Samgöngur á Austurlandi
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ég biðst velvirðingar á því að hafa ekki verið kominn í upphafi fundar þegar honum var fram haldið að nýju. Ég var á hlaupum á milli húsa í hálkunni, náði ekki til upphafs fundarins. ( JSS: Það voru fleiri.) Mér virðist fleiri vera í sömu sporum ef marka má viðveruna hér, virðulegi forseti.
    Ég geri ráð fyrir því að fram hafi komið í máli frsm. hver staða þessa máls er og þurfi ég því ekki að fjölyrða mikið um það, en það liggur við að megi segja að svo rösklega hafi verið hér að unnið að þegar hafi verið búið að hrinda málinu í framkvæmd áður en tillagan kom fram því að ég hygg að það hafi verið einhverjum dögum áður en tillagan var flutt hér á Alþingi sem ég skipaði nefnd til að fara í þetta verkefni samkvæmt óskum heimamanna og með fulltrúum þeirra. Þar koma að fulltrúar einmitt frá Vegagerð ríkisins, Byggðastofnun og sveitarfélögum á svæðinu og verkefni þeirrar nefndar, sem er að störfum og mér er kunnugt um að hefur unnið nokkurt starf, haldið nokkra fundi, er einmitt að láta rannsaka þá möguleika sem eru á vegasamgöngum á miðsvæði Austurlands og jafnvel víðar.
    Ég tel líka rétt að minna á í þessu sambandi, eins og þegar hefur reyndar verið gert hér, að vegáætlun kemur til endurskoðunar núna í vetur og vonandi tekst að leggja fram innan fárra vikna tillögu að endurskoðun vegáætlunar næstu fjögur árin, fyrir næsta fjögurra ára tímabil. Enn fremur hef ég áhuga á því að koma fram endurskoðaðri langtímaáætlun sem að mínu mati er orðið mjög tímabært að færa að raunveruleikanum, rétta af miðað við framgang framkvæmda þann tíma sem langtímaáætlunin hefur verið í gildi, og setja sér ný markmið í framhaldinu og bæta þá aftan við núgildandi langtímaáætlun nýjum árafjölda samkvæmt þeirri verklagsreglu að á hverjum tíma sé fyrir hendi samþykkt vegáætlun fyrir hvert framkvæmdaár, fyrir fjögurra ára tímabil og enn fremur langtímaáætlun sem taki til enn lengri tíma. Það held ég að séu góð vinnubrögð og skynsamleg og auðvitað eiga hlutir af því tagi sem hér er fjallað um, úrlausn sérstakra samgönguerfiðleika á einhverjum tilteknum landsvæðum, að falla inn í og vera hluti af hinni samþykktu vegáætlun og langtímaáætlun hvers tíma. Þannig bind ég vonir við að verði með jarðgangagerð á Vestfjörðum og Austurlandi. Það komi hvort tveggja inn í endurskoðun vegáætlunar næsta fjögurra ára kjörtímabil, þá beinar framkvæmdir á Vestfjörðum í beinu framhaldi af Ólafsfjarðarmúla og undirbúningsrannsóknir og síðar framkvæmdir á Austurlandi. Þá er einmitt mjög gagnlegt að vinna af því tagi sem hér er vikið að og þegar hefur verið sett í gang liggi fyrir þannig að mönnum sé ekkert að vanbúnaði að velja endanlegan kost í þessum efnum, gera upp þær kostnaðaráætlanir sem síðan er hægt að hafa inni í langtímaáætlun.