Loðdýrarækt
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Ég held, virðulegur forseti, sögunnar vegna að ég fari einu sinni enn með nokkrar tölur í þessu sambandi til að þetta sé nú allt saman eins skýrt og hugsast geti, bæði fyrir okkur hér inni og fjölmiðlana. Ég vona að ég taki ekki lengri tíma í það en sem nemur venjulegri örstuttri athugasemd eins og þær gerast nú hér á Alþingi.
    Aðstoð ríkissjóðs á þessu ári til að lækka framleiðslukostnaðinn er 55 millj. kr. Það er bein aðstoð greidd úr ríkissjóði.
    Síðan kemur til nýtt lán sem Framleiðnisjóður fær heimild samkvæmt lánsfjárlögum til að taka upp á 60 millj. Það er nýtt fé sem kemur inn, en verður varið til endurlána þannig að það er í raun ekki um viðbótaraðstoð að ræða heldur skuldbreytingaraðgerð sem allir skilja og eru vel kunnugir.
    Þá er í þriðja lagi flýtt greiðslum vegna búháttabreytingar svo nemur um 20 millj. kr. Þar er um flýtingu á áður ákvarðaðri aðstoð að ræða.
    Í fjórða lagi er frestun á afborgunum í Stofnlánadeild sem vonandi tekst að ganga þar frá. Þar hef ég ekki nákvæmar tölur um, en þar geta menn slegið á hverjar afborganir loðdýraræktarinnar ættu að vera á þessu ári og einhver hluti þeirra verði sem sagt færður aftur fyrir. Þetta eru þær fjórar aðgerðir sérstaklega sem varða beint fjármuni. Til viðbótar eru svo endurgreiðsla söluskatts sem menn geta lesið um í fjárlögunum og framkvæmd var líka á síðasta ári upp á 25 millj. kr. og nú hafa vonandi allir náð þessu.