Seðlabanki Íslands
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það er orðið daglegt brauð hér í deildinni og í nefndum Alþingis að beðið sé um skjóta afgreiðslu en á hinn bóginn virðist það vera orðin regla nánast að þeim sem fylgja þessari ríkisstjórn sé heldur og frekar ömun að því að þingnefndir vandi meðferð þeirra mála sem fyrir liggja. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt, hæstv. ráðherra, að fjh.- og viðskn. taki sér nægan tíma til þess að athuga þetta mál. Eðlilegan tíma. Ég get ekki séð að ríkisstjórnin hafi verið að flýta sér við undirbúning þessa máls. Því var lofað af hæstv. forsrh. fyrir jól að stjórnarandstaðan fengi að fylgjast með vinnu að þeim efnahagsaðgerðum svokölluðum sem tilkynntar yrðu þegar þing kæmi saman. Það reyndust orðin tóm og svo langt gekk óðagotið að stjórnarandstaðan var beðin um það að taka þátt í umræðum um þessi mál á fundi deilda í gær þó svo að ekki hafi verið búið að útbýta þessum þingskjölum áður. Þingmenn áttu m.ö.o. að hlaupa til, vera reiðubúnir til þess að tala um þetta allt saman án þess að athuga málin, án þess að íhuga málin og án þess að bera saman lagatexta eins og þeir eru nú og þau frv. sem fyrir liggja, án þess að glöggva sig á einstökum efnisatriðum.
    Ég vil, herra forseti, segja að þessi vinnubrögð eru mjög ámælisverð og ég minni á að ekki einu sinni fjárlögin komust skammlaust frá þinginu vegna óðagotsins. Má raunar segja að þetta sé kannski bein afleiðing af þeim óstöðugleika sem einkennir þjóðfélagið.
    Hæstv. viðskrh. talaði áðan um það mjög fjálglega að það væri nauðsynlegt að reyna að leyfa íslenskum fyrirtækjum að njóta sambærilegra kjara á fjármagnsmarkaði eins og fyrirtæki í Efnahagsbandalaginu og talaði um árið 1992 í því sambandi. Fyrir einu ári talaði hæstv. viðskrh. og núv. hæstv. utanrrh. um nauðsyn þess að við reyndum að lagfæra skattalögin þannig að fyrirtæki hér á Íslandi gætu búið við sambærileg skattalög og fyrirtæki í helstu samkeppnislöndum okkar. Hins vegar voru þeir ekki fyrr komnir í nýja ríkisstjórn heldur en þeim þótti skattalögin engu máli skipta. Nú þarf ekki að hugsa um skattalögin. Þau eru aukaatriði. Það þarf heldur ekki að hugsa um það hvort t.d. gengi krónunnar sé rétt skráð. Bæði forsrh. og sjútvrh. lýstu því yfir í umræðunum hér á mánudaginn að hvorki samkeppnisiðnaðurinn né útflutningsframleiðslan gæti til langframa staðist það háa gengi sem nú er. Hæstv. viðskrh. er jafnframt iðnrh. svo að maður skyldi ætla a.m.k. þegar hann talar um nauðsyn þess að innlend fyrirtæki geti starfað á svipuðum grunni og fyrirtæki í Evrópubandalagslöndunum, þá skyldi maður ætla a.m.k. að hann talaði ekki um það eins og hæstv. forsrh. og fjmrh. að gengisskráningin sé afgangsstærð, afgangsstærð í íslensku efnahagslífi, eitthvað sem maður skrifar svona neðst til hliðar og ýtir svo út af borðinu. Það væri fróðlegt að heyra sjónarmið hæstv. viðskrh. á því hvort hann líti á gengisskráninguna sem afgangsstærð.

    Hæstv. viðskrh. hefur lengi verið ráðgefandi fyrir ríkisstjórnir af ýmsum toga og er þess vegna vanur því að setja sig inn í margvísleg sjónarmið og fylgja eftir margvíslegri efnahagsstefnu. Þess vegna kom það mér og öðrum ekki neitt á óvart þó hann skyldi nú vera fljótur að átta sig á því að hann ætti að taka upp nýja vaxtastefnu eftir að ný ríkisstjórn hafði sest að völdum og efast ég um að nokkur annar maður íslenskur hefði leikið betur þau hamskipti en þessi hæstv. viðskrh. Það sýnir á hinn bóginn leikaraskapinn í þessu öllu saman þegar hæstv. viðskrh. hefur þau ummæli um breytingarnar á 2. mgr. 9. gr. laga um seðlabanka, þá segir hann að breytingunni sé ætlað að skýra og skerpa inntak þessarar málsgreinar. --- Nú skulum við fletta upp hverju munar í gömlu lögunum, í núgildandi lögum og eins og lögin verða ef frv. verður samþykkt. Það er orðið ,,hóflegir og`` annars vegar og hins vegar ,,að teknu tilliti til annarra tekna innlánsstofnana``. Nú er best, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þetta upp og sjá hverju munar. Eins og greinin hljóðar í núgildandi lögum er hún svohljóðandi:
    ,,Seðlabankinn getur að fengnu samþykki ráðherra bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslendinga.``
    En eftir breytinguna á að standa: ,,til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði hóflegir og eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslendinga.``
    Nú vil ég óska eftir því að hæstv. viðskrh. útskýri fyrir okkur í deildinni hér á eftir hver sé efnisbreytingin í þessu. Hver er efnisbreytingin? Hverju breytir orðið ,,hóflegir"? Það stendur í greininni ,,eigi hærri en þeir eru að jafnaði`` og hverju breytir ,,hóflegir`` þar á undan? Síðari breytingin í greininni er ,,að teknu tilliti til annarra tekna innlánsstofnana`` og ,,til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána`` --- og síðan á að bæta við ,,að teknu tilliti til annarra tekna innlánsstofnana``. Ber að skilja hæstv. viðskrh. svo að Seðlabankinn hafi ekki unnið þannig fram að þessu? Ber að skilja hæstv. viðskrh. svo að starfsmenn Seðlabankans hafi verið að naga
blýanta í staðinn fyrir að líta á dæmið í heild og þeim hafi verið orðið bumbult af öllu blýantsátinu og þess vegna hafi þeir ekki tekið tillit til annarra tekna innlánsstofnana? Er verið að reyna að gefa það í skyn?
