Alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi lýsa nokkurri undrun minni ef ekki furðu á því hvernig hv. frsm. hóf mál sitt hér. Ef hv. flm. má vera að því að taka þátt í umræðum um sína eigin tillögu, þá þætti mér vænt um það. --- Já. Þá er okkur ekkert að vanbúnaði, hv. flm.
    Ég verð að segja alveg eins og er, hv. 14. þm. Reykv., að ég held að tillaga af þessu tagi gefi hv. þm. ekki rétt til þess að fjalla um þessi mál eins og þau séu þeirra einkaeign, eins og mönnum hafi aldrei dottið svipaðar hugsanir í hug fyrr og eins og þar með sé allt sem aðrir eru að gera eða vinna að ómerkt og í raun og veru ömurlegar tilraunir til þess að nýta sér annarra manna verk. (Gripið fram í.) Ég ætla að upplýsa hv. þm. um það hvernig þessi mál standa og það er alveg greinilega nauðsynlegt, virðulegi forseti, að ég fái að taka hv. flutningsmenn tillögunnar í ofurlitla kennslustund vegna þess að sjálf tillagan, tillögugreinin og heiti hennar, ber með sér slíkan misskilning á því máli sem hér er á ferðinni að það er óhjákvæmilegt að reyna að eyða þeim misskilningi. ( GHG: Ætlar þá ráðherrann að ... eins og öll önnur mál sem ríkisstjórnin er með?) Þegar hv. flm. sem hefur nýlokið máli sínu og hafði hér ágætan ræðutíma þagnar, þá ætla ég að reyna að upplýsa það hvernig þessi mál standa. (Gripið fram í.) Virðulegur forseti, það er ekki einleikið, þessi ókyrrð í sjálfstæðismönnum þessa daga. ( Forseti: Má ég biðja þingmenn að virða að hæstv. samgrh. er í ræðustól.) Ég tel að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson ætti ekki að taka sér flokksbróður sinn, Halldór Blöndal, til fyrirmyndar í mannasiðum hér á þinginu þessa dagana, en það ber nú á því vegna ókyrrðar hans.
    Tillagan á þskj. 52, 50. mál Sþ., hvað heitir hún? Hún heitir ,,Tillaga til þingsályktunar um alþjóðaflugvöll á Egilsstöðum.`` Og í tillgr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja nú þegar undirbúning að stækkun og breytingum á Egilsstaðaflugvelli þannig að hann fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til alþjóðaflugvalla.`` --- ,,þannig að hann [þ.e. flugvöllurinn] fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til alþjóðaflugvalla.``
    M.ö.o.: Hv. flm. telja greinilega að hann geri það ekki í dag og það þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til þess að svo verði. Ekki satt? Jú, kinkar hv. flm. kolli. Þá ætla ég að fara hér í upplýsingar sem ég hef fengið í hendur frá Flugmálastjórn og eru nýjar og í skýrslu sem ég mun gera hér nánar grein fyrir á eftir. Og hvað stendur þar? Þar er vitnað í alþjóðlegar handbækur, m.a. handbækur af því tagi sem flugmenn hafa í flugvélum sínum þegar þeir eru að fljúga í alþjóðaflugi, og segir, með leyfi forseta, í þessu gagni frá Flugmálastjórn:
    ,,Í skjali Alþjóðaflugmálastofnunarinnar merktu DOC 7383 AIS 503/72, útgefnu í júlí 1988, sem fjallar um upplýsingaþjónustu fyrir loftferðir, eru eftirtaldir flugvellir taldir alþjóðlegir flugvellir og eru

þær upplýsingar úr handbók flugmanna fyrir Ísland, AIP/Ísland: Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur fyrir áætlunarflug. Flugvellirnir á Akureyri, Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði og Sauðárkróki fyrir óreglubundið flug.``
    M.ö.o.: Egilsstaðaflugvöllur er alþjóðlegur flugvöllur í dag og skráður þannig í handbókum flugmanna og flugvellirnir í Keflavík og í Reykjavík eru það fyrir allt alþjóðlegt flug. Síðan liggur það fyrir, hv. flm., að allir flugvellir, sem fjallað er um í samþykktri 10 ára flugmálaáætlun sem unnið hefur verið eftir nú á annað ár, eiga eftir þær framkvæmdir og breytingar sem flugmálaáætlunin fjallar um að verða alþjóðlegir flugvellir í þeim skilningi að þeir munu allir uppfylla kröfur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, hver fyrir sinn stærðarflokk.
