Alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir till. til þál. um alþjóðaflugvöll á Egilsstöðum, en flm. eru Guðmundur H. Garðarsson og Egill Jónsson. Till. hljóðar sem hér segir:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja nú þegar undirbúning að stækkun og breytingum á Egilsstaðaflugvelli þannig að hann fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til alþjóðaflugvalla.``
    Mál þetta var lagt fram snemma á þessu þingi og er því miður núna fyrst að komast á dagskrá. Ég vil þó taka það fram að það mun ekki vera við forseta að sakast í þeim efnum, heldur hefur starf Alþingis verið með þeim hætti í vetur að þetta mál, eins og mörg önnur, hefur ekki komist á dagskrá í Sþ.
    Hér er á ferðinni mjög veigamikið mál sem mikið hefur verið í umræðunni og m.a. hefur það haft í för með sér eftir að þessi þáltill. var lögð fram að hæstv. samgrh. hefur reynt að nýta þann tíma frá því að þáltill. var lögð fram í október til að huga að því hvernig hann gæti hugsanlega sem ráðherra lagt fram sínar tillögur og hugmyndir í þessum efnum. Það kom fram í fjölmiðlum í gær að hæstv. ráðherra hefði lagt fyrir hæstv. ríkisstjórn hugmyndir um það að umræddur flugvöllur yrði gerður að alþjóðaflugvelli. Það er náttúrlega mjög smekklegt og við hæfi að núv. ríkisstjórn skuli haga vinnubrögðum þannig að þegar þingmenn leggja fram tillögur um framkvæmd mála skuli dráttur vera hafður á því að fram fari eðlileg umræða þannig að þingheimur geti fjallað um það. Í stað þess nota hæstv. ráðherrar tímann til að skoða það hvort þeir geti lagt fram einhverjar hugmyndir sem eru í stórum dráttum hinar sömu og þingmenn eru með. Um það er auðvitað allt gott að segja. Það er auðvitað allt gott um það að segja ef hæstv. ríkisstjórn vill taka upp góð mál sem þingmenn leggja fram. Því miður er þetta mál hins vegar þess eðlis að þessi dráttur var ósæmilegur og mun ég víkja að því hér á eftir í minni ræðu.
    Fáar þjóðir eiga jafnmikið undir góðum flugsamgöngum og Íslendingar. Á síðustu árum hefur mikið verið gert til að styrkja flugsamgöngur innan lands en það hefur einkum miðast við þarfir minni gerðar flugvéla. Í þeim efnum má að sjálfsögðu gera betur. En nú er brýnt að brotið verði blað í sögu flugmála á Íslandi með gerð flugvallar á Austurlandi sem fullnægi kröfum alþjóðaflugs hvað varðar flugvallarstæði, öryggisbúnað, þjónustu o.fl. þessu tengt.
    Ástæður þessa eru einkum tvíþættar. Hin veigameiri, og sú sem ræður úrslitum um að á Íslandi verði hið minnsta að vera tveir flugvellir sem fullnægja kröfum alþjóðaflugs, er að á næstu árum mun millilandaflug yfir Norður-Atlantshaf byggjast æ meir á tveggja hreyfla farþegaþotum. Þótt öllu öryggi í flugi fleygi fram er það staðreynd að bilun í öðrum hreyfli af tveimur mun auka líkur á því að farþegaþotur þurfi að leita lendingar á næsta flugvelli. Á Íslandi er aðeins einn alþjóðaflugvöllur sem getur þjónað þessu hlutverki.

    Annað veigamikið atriði er að innan tveggja ára verða allar millilandavélar Íslendinga sjálfra tveggja hreyfla farþegaþotur. Flugleiðir hafa þegar gert ráðstafanir til að kaupa fimm slíkar flugvélar sem munu verða afhentar á næstu árum. Tvær af þessum flugvélum munu taka hátt á þriðja hundrað farþega. Slíkar flugvélar flokkast undir hinar stærri í alþjóðaflugi og krefjast fullkominna flugvalla hvað varðar stærð, öryggi og þjónustu eins og ég hef áður getið um. Þær aðstæður geta skapast, t.d. ef hreyfill bilar skömmu eftir flugtak, að nauðsynlegt sé að lenda á ný.
