Loðdýrarækt
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Friðjón Þórðarson:
    Virðulegi forseti. Á þskj. 400 er fsp. um vanda loðdýrabænda hér á landi og hann er vissulega mikill. Það hefur margt verið gert til þess að reyna að greiða úr þessum vanda, en hann er enn þá stór í sniðum. Það er rætt um heildarúttekt. Það er frekar vinsælt orð nú á tímum og því er víða slegið fram þar sem vandamál eru á ferðinni. Það er fjarri því að það leysi öll mál en er e.t.v. gott til þess að fá heildaryfirlit um hlutina.
    Ég vil aðeins taka fram af því að að því er vikið á þskj. 400 að stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins hefur gert að ég hygg allt sem í hennar valdi hefur staðið til að greiða úr þessum vandamálum, en það hefur bara ekki dugað til. Hins vegar er hæstv. landbrh. áreiðanlega velkominn á fund deildarinnar eins og hann nefndi áðan ef það mætti verða til þess að fleiri leiðir sjáist út úr þessum miklu erfiðleikum loðdýrabænda.