Takmörkun rækjuveiða á næsta ári
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Það hefur þegar verið gefin út reglugerð og fréttatilkynning um takmörkun rækjuveiða á næsta ári og eins og hv. fyrirspyrjandi sagði hér er ekki ástæða til að ræða það.
    Að því er varðar rækjuvinnsluna er um að ræða svo mikinn samdrátt í vinnslunni að það mun verða mikill hráefnisskortur í rækjuvinnslu í landinu og minnir okkur enn á að það sem er aðaláhyggjuefni Íslendinga í dag er hvað við getum tekið mikið úr hafinu. Það vantar alls staðar fisk til vinnslu og víða vantar fisk á markaði og á áreiðanlega eftir að koma betur í ljós.
    Að því er varðar rækjuvinnsluna hefur það ekki enn verið ákveðið. Við höfum talið í sjútvrn. að reynslan frá síðasta ári gæfi til kynna að það væri ekki ástæða til að skipta þessu takmarkaða magni með formlegum hætti milli vinnslustöðvanna, en um það eiga sér nú stað viðræður við rækjuframleiðendur sem hafa óskað eftir því að við færum betur yfir það mál og það mun verða gert.
    Það hefur m.a. komið í ljós að mjög margir aðilar hafa ekki hafið rækjuvinnslu og er miðað við að þeir missi sín rækjuvinnsluleyfi því að þau eru takmörkuð og er mikilvægt að hreinsa þetta borð eftir því sem kostur er.
    Að því er varðar einstök frystiskip kannast ég ekki við að menn hafi verið hvattir til slíkra fjárfestinga. Það rétta í því er að aðilar voru hvattir til rækjuveiða á árunum 1983, 1984 og 185, en hins vegar hafa aldrei verið gefin slík svör. Þegar frystiskipin hafa farið út í þessa miklu fjárfestingu, m.a. að því er varðar veiðar á grálúðu, hafa menn orðið að takmarka grálúðuveiðarnar. Eins er að því er varðar rækjuna. Það kom að sjálfsögðu ekki til álita að mínu mati að veita nýjum aðilum heimild til rækjuveiða á sama tíma og þeir sem fyrir voru í greininni voru skornir svo hressilega niður sem raun ber vitni.