    Ég vil algjörlega mótmæla því að starfsfólk Seðlabankans vinni með þeim hætti. Ég held þvert á móti að starfsfólk Seðlabankans vilji vanda sín vinnubrögð mjög og hafi góða yfirsýn yfir bankareksturinn, þeir starfsmenn Seðlabankans sem um þau mál eiga að fjalla. Ég hef að vísu aldrei unnið í Seðlabanka, verið þar innan búðar, en á hinn bóginn hef ég margsinnis tekið þátt í því í störfum fjh.- og viðskn. að fræðast og draga lærdóm af því sem fulltrúar Seðlabankans hafa sagt okkur þingmönnum og ég hef ekki orðið var við annað en að þeir hafi

verið greinargóðir í sínum svörum og hafi verið fullkomlega með á nótunum. Þannig að ég álít að þessi viðbót skipti svo sem engu máli. Starfsmenn Seðlabankans munu taka tillit til annarra tekna innlánsstofnana, auðvitað eftir sem áður. Á hinn bóginn er kannski svolítið skemmtilegt að fá þessa viðbót inn í þetta lagafrv. þegar þess er gætt að lagafrv. felur í sér í tveim síðustu greinunum nýja skatta á bankakerfið.
    Í 3. gr. er talað um það að *y3/4*y af viðurlögum sem Seðlabanki ákveður skuli renna til ríkissjóðs og innheimt viðurlög á árinu 1988 skulu að *y3/4*y hlutum einnig greiðast ríkissjóði. Á árinu 1988 --- stendur í grg., hér er gert ráð fyrir bráðabirgðaákvæði um að innheimt viðurlög á árinu 1988 skuli að *y3/4*y hlutum greiðast í ríkissjóð, er þar samkvæmt framangreindu um 258 millj. kr. að ræða. Ég tók nú ekki eftir hvað hæstv. viðskrh. sagði um það áðan en ég hygg að ég muni það rétt að 251 millj. kr. eigi samkvæmt þessu að renna í ríkissjóð --- er það ekki? ( Gripið fram í: Rétt.) 251 millj. kr.
    Nú var sú nýbreytni tekin upp á sl. ári að frá 1. mars var gert ráð fyrir því, og var ákveðið nú í haust, að frá 1. mars skyldi Seðlabankinn greiða bönkunum 2% vexti af bindingarfénu. Er það ekki rétt munað? ( Viðskrh.: Jú, jú.) Ég hygg að það fé sé einhvers staðar á bilinu 170--180 millj. kr. Er það ekki rétt? Eitthvað svoleiðis. Ég hef það nú ekki nákvæmlega. Á hinn bóginn hefur ekki verið ákveðið hvort Seðlabankinn muni á þessu ári greiða vexti til viðskiptabanka og sparisjóða af bundnu fé. Nú er nauðsynlegt að fá um það upplýsingar hvernig það mál standi og hvort sú sé ætlan viðskrh. --- það er nú verið að koma öllum bankamálunum inn á skrifstofu til viðskrh., þar á nú þessi pólitíska miðstýring peningamálanna að vera og hækjan sem viðskrh. ætlar að nota --- ég biðst afsökunar að nota orðið hækja, það datt einhvern veginn út úr mér, hæstv. forseti, ég biðst nú afsökunar á því vegna þess að hækja er úr timbri rétt eins og blýantar. (Gripið fram í.) En ég ætla hins vegar ekki að nota orðið hækja og biðst afsökunar á því en auðvitað er það rétt að það má búa til marga blýanta úr hækju. En tækið sem viðskrh. ætlar að nota til þess að stjórna þessum málum er auðvitað Seðlabankinn --- auðvitað Seðlabankinn --- til miðstýringarinnar á peningakerfinu sem nú á að koma á. En ég sem sagt óska eftir að fá um það upplýsingar hvort hugmyndin sé að greiða vexti af bindifénu á þessu ári og framvegis.
    Nú fer maður að velta fyrir sér ef það er rétt að Seðlabankinn eigi að inna af hendi öll þessi hundruð milljóna króna, ýmist til viðskiptabanka, eins og ákveðið var í haust, eða til ríkissjóðs, eins og nú er búið að ákveða, hvernig og hvort Seðlabankinn standi undir þessu öllu saman. Getur Seðlabankinn greitt hundruð milljóna til ríkissjóðs öðruvísi en að taka þá peninga einhvers staðar annars staðar og hvar tekur hann peningana? Hvaðan fær Seðlabankinn sína peninga? Eigum við að ímynda okkur það að þetta sé einhvers konar sjálfrennandi lind, að hæstv. viðskrh.

