Umræður um vinnubrögð í Seðlabanka
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Þessar umræður, sem hér hafa farið fram, held ég að hafi þjónað þeim tilgangi sem þeim var ætlað og ég ætla ekki að víkja að því. Ég vil hins vegar víkja að dagskránni vegna þeirra ummæla, sem forseti viðhafði áðan, að hann gæti ekki vegna forseta Ed. eða forseta Nd. leyft umræður um þingsköp hér. Á dagskránni stendur: Dagskrá efri deildar að loknum fundi í sameinuðu þingi. Dagskrá neðri deildar að loknum fundi í sameinuðu þingi. Dagskrá sameinaðs þings er rannsókn kjörbréfs. Þingskapaumræður eru aldrei á dagskrá. Þess vegna verður forseti að gera sér grein fyrir því að það er ekki fyrr en þessar umræður, þingskapaumræður, hafa farið fram að þessum fundi er lokið. Síðan vil ég ekki fallast á það að hæstv. fjmrh. hafi ekki rétt til þess að tala um þingsköp enda þótt hann hafi fallið í seinustu kosningum. Hann situr á þingi sem ráðherra með fullu málfrelsi og tillögurétti og það verður ekki tekið af ráðherra sem hér situr og ekki er þingmaður réttur til að tala um þingsköp frekar en annað sem hér á að ræða.