Ábyrgð stjórnarmanna Atvinnutryggingarsjóðs
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):
    Virðulegi forseti. Í bráðabirgðalögum sem gefin voru út í haust og eru til staðfestingar á Alþingi nú, 8. mál þingsins, er fjallað um svonefndan Atvinnutryggingarsjóð. Það eru greinar í því frv. sem fjalla sérstaklega um sjóðinn sem slíkan. Í 3. og 4. gr. segir til um stjórnun þessa sjóðs. Í öðrum greinum er vikið að því að þessi sjóður muni hafa til umfjöllunar allt að 7 milljörðum kr. eftir því hvernig þess fjár verður aflað.
    Við höfum á undanförnum árum fjallað um bankalöggjöf og það hefur tekið ærinn tíma. Það er seðlabankalöggjöf, það er viðskiptabankalöggjöf, það er löggjöf um sparisjóði og í þessari löggjöf eru ítarleg ákvæði um stjórn þessara stofnana og það hvernig með skuli fara. Síðan hafa gerst þeir hlutir fyrir ekki löngu að ákveðnir aðilar sem valdir hafa verið til stjórnar þessara stofnana hafa verið dregnir til ábyrgðar sem forsvarsmenn stofnunarinnar og þar á meðal þeir aðilar sem Alþingi hefur kosið til stjórnar. Er það eftir því sem ég best veit í fyrsta skipti sem til slíks hefur þurft að koma.
    Það er því ekki óeðlilegt að spurt sé eins og ég geri á þskj. 329, 207. mál, og spyrji hæstv. forsrh. sem fer með yfirstjórn sjóðsins: Hvernig er háttað ábyrgð stjórnarmanna Atvinnutryggingarsjóðs vegna setu þeirra í stjórn sjóðsins og telur forsrh. að ábyrgðin sé sambærileg þeirri ábyrgð sem hvílir á bankaráðsmönnum og bankastjórum?
    Fyrir áramótin og fyrir jólahátíð birtist í fjölmiðlum frásögn af athugasemdum sem Ríkisendurskoðun hafði gert vegna afgreiðslu á þeim málum, ekki vegna afgreiðslunnar sem slíkrar heldur vegna upplýsinga sem Ríkisendurskoðun virtist hafa fengið og ekki þá í samræmi við það sem gert hafði verið. Ég hafði vikið að því við hæstv. forsrh. hvort ekki væri rétt og eðlilegt að Alþingi fengi að heyra umrætt bréf svo að hv. þm. þyrftu ekki að heyra eða lesa um það sem e.t.v. getgátur í fjölmiðlum.