hafi nú, eftir að hann komst í nýju ríkisstjórnina og fór að hugsa um nýju efnahagsráðstafanirnar núna í febrúarmánuði, hafi kannski fengið sér göngutúr hér í vatnsleysunni og séð þar vatn koma upp úr sverðinum og þá hafi honum dottið í hug að Seðlabankinn sé einhvers konar svona sjálfrennandi lind sem hægt sé að nota til þess að sækja sér í svo sem eina ausu og hella í ríkissjóð til þess að geta svo hrært í ríkissjóði og leikið sér í vatninu, svamlað í gullvatninu? Dettur hæstv. viðskrh. það í hug að Seðlabankinn sé einhver ótæmandi hít sem ekki tekur peningana frá neinum? Er það hugmyndin? Auðvitað er Seðlabankinn ekki nein slík ótæmandi hít. Auðvitað verður Seðlabankinn að taka fyrir það sem hann gerir. Og auðvitað liggur það alveg í augum uppi að það verður ekki fækkað starfsmönnum Seðlabankans núna þegar það á að láta þá bæta á sig svona miklum skuldbindingum og miklum störfum og þungum. Og auðvitað verður heldur ekki fækkað í viðskrn.
    Hæstv. utanrrh. sagði það norður á Akureyri --- og verð ég nú að segja, hæstv. forseti, að hæstv. fjmrh. getur krítað liðugt þegar hann talar um þingsköp, sem mér skilst að hann megi ekki gera, þegar hann heldur því fram að það hafi verið 400 manns sem hafi verið á fundinum fyrir norðan. Það var nú að kríta liðugt. En það má vera að hann hafi fengið glýju í augun yfir því fólki sem þó kom á þann fund. Það má vera. ( Viðskrh.: Var þingmaðurinn á fundinum?) Þingmaðurinn hefur fengið um það sannar spurnir að margir þeir sem voru á þeim fundi komu þaðan út í verra skapi en þeir fóru inn og þingmaðurinn hefur um
það sannar spurnir að mönnum hafi þótt fundurinn fremur leiðinlegur. Enn fremur hefur þingmaðurinn af því sannar spurnir að ýmislegt það sem ráðherrarnir sögðu hafi verið ógætilegt en á hinn bóginn tók almenningur fyrir norðan undir það að Jóhannes Nordal seðlabankastjóri hefði gott vit á bókmenntum, eins og hans fólk, og þóttu ekki fréttir fyrir norðan. Menn vissu það nú fyrir norðan fyrir löngu, og langt á undan ríkisstjórninni að seðlabankastjóri hefur gott vit á bókmenntum og þarf ekki fjmrh. til að segja Norðlendingum frá því.
    En ég var sem sagt að tala um það að Seðlabankinn væri engin peningavatnsleysa þó svo að hann prenti seðla. Og þeir skattar sem hæstv. viðskrh. er nú að leggja á þjóðina, ætli það sé ekki í kringum hálfur milljarður þegar allt er talið, verða auðvitað að koma einhvers staðar frá. Um leið og ríkissjóður seilist með höndina ofan í vasa Seðlabankans með þessum lögum er hann að sjálfsögðu að þyngja þær álögur sem almenningur og fyrirtækin í þessu landi verða að standa undir. ( Viðskrh.: Það er fráleit fullyrðing.) Er það fráleit fullyrðing? Ja, það er eins og ég vissi að viðskrh. taldi að hann hefði fundið lindina, peningalindina. Það vissi ég. Er ekki bara best að þyngja viðurlögin enn þá meira á bankakerfinu? Væri það ekki sniðugt að taka bara enn þá meira fé í ríkissjóð? ( Gripið fram í: Er það tillaga bankaráðsmannsins?) Það er ekki tillaga

bankaráðsmannsins, nei. En ég óska viðskrh. til hamingju með það að hann skuli hafa fundið ráð til þess að næla í ríkissjóð peninga sem hvergi koma frá og enginn finnur fyrir. Það er mikil list, en þetta er ekki nýtt sjónarmið kannski.
    Ég vil, svo að ég ekki gleymi því, taka það fram að ég er sammála því sem hér stendur um 1. gr. frv. Við það hef ég ekkert að athuga, get fallist á það.
    En í öðru lagi vil ég ítreka það sem ég sagði áðan að þessar auknu álögur eða þessi skattlagning sem er með sérkennilegum hætti á Seðlabankann mun til lengdar valda meiri vaxtamun en ella og auðvitað bitna á almenningi í gegnum viðskiptabanka og sparisjóði. Það er augljóst mál.
    Í sambandi við 2. gr. vil ég aðeins láta í ljós þá skoðun að það er mjög óheppilegt fyrir störf þingnefnda að láta þau frumvörp, sem hæstv. viðskrh. með einum eða öðrum hætti gerði grein fyrir hér áðan, m.ö.o. frv. til laga um Seðlabanka, um stjórn efnahagsmála, viðskiptabanka og frv. um breytingu á vaxtalögum --- það hefði verið eðlilegra að þessi frumvörp hefðu öll fylgst að og hægt hefði verið að vinna að þeim samtímis í fjh.- og viðskn. sömu deildar. Það er auðvitað óeðlilegt að skipta þessum frumvörpum svona á milli deildanna því að þau koma með einum eða öðrum hætti inn á sama málið.
    En vegna þess að hæstv. viðskrh. gerði hér vexti almennt að umræðuefni, þá held ég að það sé óhjákvæmilegt líka, til þess að sýna þann leikaraskap og þau óheilindi sem þessi leikaraskapur sýnir, vekja athygli á því hvernig frv. til laga um breytingu á vaxtalögum liggur fyrir, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, fyrst um 6. gr.:
    ,,1. mgr. 17. gr. laganna hljóði svo:`` Og síðan er 1. mgr. 17. gr. laganna prentuð --- Mér finnst nú skemmtilegra svona, hvort það væri hægt að kalla til einhvern þingmann til að sitja hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni einnig til þess að þessar prívatumræður sem eru hér í deildinni séu alveg hringinn. Það kemur betur út. --- Ég var að vekja athygli á því, hæstv. viðskrh. ... (Gripið fram í.) Ég var að vekja athygli á því, hæstv. viðskrh., að það hefði verið heppilegra að þessi frumvörp hefðu öll fylgst að, en vil líka vekja athygli á því að framlagning frv. til laga um breytingu á vaxtalögum er með mjög sérkennilegum hætti.
