Loðdýrarækt
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka undir þakklæti til landbrh. fyrir þá afgreiðslu sem hér hefur fengist til handa loðdýrabændum. Hér hefur verið á það minnst að það væri æskilegt að fram færi heildarúttekt á stöðu þeirra búgreina og ekki þarf ég að mæla á móti því. En ég hygg að það hafi ekki verið skrifað í kringum nokkra menn á Íslandi á síðustu árum eins mikið og loðdýrabændur og satt að segja held ég kannski að það þurfi ýmislegt fleira.
    Mér komu líka dálítið á óvart þau ummæli hv. fyrirspyrjanda að erfiðara væri að byggja upp þessa búgrein hér á landi en t.d. í Danmörku og aðstæður væru hér verri til þessarar ræktunar en þar. Ég held að svo sé ekki að öðru leyti en því að auðvitað er loðdýrabúskapurinn hér með nýrri fjárfestingu.
    Ég legg áherslu á að það verður að reyna til þrautar hvort ekki er grundvöllur fyrir þessum búskap í landinu og ef menn telja það ekki vera þarf að taka aðrar ákvarðanir að því er varðar hinar hefðbundnu búgreinar. Þó að ekki sé mikið á því byggjandi hafa borist betri fréttir af uppboðum, m.a. í Finnlandi, og þessi mál skýrast kannski eitthvað í næstu viku.
    En þrátt fyrir að ég vilji taka skýrt fram að það beri ekki að skoða sem gagnrýni frá minni hendi hefði ég þó fremur viljað kjósa að greinarnar innan loðdýraræktarinnar hefðu búið við það sama, þ.e. þeir bændur sem færðu sig úr ref og yfir í mink og hinir sem halda áfram að stunda refaræktina. ( Landbrh.: Þeir gera það.) Já, þá þarf ég ekki að spyrja frekar. En fyrirspurn mín var sú og það er best að fá það hér fram hvort refabændur sem halda áfram ræktun þeirrar greinar muni ekki fá framlagið greitt í einu lagi eins og þeir sem fara yfir í minkaræktina. Það er að sjálfsögðu grundvallaratriði.
    Að öðru leyti vil ég benda á það og leggja á það nokkra áherslu að sú fyrirgreiðsla sem hér er veitt er að mjög stórum hluta til borin uppi af sjóðum landbúnaðarins sem bændur hafa ýmist stofnað sjálfir til eða þá hefur verið samið sérstaklega um eins og í sambandi við Framleiðnisjóð til búháttabreytinga. Það vil ég sérstaklega taka hér fram, vegna þess að það er sí og æ verið að klifa á nýju fjármagni og miklu fjárstreymi yfir í landbúnaðinn, að þessu fjármagni er áður búið að ráðstafa yfir í landbúnaðinn og til þessara verkefna.
    En virðulegi forseti. Svo að ég ljúki máli mínu, þá misskilst það ekki að hæstv. landbrh. sagði í svari sínu að greiðslur til niðurfærslu á fóðurkostnaði upp á 55 millj. kæmu inn í greinina til viðbótar við endurgreiðslu á söluskatti. Þetta held ég að ég hafi tekið rétt til og þá langar mig aðeins til að spyrja um það, þetta er það fjármagn sem mér sýnist að komi nýtt inn í greinina, hvort það verði afgreitt sem aukafjárveiting eða í gegnum lánsfjárlög.