    Alkunnugt er að flugvélar geta hafið flugtak við mjög erfið skilyrði, en hins vegar getur verið erfitt að lenda aftur á sama flugvelli vegna veðurs. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að varaflugvöllur sé fyrir hendi. Erlendis er þetta yfirleitt svo en á Íslandi er enginn slíkur varaflugvöllur við hendina. Lega landsins og veðurfar er með þeim hætti að óumflýjanlegt er að koma upp alþjóðlegum flugvelli annars staðar en á Suðvesturlandi, en þar er að sjálfsögðu Keflavíkurflugvöllur.
    Þessi mál hafa mjög verið til meðferðar hjá atvinnuflugmönnum á Íslandi og eftir að þessi þáltill. var lögð fram sl. haust var 1. flm. sent eftirfarandi bréf frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna sem mig langar til að lesa upp, með leyfi forseta. Bréfið er dagsett 17. nóv. 1988 og hljóðar sem hér segir:
    ,,Undirritaður vill fyrir hönd öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna lýsa yfir ánægju með þáltill. yðar varðandi stækkun Egilsstaðaflugvallar. Hjálögð er, yður til frekari upplýsinga um sjónarmið flugmanna, greinargerð sem samin var vegna umfjöllunar í flugráði á liðnu sumri um lengd flugbrauta á Akureyri og Egilsstöðum.``
    Undir bréfið ritar fyrir hönd öryggisnefndar FÍA Gunnar H. Guðjónsson.
    Eftir að mér barst þetta bréf átti ég nokkrar viðræður við fulltrúa Félags íslenskra atvinnuflugmanna og höfðu þeir á orði að þessi mál hefðu dregist mjög og ekki fengið þá afgreiðslu hjá hinu opinbera sem æskilegt væri og nauðsynlegt vegna öryggis í flugi til og frá Íslandi.
    Með leyfi forseta langar mig síðan að lesa greinargerð öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugamanna varðandi varaflugvelli á Íslandi. Er að þeirra
áliti um tvo staði að ræða, Akureyri og Egilsstaði:
    ,,Þegar fjallað er um varaflugvallamál okkar er óhjákvæmilegt að hafa í huga þær breytingar á flugvélum sem nú eru að verða eða eru þegar orðnar, þ.e. tveggja hreyfla flugvélar eru að leysa af hólmi þriggja og fjögurra hreyfla flugvélar í millilandaflugi. Við starfrækslu þriggja og fjögurra hreyfla flugvéla er ekki knýjandi nauðsyn að hafa varaflugvöll á Íslandi þó það sé að sjálfsögðu æskilegt frá öryggissjónarmiði. Í flugi á DC-8 flugvélum hefur ævinlega verið leitað til nágrannaflugvalla, þ.e. í Prestvík og Glasgow, ef út af hefur brugðið með Keflavíkurflugvöll og einnig á þetta við um B-727

þegar Reykjavíkur- og Akureyrarflugvellir hafa verið ónothæfir vegna veðurs og/eða brautarskilyrða að vetri til.
    Ef Keflavíkurflugvöllur er lokaður fyrir lendingar vegna veðurs en opinn fyrir flugtak er skylt að hafa tiltækan varaflugvöll innan ákveðinna fjarlægðarmarka sem ákvarðast af hreyflafjölda flugvélar. Þegar um er að ræða tveggja hreyfla flugvélar verður slíkur varaflugvöllur að vera á Íslandi vegna of mikillar fjarlægðar til annarra nothæfra flugvalla.