    Ég hygg, herra forseti, að sé mjög nauðsynlegt að prenta það þskj. upp, þó sú ábending eigi að vísu að koma til forseta Nd., því hér stendur: ,,6. gr. 1. mgr. 17. gr. laganna hljóði svo:`` Síðan er 1. mgr. 17. gr. laganna prentuð upp orðrétt, stafrétt. Það er svolítið öðruvísi milli lína sem orðin falla, en stafrétt nákvæmlega, báðar greinarnar. Síðan má sjá að hér er bætt við annarri málsgrein: ,,Hafi seðlabanki`` et cetera --- þannig að hér á að standa: ,,Við bætist ný málsgrein sem verði 2. mgr. og hljóði svo`` og brott falli þetta sem er fyrir ofan.
    En skýringin á því að hæstv. viðskrh. vill endilega prenta þennan lagatexta upp aftur er sú að hæstv. viðskrh. vill gefa í skyn að hann sé núna að gera eitthvað sérstakt í vaxtamálunum. En þessi grein

hljóðar svo samkvæmt gildandi lögum eins og 1. mgr. er prentuð í frv., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hver sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hagnýtir sér á óréttmætan hátt fjárþröng viðsemjanda síns eða aðstöðumun þeirra að öðru leyti til þess að áskilja sér vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar umfram gildandi vaxtamörk sambærilegra útlánsvaxta hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á þeim tíma er til skuldar er stofnað, sbr. 8. gr., skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að einu ári. Sé brot ítrekað eða sakir miklar varðar brotið varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.``
    Ég hygg að það sé rétt borið saman hjá mér í flýtinum að þetta er alveg nákvæmlega eins. ( Viðskrh.: Ekki rétt.) Er það ekki rétt? ( Viðskrh.: Það er
viðbót. ,,Séu sakir miklar eða brot ítrekað varðar það varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.``) Er það viðbót? ( Viðskrh.: Það er viðbót, já. --- Hins vegar er vaxtalagafrv. ekki til umræðu hér í deildinni.)
    Herra forseti. Ég fékk hér hjá starfsmönnum þingsins vaxtalög, ljósrit af þeim og hér stendur neðst, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sé brot ítrekað eða sakir miklar varðar brotið varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.``
    Nú væri kannski hægt að gera ráðstafanir til þess að lögin séu í sömu útgáfu hjá starfsmönnum Alþingis og í viðskrn. Það mundi auðvitað leiðrétta margvíslegan misskilning. En þetta er sem sagt algjör misskilningur hjá viðskrh. þannig að það sem hæstv. viðskrh. og ríkisstjórnin eru að reyna að gefa í skyn er það að verið sé að gera eitthvert óskaplegt átak á móti okri. Þetta er allt í lögum. En hver er viðbótin sem hæstv. viðskrh. er að koma með og er svona merkileg? Hún er þessi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hafi Seðlabanki Íslands hlutast til um vexti útlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á grundvelli 9. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, með síðari breytingum, skulu gildandi vaxtamörk útlána þau sömu og Seðlabankinn ákveður.`` --- Þetta er viðbótin. Síðan heldur greinin áfram í lögum. Ég tel rétt að lesa það einnig upp svo að myndin sé full, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Seðlabankinn getur ákveðið að tiltekinn hluti aukningar innlána eða ráðstöfunarfjár`` ... nei, þetta er nú ekki rétt hjá mér. ( Viðskrh.: Þetta er annað.) Þetta er nú annað. Síðan heldur áfram:
    ,,Ákvæði 1. mgr. tekur einnig til þeirra sem bera fyrir sig eða framselja ...`` ( Forseti: Það væri til einföldunar, hv. ræðumaður, að ræða eingöngu það frv. sem hér er á dagskrá.) Hæstv. forseti. Ég hefði nú náttúrlega kosið að hæstv. forseti hefði þá gert það meðan viðskrh. talaði, sem byrjaði á almennum inngangi um vaxtalög. Þess vegna hélt ég að það væri til umræðu. Var það misskilningur eða hefur ráðherrann eitthvað rýmri ... ( Gripið fram í: Nei, nei.) Við skulum bara tala hér um --- ráðherrann afmarkar umræðurnar og við skulum ekkert vera með þennan útúrsnúning hér, hæstv. forseti. ( Gripið fram í: Hann opnaði umræðuna.) Hann opnaði þessa

umræðu og ég tel líka nauðsynlegt að niðurlag þessarar málsgreinar komi hér fram í þingtíðindum þar sem greinilegt er að það er misvísandi texti uppi í viðskrn. Niðurlag 17. gr. er svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ákvæði 1. mgr. tekur einnig til þeirra sem bera fyrir sig eða framselja samning eins og þar er lýst eða hafa af honum óréttmætan ávinning.
