Samgöngur á Austurlandi
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég lýsi ánægju minni yfir þessari þáltill., en ég vil koma því að í leiðinni í sambandi við jarðgangagerð að við erum nú að byrja í þeirri tækni hér á Íslandi svo að heitið geti í einhverjum mæli að grafa jarðgöng. Ég get ekki ímyndað mér að það eigi að vera mikið vandamál að grafa nokkra km af jarðgöngum ef það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að eiginfjárstaðan í sjávarútvegi hefði rýrnað um 13 milljarða á síðasta ári. Það eru ekki nema 17 Ólafsfjarðarjarðgöng. Það verður ekki mikið vandamál að bora þessar holur sem þarf að bora á Íslandi. Það eru tæpir 60 km í jarðgöngum sem eigið fé rýrnaði um á síðasta ári að sögn hæstv. forsrh. sjálfs. Hann hélt því fram hér á mánudaginn var.
    En ég vil bara nota tækifærið og árétta að þessar framkvæmdir í samgöngum og jarðgangagerð eru nauðsynlegar. Í samskiptum fyrirtækja við markaði eru alltaf kröfur um meiri og meiri hraða á öllum sviðum, tæknina í vinnslunni og síðan að koma vörunni á markaði. Kröfurnar um hraða eru alltaf meiri og meiri. Þar af leiðandi er óhjákvæmilegt ef við ætlum að byggja allt landið að samgöngukerfið verði þannig að fyrirtækin geti sinnt sínu hlutverki.