    Öryggisnefnd FÍA styður eindregið þá hugmynd að bæði Akureyrarflugvöllur og hinn nýi Egilsstaðaflugvöllur gegni varaflugvallarhlutverkinu og geti tekið við öllum tegundum farþegaflugvéla, nýjum og eldri, og leggur þunga áherslu á að þeir verði vel úr garði gerðir til að sinna því hlutverki á öllum árstímum. Kemur þar efst á blað frá sjónarmiði flugöryggis næg lengd flugbrauta, öryggissvæði við flugbrautir, tækjabúnaður til snjóhreinsunar, slökkvi- og björgunarbúnaður og að sjálfsögðu aðflutningstækjabúnaður eftir því sem við á.
    Þegar spurt er um nauðsynlega lengd flugbrauta verður að mati öryggisnefndar að skoða fleiri þætti en lágmarkslengd við bestu skilyrði og koma þá eftirfarandi atriði til álita:
    Hemlunarskilyrði. Gera má ráð fyrir því að verulegan hluta vetrar séu hemlunarskilyrði á brautum takmörkuð af völdum snjóa og/eða íss og hefur reynsla sýnt að bæði á Reykjavíkur- og Akureyrarflugvelli tekst í besta falli að halda hemlunarviðnámi í meðal- til góðflokknum, þ.e. 0,36--0,39, með þeim tækjakosti sem til staðar er. En oftar en ekki er hemlun aðeins í meðallagi, þ.e. 0,30--0,35, og jafnvel minni. Lágmarkshemlunarviðnám fyrir B-227 á þessum tveimur flugvöllum er meðal til góð, 0,36.
    Á þeim flugvélum sem hafa hreyfla undir vængjum, svo sem B-737, er varasamt að beita svonefndu knývendi ef nokkur óhreinindi eru á braut, til að mynda ef braut hefur verið sandborin, vegna hættu á hreyfilskemmdum. Í þeim tilfellum verður að treysta nær alfarið á hjólahemlun.
    Í sumum vindáttum er oft misvinda í aðflugi að þessum flugvöllum þó vindur sé lítill við jörðu. Það gefur flugmanni tilefni til að halda hærri aðflutningshraða en venjulega og við það getur lending, þ.e. snerting, færst lengra inn á brautina.``
    Um flugtak segir svo í greinargerð Félags ísl. atvinnuflugmanna:
    ,,Aðalatriðið er þó e.t.v. flugtakið sjálft, en þá verður ætíð að gera ráð fyrir því að hætta verði við flugtak á versta tíma og ná samt að stöðva flugvélina á brautarenda á stuttum brautum. Allir grundvallarútreikningar á flugtaksþyngd miðað við brautarlengd miðast við þurrt og autt yfirborð og að braut sé notuð endanna á milli. Það er staðreynd að öll frávik frá hreinu yfirborði brautar, t.d. vatn, snjór eða ís, auka verulega kröfur um brautarlengd miðað við sömu þyngd flugvélar og eru reiknireglur þær sem þá eru notaðar oft og tíðum ónákvæmar þannig að

það eina sem getur tryggt örugga starfrækslu flugvéla við þau skilyrði er rífleg viðbót við útreiknaða lágmarksbrautarlengd við bestu skilyrði.``
    Varðandi hindranir í brottflugi segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Hafa verður í huga að hindranir við brottflug, meðvindur í flugtaki eykur brautarþörf mjög mikið ef ekki á að koma til veruleg lækkun á flugtaksþunga.``
    Um loftþrýsting segir:
    ,,Í þessari umfjöllun verður að hafa hugfast í hvaða veðurskilyrðum er líklegt að fljúga þurfi til varaflugvallar. Það er þegar lægð fer yfir landið með sunnanátt og dimmviðri suðvestanlands. Það er alkunna að lægðir hér geta orðið nokkuð djúpar, en lágur loftþrýstingur skerðir verulega afkastagetu flugvélar.
