Loðdýrarækt
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Stefán Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður, en þó vil ég eins og aðrir þeir sem hér hafa talað taka undir þakklæti til ráðherra og ríkisstjórnar fyrir þær aðgerðir sem gerðar hafa verið til að liðka til í þeim mikla vanda sem loðdýraræktin hefur nú átt við að glíma. Menn tala um að það þurfi að gera heildarúttekt á þessari atvinnugrein. Ég tek undir það, sem hv. þm. Egill Jónsson sagði áðan, að mikið er nú búið að skrifa um þessa grein og ég vona að menn spari sér skriffærin og starfi heldur meira. Ég held að það sé greininni mikið þarfara. Upplýsingar höfum við orðið allbærilegar um þessa ungu atvinnugrein.
    Það hefur verið fjallað um þessa atvinnustarfsemi í fjölmiðlum af mikilli vanþekkingu, því miður, og það er hluti af þeim vanda sem við er að fást. Menn hefðu gott af því að átta sig á því hvernig ástandið var þegar menn ákváðu að fara út í þessa atvinnustarfsemi. Ég held að ég fari nokkurn veginn rétt með að þá var meðalverð refaskinna á bilinu 3000--3500 kr. fyrir skinnið. Menn sjá hvar þessi atvinnugrein stæði ef við hefðum getað búið við það í einhver ár í viðbót. Með því að fara í þessa atvinnustarfsemi var gerð tilraun til að bjarga okkur úr hefðbundnum landbúnaði að hluta, menn sáu kannski ekki aðra fljótvirkari leið til þess. Við verðum að sætta okkur við að keppa á heimsmarkaði. Íslenskir bændur eru að keppa hér á heimsmarkaði og þeir eru að keppa við hátískuvöru í framleiðslu.
    Við skulum líka vera minnugir þess hvað íslenskir bændur hafa náð langt í þessari atvinnugrein þrátt fyrir að ýmislegt hafi vantað í upphafi þessarar starfsemi. Frjósemi dýra á Íslandi er orðin fyllilega sambærileg miðað við það sem gerist best á meðal okkar samkeppnisþjóða. Verð skinna af þessum dýrum er orðið fyllilega sambærilegt við það sem gerist best á meðal okkar samkeppnisþjóða. Í þriðja lagi: Það sem við eigum kannski eftir að njóta best er að við erum komnir sem betur fer, Íslendingar, með ósýktan stofn þannig að við höfum vissulega náð langt í þessari atvinnugrein og það hefur verið gáleysislegt tal um hana.
    En ástæðan fyrir því að ég stóð upp var fyrst og fremst sú að mig langar til að fá ráðherra, vegna þess að ég veit að hann á eftir að koma upp aftur, til þess að gefa aðeins gleggri svör um þriðja lið fsp. þar sem fyrirspyrjandi spyr: Hver er afstaða ráðherra til þess að viðmiðunarbústærð við lánveitingar úr Stofnlánadeild verði aukin? Ég veit að það var samþykkt að auka þessa viðmiðunarstærð, en mig langar að fá það skýrt fram. Mér fannst það vera það sem hv. þm. Egill Jónnsson var að kalla eftir, en mér fannst ráðherra ekki grípa það rétt. En ég vil fá skýrt fram: Á þetta ekki bæði við minka- og refarækt?