    Um hlutdeild í brotum að öðru leyti og um tilraun til brota fer eftir III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Gera má lögaðila fésekt fyrir brot á lögum þessum án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má einnig gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.``
    Það liggur m.ö.o. alveg ljóst fyrir að hæstv. viðskrh. og raunar ríkisstjórnin í heild eru að reyna að skapa sér þá ímynd að þeir séu að beita sér fyrir einhverri ógnarbreytingu á lögum um Seðlabanka og ógnarbreytingu á vaxtalögum á móti okri. Þetta er bara algjörlega rangt. Þessi ákvæði eru fyrir hendi. Og eins og ég gerði glögga grein fyrir hér áðan felst ekki í því lagafrv. um Seðlabanka Íslands eitt einasta orð, ekki eitt einasta orð sem skýrir eða gerir gleggri á nokkurn hátt heimild Seðlabankans til þess að hafa afskipti af raunvöxtum útlána innlánsstofnana. Ég hef aldrei fyrr heyrt það að orðið hóflegur væri sérstaklega skýrt og glöggt. ( Gripið fram í: Það segir ekki neitt.) Það segir bara nákvæmlega ekki neitt. Ég man eftir því að við vorum oft að henda gaman að því, blaðamenn hér, þegar ég var blaðamaður hér í þinginu að einn af þeim stjórnmálamönnum sem þá settu mestan svip á Alþingi og þótti allra manna sleipastur í sínum málflutningi, hann notaði mjög oft orð eins og ,,hóflegur``, ,,hófleg kjör``, ,,sanngjarnir vextir``, ,,við eðlilegar aðstæður`` auðvitað vegna þess að það var ekki hægt að hafa neitt af honum þegar hann greip til slíkra orða. Þetta er auðvitað alveg deginum ljósara. ( Forseti: Ég þarf að biðja hv. ræðumann að fresta sinni ræðu núna þar sem komið er að þingflokksfundatíma og verður þá fram haldið kl. 6 aftur að þeim loknum. Það hafði nú verið ætlað að reyna að ljúka þessu, en það hefur verið óskað eftir því að ekki yrðu kvöldfundir þannig að það verður þá ekki, en við munum sjá til hvað við komumst áfram þá eftir kl. 6.) --- [Fundarhlé.]
    Herra forseti. Ég tek fram að mér finnst mjög óviðkunnanlegt að hæstv. forsrh. skuli ekki vera viðstaddur af því að það er honum svo mikið hjartans mál að ná niður fjármagnskostnaðinum. Og einmitt núna þegar hæstv. viðskrh. hefur svo glögglega gert grein fyrir vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar finnst mér það vera mikil synd að sú yfirlýsing skuli hafa farið fram hjá forsrh. Mér fyndist því mjög við hæfi, þegar umræður halda áfram hér í deildinni, næst þegar boðað verður til fundar í Ed. um seðlabankafrv., þá

fyndist mér mjög við hæfi að hæstv. forsrh. yrði við til þess að hann gæti þá gripið inn í eða
upplýst þingheim um sitthvað í þessu sambandi og hverjar skoðanir hans á vaxtamálunum eru nú.
    Ég var þar kominn í ræðu minni áður að ég var búinn að beina þeirri fsp. til hæstv. viðskrh. hvernig hann skildi orðið ,,hóflegur`` í 2. gr. frv. og hlakka ég mjög til að heyra hvað hann hefur um það að segja.
    Ég hafði spurt hann um það hvort búast mætti við því að viðskiptabankar og sparisjóðir fengju vexti af bundnu fé nú á árinu 1989. Þeir vextir voru 2% á sl. ári. Ég þarf ekki að vekja athygli þingdeildarinnar á því hversu önugt það er fyrir þá menn sem bera ábyrgð á fjárhag Seðlabankans að fá á sig mörg hundruð milljóna króna bakreikning frá ríkisstjórninni nú með þessu lagafrv. ( Viðskrh.: Ykkur er annt um þá seðlabankamenn í dag.) Ja, ég þarf ekki að orða hversu önugt það er fyrir þá menn. Mér þykir svolítið vænt um að hæstv. viðskrh. skuli hafa gripið fram í með þessari athugasemd: Ykkur þykir hálfvænt um þá seðlabankamenn í dag. ( V iðskrh.: Nei, ykkur er annt um þá.) Ykkur er annt um þá seðlabankamenn í dag. Það er til orð á íslensku, auðskilið: Blóraböggull. Og sá hefur verið leikur þessarar ríkisstjórnar að búa sér til blóraböggul og stærsti blóraböggullinn er Seðlabankinn. Fram undir þetta hélt ég að hæstv. viðskrh. mundi láta það duga að fjmrh., forsrh. og utanrrh., formenn stjórnarflokkanna, hentu blórabögglinum á milli sín eða træðu hann undir fótum sér, veltu honum upp úr skítnum, þessum blóraböggli. En með þessu frammíkalli hæstv. viðskrh. er augljóst að honum þykir undarlegt að við í Sjálfstfl. skulum ekki taka undir sönginn. Sú var þó tíð að hér í þessari hv. deild voru haldnar um það margar langar ræður og strangar hvaða nauðsyn okkur Íslendingum væri á því að taka seðlaprentunina í okkar landi, hvaða nauðsyn okkur væri á því að vera sjálfstæðir í efnahagslegu tilliti, hafa okkar eigin mynt, okkar eigin seðlabanka. ( Viðskrh.: Litlu verður nú Vöggur feginn.) Litlu verður Vöggur feginn. Man hæstv. viðskrh. úr hvaða sögu þetta er, litlu verður Vöggur feginn? ( Viðskrh.: Ætli það sé ekki rétt að hinn sögufróði ræðumaður svari því sjálfur?) Já, það má vera. Það má vera að það sé rétt. Þetta er úr sögum Danakonunga. Er það ekki rétt hjá mér, hæstv. forseti? Það minnir mig. En ekki er það nú kannski aðalatriðið. En það er rétt að við sóttum seðlabankavaldið í hendur Danakonungs. Ég vil samt ekki halda því fram að við höfum þegið neinar gjafir úr höndum Danakonungs eins og Vöggur gerði á sínum tíma, en við sóttum seðlabankavaldið til Danakonungs, réttinn til þess að vera með okkar eigin mynt og auðvitað ber okkur skylda til þess að halda utan um okkar eigin mynt.
