Umræður um vinnubrögð í Seðlabanka
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls um þingsköp þótt full ástæða hefði verið til. Það gerði hins vegar formaður Alþb. og hæstv. ráðherra og bar fram ósk um það, ef ég skildi hann rétt, að ýmis ummæli hans og annarra á fundum úti á landi yrðu tekin sérstaklega upp til umræðu utan dagskrár. Ef virðulegur forseti ætlar að svara þessari beiðni hæstv. fjmrh. lýsi ég mig reiðubúinn að ræða um slíkt en gegni að öðru leyti úrskurði virðulegs forseta.
    Hér hafa tveir virðulegir ráðherrar tekið fram að það eina sem Sjálfstfl. hafi lagt til í upphafi þings, þegar hæstv. ríkisstjórn þóknaðist að kalla þing saman aftur, sé að ræða um Seðlabankann. Er þetta rétt? Hver bað um utandagskrárumræðu um Seðlabankann eða um vinnubrögð þar? Sá sem hér stendur? Hver var það? Það var virðulegur forseti sem stakk upp á því að það yrði gert, tvívegis, og ég þáði það boð. Það var gerð lítil saklaus fsp. sem auðvitað átti að afgreiða með venjulegum hætti en hefur hér orðið að stórmáli, kannski sem betur fer því það getur kennt okkur þingmönnum að við eigum stundum að haga orðum okkar gagnvart öðru fólki en því sem vinnur í þessum þingsal með þeim hætti að við verðum ekki taldir vera gasprarar. Ég held að það hafi tekist. Ég held að hvert okkar finni það í hjarta sínu að það hefur tekist. Og ég heyri að menn koma nú iðrandi eftir ummæli sín úti á landi í þennan ræðustól og spyrja: Má ég ekki líka vera með af því að mig langar að biðjast afsökunar á mínum ummælum?
    Ég skildi hæstv. fjmrh. þannig. Ef minn skilningur er rangur er ég tilbúinn að ræða við hann um hans ummæli úti á landi ef virðulegur forseti leyfir að slík umræða sé tekin. Ég er tilbúinn til þess hvenær sem er. En það er ekki hægt, virðulegur forseti, og kem ég að því, að leyfa hæstv. fjmrh. að taka til máls um þingsköp og slíta síðan þá umræðu í sundur. Forseti á að gæta hlutleysis.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta nema aðeins eitt í viðbót: Menn mega ekki rugla saman Seðlabanka og starfsfólki í Seðlabanka. Og um það snerist þessi umræða.
    Virðulegur forseti. Ég veit að ég hef gengið talsvert á þolinmæði forseta. Það hafa og fleiri gert. Ég lýsi mig hins vegar stuðningsmann þess að það sé farið í gegnum ummæli hæstv. fjmrh., eins og hann hefur stungið upp á, ef hann fær leyfi til umræðu utan dagskrár, ég hélt til að biðjast afsökunar á þeim, en ef ekki þá til þess að ræða þau sérstaklega. Til þess var leikurinn gerður þegar ég bað um orðið um þingsköp.