Takmörkun rækjuveiða á næsta ári
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Pálmi Jónsson:
    Hæstv. forseti. Í allmörg ár hafa verið í gildi lög um samræmdar veiðar og vinnslu rækju og skelfisks. Ég var á móti þessum lögum þegar þau voru samþykkt, en eigi að síður hafa þau verið í gildi. Þau þýða að sjútvrn. veitir leyfi til veiða á rækju og skelfiski og jafnframt leyfi fyrir vinnslustöðvum.
    Nú hefur hæstv. ráðherra sagt í þessum umræðum að það hafi ekki verið talið fært annað en veita leyfi þeim sem þess hafa óskað til vinnslu á rækju og lögin hafi ekki ætlast til þess að þær leyfisveitingar væru með þeim hætti að þeim aðilum væri synjað. Þá sé ég ekki til hvers lögin hafa verið sett. En með tilliti til þess að þessi lög gilda verður hæstv. ráðherra að gera sér grein fyrir því að um leið og leyfi er veitt ber sjútvrn. og hæstv. sjútvrh. ábyrgð á þeirri vinnslustöð að meira eða minna leyti, ekki einungis einstaklingarnir sjálfir. Ég held því fram að allt of frjálslega hafi verið farið með þessar leyfisveitingar með tilliti til hagsmuna þeirra sem fyrir voru í þessari grein þannig að það hefur komið niður á vinnslustöðvunum í heild að leyfi hafa of frjálslega verið veitt.
    Takmarkanir á veiðum sem er spurt um í þessari fsp. verða auðvitað líka til þess að þrengja hag þeirra vinnslustöðva sem hafa farið af stað með vinnslu og hafa verið í þessari grein í langan tíma eða frá því að vinnsla hófst.