    En því miður verður að segjast eins og er að það hefur verið ógæfa okkar að okkur hefur ekki tekist að halda utan um krónuna. Ég hygg að ekki sé vafi á því að ein grundvallarforsendan fyrir því að hægt sé að halda hér á landi uppi lágum raunvöxtum sé að gengi krónunnar sé rétt skráð. Ég held að ekki sé vafi á því

að of hátt gengi krónunnar hefur það í för með sér að eftirspurn er óeðlileg, hefur það í för með sér að þrengist um á lánamarkaði nema seðlar séu prentaðir í óðaönn eða opnað fyrir alla krana hvað varðar erlent fjármagn og smám saman hækka vextir óhóflega. Ég hygg að þetta sé nokkurn veginn réttur þankagangur sem auðvitað þýðir það, eins og nú er í pottinn búið, að vextir hljóta að fara hækkandi hér á landi á þessu ári nema gripið sé inn í með handafli eins og talað er um og ég veit að hæstv. viðskrh. hefur lesið DV í dag og getur þar kynnt sér hvaða einkunn Þorvaldur Gylfason prófessor gefur þeirri stefnu í vaxtamálum sem ríkisstjórnin er nú að guma svo mjög af.
    Hæstv. viðskrh. hafði orð á því að ef maður bæri saman raunvexti milli landa væri réttast að bera saman vexti af ríkisskuldabréfum. Nú minnir mig að það sé rétt munað hjá mér að í yfirlýsingu ríkisstjórnar standi einhvers staðar að ætlunin sé að vextir af ríkisvíxlum verði 5% á þessu ári. Er það ekki rétt munað hjá mér, hæstv. viðskrh.? ( Viðskrh.: Af verðtryggðum ríkisskuldabréfum.) Já, 5% af verðtryggðum ríkisskuldabréfum. Það er auðvitað alveg rétt ef maður lítur til baka, til þess tíma þegar Þorsteinn Pálsson var fjmrh. að hann lækkaði mjög vexti á ríkisskuldabréfum og gaf þannig bönkunum aukið svigrúm þannig að þeirra kaka stækkaði og náði í kjölfar þess frjálsum samningum við bankana um að þeir keyptu skuldabréf af ríkissjóði. Þetta hafði það auðvitað í för með sér að vextir hér á landi voru lægri en ella.
    Nú skal ég ekki segja um það hvernig hæstv. viðskrh. tekst að ná raunvöxtum hér á landi niður í 5%, raunvöxtum ofan á verðtryggð lán. Ég er fullkomlega sammála hæstv. viðskrh. um að það sé mjög æskilegt, en hef, eins og ég sagði, efasemdir um að hægt sé að ná því á meðan gengi er rangt skráð eins og nú er og eins illa gengur í atvinnulífinu. En þó undarlegt sé get ég ekki séð að ýmislegt í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stuðli að þessu, og nú er nauðsynlegt að víkja hér að tveim eða þrem málsgreinum í yfirlýsingu eða samþykkt ríkisstjórnarinnar, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Seðlabankanum er í samráði við viðskrn. falið að veita nafnvöxtum lánastofnana sérstakt aðhald á umþóttunartímabili í kjölfar verðstöðvunar þannig að samræmi verði á milli raunávöxtunar verðtryggðra og óverðtryggðra lánssamninga.``
    Nú langar mig í fyrsta lagi til þess að fá nánari útlistun á því frá hæstv. viðskrh. hvað hann meinar með orðinu umþóttunartími í kjölfar verðstöðvunar. Orðið gefur það til kynna, eins og það er skrifað, að það hafi safnast fyrir tilefni, eins og það er venjulega kallað, til verðhækkana hjá ýmsum aðilum í þjóðfélaginu, bæði vegna tíðra gengisfellinga og vegna ýmissa kostnaðarhækkana annarra sem að verulegu leyti eru komnar til af verulegum skattahækkunum hér á landi. Væri nú fróðlegt að fá um það upplýsingar hjá hæstv. viðskrh. hvað hann reiknar með að verðbólga verði mikil á þessum umþóttunartíma eftir

verðstöðvun. Umþóttunartíminn í þessu samhengi þýðir ekkert annað en að við eigum nú tímabil verðhækkana fyrir höndum. Ef við erum jafnframt að velta því fyrir okkur að samræmi verði milli raunávöxtunar verðtryggðra og óverðtryggðra lánssamninga, þá hlýtur það að þýða að nafnvextir beri sömu ávöxtun og reikningar sem eru verðtryggðir með vöxtum. Það hefur í för með sér hækkun nafnvaxta verulega frá því sem nú er. Ef þessi setning þýðir eitthvað, þá þýðir hún það, þannig að þegar hæstv. viðskrh. talar um það að nafnvextir hækki ekki í náinni framtíð, þá er annaðhvort um það að ræða að nafnvextir taki ekki breytingum þrátt fyrir skeið verðhækkana sem fram undan er eða þá að þetta þýðir ekki neitt. Í þessu stendur enn fremur, með leyfi forseta:
    ,,Seðlabankanum er falið að beita sér fyrir endurskoðun á ávöxtunarkjörum viðskiptaskuldabréfa og viðskiptavíxla og á skiptikjarareikningum í innlánsstofnunum.`` Það hefur kannski farið fram hjá mér áðan í ræðu hæstv. viðskrh. hvað hann á við með ,,endurskoðun á skiptikjarareikningum í innlánsstofnunum`` og ég vil þess vegna óska eftir því að hann endurtaki það sem hann sagði um það hér áðan eða gefi nánari skýringar á því hvað hann hefur í huga. Ég hygg að það sem hæstv. viðskrh. hafi í huga sé það að fella niður skiptikjarareikningana eins og þeir eru nú, að þvílíkir reikningar skuli yfir höfuð ekki vera til. Þó veit ég ekki hvað hann er að hugsa. Mér datt sem sagt í hug að það vekti fyrir ráðherranum að annaðhvort bæru reikningar verðtryggingu eða nafnvexti. Ef það er ekki það sem hæstv. viðskrh. er að fara, þá er nauðsynlegt að hann útskýri fyrir okkur hvað í þessu felst.