    Þessi atriði sem upp hafa verið talin eru öll dæmigerð viðfangsefni flugmanna í daglegu starfi og er óhugsandi að líta fram hjá þeim að mati öryggisnefndar FÍA þegar ákvarða skal lengd flugbrauta á Akureyri og Egilsstöðum. Varaflugvöllur verður að vera annað og meira en nafnið eitt. Hann er sá staður sem leitað er til þegar önnur sund lokast og má því ekkert til spara að gera hann sem best úr garði til að sinna sínu hlutverki. Öryggisnefndin vill sérstaklega ítreka það sem áður er sagt um hálku á brautum og misvindi. Við búum í veðrasömu og hálendu landi og hin síbreytilegu veðurskilyrði, einkum að vetrarlagi, gera útreikninga flugvélaframleiðenda á lágmarksflugbrautalengd illa nothæfa á köflum frá sjónarmiði flugöryggis. Það má einnig telja líklegt að í náinni framtíð muni einhver hluti reglubundins
millilandaflugs okkar með stærri flugvélum fara um annan hvorn eða báða þessa flugvelli.``
    Að lokum segir í greinargerð FÍA, með leyfi forseta:
    ,,Öryggisnefnd leggur þunga áherslu á að lengingarmöguleikar flugbrautanna verði nýttir til fullnustu og telur óverjandi að flugbrautirnar á Akureyri og Egilsstöðum verði styttri en 2400 metrar samkvæmt framansögðu.``
    Lýkur hér lestri úr greinargerð Félags íslenskra atvinnuflugmanna um varaflugvöll á Íslandi.
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir þau sjónarmið sem koma fram í bréfi frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna og legg áherslu á það að við framkvæmd og gerð varaflugvallar verði þessi sjónarmið höfð að leiðarljósi.
    Þá hefur flugráð, svo sem fyrr hefur komið fram, haft þessi mál til meðferðar en ekki komist að þeirri æskilegu niðurstöðu að hér liggi fyrir hinu háa Alþingi tillögur um það hvernig eigi að koma upp varaflugvelli með þeim hætti sem kröfur eru gerðar til.
    Að mati flm. þessarar þáltill. eru Egilsstaðir á Austurlandi sá staður sem helst kemur til greina í þessum efnum og sem fyrr er sagt eru litlar líkur fyrir því að bæði Keflavíkurflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur lokist samtímis. Það er mjög

veigamikið öryggisatriði. Á Egilsstöðum er þegar fyrir öflug byggð og góður þjónustukjarni. Egilsstaðir eru miðsvæðis á Austurlandi. Með flugvelli, sem getur veitt stórum þotum þjónustu, er unnt að hefja útflutning á verðmætum vörum frá helstu framleiðslustöðum Austurlands. Alþjóðaflugvöllur á Austurlandi mun hafa mikil og góð áhrif á þróun byggðar á Íslandi og skapa óteljandi möguleika á sviði atvinnulífsins þar fyrir austan. Ég nefni m.a. í sambandi við ferðamannaiðnað og aðra uppbyggingu því tengt.
    Flm. tóku fram þegar þáltill. var lögð fram í október að þeir legðu áherslu á það að þessi till. fengi skjóta og jákvæða afgreiðslu á Alþingi svo að ríkisstjórnin gæti þegar hafið það verk sem tillagan felur í sér. Eins og ég gat um í upphafi hefur samgrh. reynt að nota tímann vel, en þó ekki betur en svo að skýrt var frá því í fjölmiðlum í gær að hann hefði lagt fram hugmyndir fyrir hæstv. ríkisstjórn, en þær hugmyndir hafa ekki enn komið fram á hv. Alþingi né þannig sundurliðaðar að um sé vitað hvernig hæstv. ráðherra hugsar sér framkvæmd þessa máls.
    Við flm. leggjum áherslu á það að ekkert verði til sparað í þessum efnum. Hér er um að ræða framkvæmd sem varðar öryggi landsmanna allra sem og allt alþjóðaflug yfir Norður-Atlantshaf.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, leggja til að að lokinni umræðu verði þessari tillögu vísað til síðari umræðu og fjvn.