Takmörkun rækjuveiða á næsta ári
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegi forseti. Ég skil ekki þessi síðustu ummæli hv. þm. og ætla ekki að svara sleggjudómum sem þessum sem eru algerlega rangir, en hann rökstyður það e.t.v. einhvern tíma síðar.
    Aðeins í sambandi við þessar rækjuvinnslustöðvar frekar vil ég minna á að það var á engan hátt háð leyfum að frysta á úthafinu og það fór mjög í vöxt á þessum árum. Ég vil minna hv. þm. Halldór Blöndal m.a. á að hann var sérstakur baráttumaður fyrir heimildum til svokallaðra raðsmíðaskipa sem hefðu betur aldrei komið inn í flotann og ýmislegt fleira hefur gerst sem hefur breytt þessari mynd. Nú lítur út fyrir að í mesta lagi 15--16 þús. tonn muni berast af úthafinu til stöðva í landi og ég ítreka að það er aðaláhyggjuefnið hversu lítið magnið er en það er ekki áhyggjuefni að mínu mati að koma þessari vöru á markaðinn.
    Að því er varðar það sem hv. þm. Pálmi Jónsson sagði vil ég minna á að þessi lög voru sett að því er varðar sérstaklega veiðarnar á Húnaflóa, Ísafjarðardjúpi og Eldeyjarsvæðinu og þar hefur engin breyting orðið á. Rækjumagninu hefur verið skipt í sama hlutfalli milli þessara stöðva. Hins vegar hafa margar þessara vinnslustöðva haldið áfram að fjárfesta og aukið sína vinnslugetu allverulega og þá kemur þessi spurning: Var það ætlun laganna að þær stöðvar sem fengu leyfi að því er varðar Eldeyjarsvæðið, við Ísafjarðardjúp og Húnaflóasvæðið ættu að vinna alla viðbótina sem kom af úthafinu? Ég held að hver maður hljóti að sjá að slíkt var ekki verjanlegt. Í fyrsta lagi var ljóst að frystiskipin gátu farið út í þessa vinnslu og í sumum tilvikum sögðu menn beinlínis: Ef við getum ekki fryst þessa rækju í landi hljótum við að frysta hana fyrst og fremst um borð í okkar skipum. --- Hér var úr vöndu að ráða og varð að taka tillit til þeirra aðstæðna sem upp voru komnar við túlkun laganna.
    Hitt er svo annað mál að það má alveg deila um það og halda því fram og ég get tekið undir það hvort ekki sé rétt að afnema þessi lög, hvort það sé almennt rétt að hafa leyfisbindingar að því er varðar rækjuvinnslu sérstaklega en ekki aðra fiskvinnslu. Það mega allir fara í síldarvinnslu, hv. þm. Halldór Blöndal. Það er unnin síld á fleiri stöðum en Höfn í Hornafirði. Það mega allir fara í humarvinnslu og eru engin bönn sem gilda við því. Hins vegar eru veiðarnar takmarkaðar og er þeim skipt á milli skipa og þar hefur verið jafnræðis og hlutleysis gætt.