    Hér stendur enn fremur, með leyfi forseta: ,,Markmiðið er að stuðla að lækkun fjármagnskostnaðar fjölskyldna og fyrirtækja``, flott skal það vera, það er innskot mitt, það stendur ekki hér, flott skal það vera, ég bið afsökunar á að hafa skotið þessu inn, en svona er textinn: ,,Markmiðið er að stuðla að lækkun fjármagnskostnaðar fjölskyldna og fyrirtækja með aukinni samkeppni og hagræðingu í bankakerfinu og nánari tengslum innlends lánamarkaðar við fjármagnsmarkaði í nágrannalöndunum.
    Heimildir íslenskra fyrirtækja til þess að taka lán erlendis með ríkisábyrgð eða ábyrgð banka eða sjóða í eigu ríkisins verða takmarkaðar, en hins vegar verða heimildir fyrirtækja til að taka erlend lán á eigin ábyrgð rýmkaðar.
    Á næstu missirum verða reglur um fjármagnshreyfingar og viðskipti með fjármálaþjónustu milli Íslands og annarra landa mótaðar á grundvelli tillagna ráðherranefndar Norðurlanda um efnahagsáætlun Norðurlanda 1989--1992.
    Ríkisstjórnin leggur áherslu á að búa íslenska bankakerfið undir þær breytingar sem munu fylgja sameinuðum fjármagnsmarkaði Evrópu, m.a. með því að auka hagkvæmni þess þannig að það geti staðist samkeppni við erlenda banka hvað varðar vaxtamun,

tryggingar o.fl. Í framhaldi af því verður kannað hvort heimila megi viðurkenndum erlendum bönkum starfsemi hér á landi.``
    Svo mörg voru þau orð. Þetta segir hæstv. ráðherra að hafi í för með sér lækkun á vöxtum hér á landi. Því er ég algjörlega ósammála. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að þessar breytingar allar saman munu hafa í för með sér hækkun á vöxtum. Það er auðvitað alltaf billegt að hlaupa til útlanda og segja: Hingað koma erlendir aðilar með fjármagn sem þeir munu lána íslenskum fyrirtækjum á miklu lægri kjörum og viðráðanlegri kjörum en við getum gert sjálfir Íslendingar. Þó er það svo að Norræni fjárfestingarbankinn tekur ekki gild þau veð, hygg ég, sem einstök fyrirtæki gera, heldur leitar, a.m.k. mjög oft, bankaábyrgðar fyrir sínum lánum. Ég hygg líka að það sé alveg augljóst mál að erlendar lánastofnanir munu krefjast hærri vaxta ef íslenskir fjárfestingarlánasjóðir og bankar eru sviptir ríkisábyrgðinni. Þetta held ég að allir séu sammála um, enda hefur það verið viðurkennt í verki með því að ríkisbönkum er gert skylt að greiða sérstakan skatt eða sérstakt lántökugjald til ríkissjóðs af erlendum lánum, m.a. til þess að jafna samkeppnisstöðuna við einkabankana. Ef þessar tillögur ná fram að ganga þýða þær sjálfkrafa aukna vaxtabyrði íslensku þjóðarinnar sem heildar gagnvart útlendingum.
    Nú geta menn auðvitað haldið því fram að það muni hafa aðra kosti í för með sér og m.a. valda því að við munum reyna að stjórna okkar málum betur en nú er og vilja ýmsir halda því fram að það muni verða okkur þörf lexía. En mig langar að spyrja hæstv. viðskrh. Ef hann væri bankastjóri og hefði ekki ríkisábyrgð og stæði frammi fyrir þeirri staðreynd að við völd væri ríkisstjórn á Íslandi sem hefði tekist að ljúka því verki að brenna upp helminginn af eigin fé fyrirtækja í sjávarútvegi hér á landi á sl. ári og væri nú önnum kafinn við það að halda brennunni áfram og brenna upp það sem eftir
væri. Ef hér væri við völd ríkisstjórn sem gerði sér að vísu grein fyrir þessu, forsrh. lýsti því yfir þegar hann væri að marka nýja efnahagsstefnu að gengið væri það hátt að útflutningsatvinnuvegirnir stæðu ekki undir því og sjútvrh. sömuleiðis þannig að brennan heldur áfram. Ég held að ég muni það rétt að í skýrslu ríkisstjórnarinnar er talað um hjá bátaflotanum að hallinn sé 16 eða 18%. Eitthvað svoleiðis. Það stefnir í verulegan halla hjá frystingunni og við vitum að það er allt tvísýnt um saltfiskinn o.s.frv. Ætli hæstv. viðskrh. yrði mjög gírugur í að lána beint til þessara fyrirtækja með lægri vöxtum en nú er? Það væri fróðlegt, herra forseti, að fá það upplýst hvort t.d. viðskrh. hefur rætt það við forsrh., sem hefur mjög miklar áhyggjur af fjárfestingarkostnaði sjávarútvegsins, hvort vextirnir af afurðalánunum muni fara lækkandi ef ríkisábyrgðin stendur ekki á bak við afurðalánin. Það er a.m.k. þannig að þeir bankar sem hér standa fyrir afurðalánunum eru ríkistryggðir að því leyti. Ég held að ég fari rétt með það. Það er því alveg ljóst að það hagræði fylgir því ekki að fella

niður ríkisábyrgð af bönkum og sjóðum að menn búist við lægri vöxtum en ella. Það verða þá að vera önnur rök fyrir því ef slíkt á að gera.
