist. Ég veit að þessi umræða hefur orðið til þess að skýra þetta út fyrir fólki. Ég harma það að hæstv. ráðherra skyldi ekki biðjast afsökunar á sínum ummælum, en ég þakka honum fyrir að hafa komið hér upp og gefið í skyn að vísu í frumskógarleiðangri í sinni ræðu að í raun og veru hafi það sem hann sagði ekki átt að takast bókstaflega.
    Læt ég síðan máli mínu lokið og þakka fyrir þessa umræðu sem ekki var um stórmál heldur varð að stórmáli vegna þess hvernig forseti úrskurðaði málið.