    Og ef við erum að tala um það að samræma bankastarfsemi hér á landi þeim kröfum sem gerðar eru til sameinaðs fjármagnsmarkaðar í Evrópu í sambandi við erlenda banka hvað varðar vaxtamun, tryggingar og fleira, þá veit hæstv. viðskrh. það jafn vel og ég að það er ætlast til bættrar eiginfjárstöðu viðskiptabanka og ætlast til þess að eigið fé sé meira ef bankarnir lána til fyrirtækja en ef lánað er til íbúða og ég tala nú ekki um, ef ríkisábyrgð stendur á bak við útlánin. Þannig að auðvitað gerir það kröfurnar til viðskiptabankanna miklu meiri ef við ætlum þeim að starfa eins og hinir erlendu bankar gera og auðvitað er óhugsandi að íslenskir bankar muni hjálparlaust geta náð þeirri stöðu á meðan ríkisstjórn er í landinu eins og nú situr sem hefur bankann að blóraböggli, skattleggur venjulega bankastarfsemi svo að nemur hundruðum milljónum króna í ríkissjóð og hefur satt að segja engan skilning á því hvers virði efnahagslegt sjálfstæði er fyrir okkur Íslendinga. Þjóðerniskenndin er ekki meiri en svo að eina huggunarorðið sem þeir eru að reyna að gauka að þjóðinni er að þeir eigi enga þrá heitari en þá að hingað komi erlendir bankar og hefur þó ekki gengið vel að koma bönkunum hingað, þeim erlendu.
    En ég vil segja við hæstv. viðskrh. að á meðan landinu er ekki betur stjórnað en raun ber vitni, á meðan sveiflurnar í stjórn landsins eru eins og þær eru, á meðan ekki er einu sinni hægt að setja skattalög sem endast út árið þannig að það sé hægt að telja fram eftir þeim t.d. einu sinni, á meðan við völd situr ríkisstjórn sem hefur ekki metnað til þess að krónan skipti máli, á meðan við völd situr ríkisstjórn sem er svo ómerkileg að segja við þjóðina: Fram undan er tími stöðugleika í efnahagsmálum, fram undan er tími án verðhækkana, fram undan er tími án gengisfellinga, á sama tíma og sjálf ríkisstjórnin hefur það inni í sínum sáttmála að gengið skuli halda áfram að falla á næstu 2--3 mánuðum, á sama tíma og ríkisstjórnin sjálf talar um umþóttunartíma eftir verðstöðvun og á sama tíma og ríkisstjórnin sjálf veit að stjórn hennar á efnahagsmálunum hefur þegar valdið því að ríkisstjórnin telur sér nauðsynlegt að taka það vald af t.d. sveitarstjórnum að þær megi sjálfar ákveða hvernig þær verðleggi dreifiveitur. Eru sveitarstjórnir þó kosnar af fólkinu sjálfu, af almenningi og skyldi maður ætla að þær gætu sjálfar borið ábyrgð á því sem þær gera.
    Ég veit ekki hvort ástæða er til, herra forseti, að fara mikið lengra út í þetta. Hér er talað um fasta vexti á verðtryggingu. Ef vextir eru fastir á verðtryggðum lánum og lánin eru tryggð til einhvers tíma, þá þýðir það auðvitað hækkun raunvaxta á lánunum. Um leið og við bindum það í lögum eða reglugerðum að vextir á verðtryggð lán skuli vera fastir, þá þýðir það auðvitað hækkun raunvaxta. Ég tala nú ekki um eins og ástandið er núna, þegar ríkisstjórnin er byrjuð að krukka í lánskjaravísitöluna

þannig að enginn maður veit stundinni lengur hvað verðtrygging lána þýðir. Í lögunum um stjórn efnahagsmála segir á einum stað að grundvöllur verðtryggingar sé sem hér segir: ,,Miðað sé við opnbera skráða vísitölu eða vísitölur eins og þær eru reiknaðar á hverjum tíma.`` Þetta er opinn víxill fyrir því að grundvöllur lánskjaravísitölunnar verði framvegis bara samningsatriði. Það sé hægt að versla með lánskjaravísitöluna. Og það þýðir líka um leið að þessi verðmiðun í þjóðfélaginu er úr sögunni.
    Núna um síðustu áramót lék ríkisstjórnin sér að vísitölunni. Hún gerði það samtímis að hún hækkaði byggingarvísitöluna, en dró úr áhrifum þess með því að taka launavísitöluna inn með fullum þunga. Síðan er það hugsun ríkisstjórnarinnar, eins og fram kemur í yfirlýsingunni, að versla við verkalýðshreyfinguna um það í sambandi við kjarasamninga að minnka vægi kaupgjaldsins í lánskjaravísitölunni. Og þegar búið er að gera það, þá á að afnema vörugjaldið af vörum til byggingariðnaðar, sem auðvitað þýðir það að þá tekst tvívegis að nota byggingarvísitöluna og launin til þess að lækka
lánskjaravísitöluna meira en ella, fara fram hjá. Það eru svona kúnstir sem auðvitað valda því að óstöðugleikinn hér á landi mun vaxa með meiri óvissu, enda er nú svo komið eftir síðustu leiki ríkisstjórnarinnar að nauðsynlegt er fyrir þá sem við taka, fyrir þá sem raunverulega vilja standa að því að skapa hér aðhald í efnahagsmálum, raunverulega vilja vinna að jöfnuði í viðskiptunum við útlönd, raunverulega vilja byggja upp atvinnulífið og efla innlendan sparnað, þá hvílir á þeim sú þunga skylda að finna krónunni nýtt traust, finna nýja viðmiðun sem fólkið trúir á þannig að eðlilegur sparnaður geti á nýjan leik vaxið í landinu. Það er kjarni málsins.