    Þá er þessi misskilningur vonandi leiðréttur í eitt skipti fyrir öll og satt best að segja, virðulegur forseti og hv. þingheimur, þá hefur mér leiðst það hversu lengi menn hafa röflað um þessa hluti án þess að afla sér einfaldlega upplýsinga um það sem hér er verið að tala um í þessari svokölluðu varaflugvallar- og flugvallarumræðu. Menn eiga að lesa sér til í gögnum hjá Flugmálastjórn, afla sér upplýsinga og vita hvað þeir eru að tala um. Það hjálpar ævinlega til þegar verið er að tala um hlutina.
    Þannig er það líka, virðulegi forseti, að flugvöllurinn á Akureyri er núna nánast að öllu leyti kominn endanlega í það form sem hann þarf að vera til að uppfylla tilmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um alþjóðlega flugvelli. Að vísu er þar frávik frá breidd öryggissvæða vegna þess að landfræðilegar aðstæður bjóða ekki upp á ýtrustu mörk, en það breytir ekki hinu að flugvöllurinn á Akureyri er þegar skráður í handbókum flugmanna úti um allan heim sem alþjóðlegur flugvöllur og hefur verið það um langt árabil sem og flugvöllurinn á Egilsstöðum.
    Síðan, virðulegur forseti, ætla ég að víkja aðeins að því hvað gert hefur verið í þessum málum í tíð núv. ríkisstjórnar. Eitt af mínum fyrstu verkum í samgrn. var að fá til mín flugmálastjóra, gera honum grein fyrir minni afstöðu og mínum óskum í þessu sambandi. Það var löngu áður en nefnd þáltill. sá
dagsins ljós þó það skipti í sjálfu sér ekki máli í þessu sambandi. Ég gerði flugmálastjóra grein fyrir því að af minni hálfu væru tekin af dagskrá öll áform um að byggja slíkan flugvöll í samvinnu við erlend hernaðaryfirvöld og ég mundi óska eftir því að Flugmálastjórn ynni sérstaklega tillögur sem lytu að því hvernig farsælast væri að við Íslendingar leystum þessi mál fyrir okkur sjálfa og sem mest innan ramma okkar eigin flugmálaáætlunar. Ég skrifaði síðan bréf til flugmálastjóra og Flugmálastjórnar og óskaði eftir slíkri vinnu, slíkum tillögum og hef nú nýlega fengið í hendur skýrslu sem er dagsett í janúar 1989. Hún er hér í rauðri bók og var sérstaklega til heiðurs ráðherranum geri ég ráð fyrir sett í þennan lit og heitir ,,Varaflugvellir fyrir millilandaflug, greinargerð frá Flugmálastjórn.`` Ég hef nú í morgun gert

ráðstafanir til þess að hv. alþm. fái senda þessa skýrslu í sín pósthólf eins fljótt og hægt er.
    Ég hef kynnt þessa skýrslu í ríkisstjórn og jafnframt mínar hugmyndir um stefnumörkun á hennar grundvelli og ef mér leyfist að víkja að því fáeinum orðum þá vil ég fá að gera það. Þær eru, þó ég ætli ekki á þessu stigi málsins að rekja þær í einstökum atriðum af eðlilegum ástæðum, þá lýtur það að því að ég tel rétt að fara í ákveðnar viðbótarúrbætur á Akureyrarflugvelli, þannig að hann geti betur þjónað núverandi hlutverki sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug sem hann hefur þegar í dag, bæði fyrir Boeing-vélar Arnarflugs og Flugleiða.
    Í öðru lagi að allar framkvæmdir á Egilsstaðaflugvelli sem þar standa yfir og verða á næstu missirum miði að því að sá flugvöllur verði fullbúinn sem alþjóðlegur flugvöllur fyrir ýtrustu afkastagetu tveggja hreyfla flugvéla og allt almennt farþegaflug. Þetta felur það í sér að reikna verður með að brautin á Egilsstöðum verði innan einhverra ára lengd og ég hef gert þar tillögu um í allt að 2700 metra. Kostnaðurinn varðandi viðbótarúrbætur á Akureyrarflugvelli hleypur samkvæmt sérstöku mati, sem ég hef einnig fengið frá Flugmálastjórn, á bilinu 50--60 millj. kr., en heildarframkvæmdir á Egilsstöðum, aukinn útbúnaður og lenging, eru tala sem nálgast 280 millj. kr.
    Í þriðja lagi þarf að mínu mati í þessari stefnumörkun að ákveða hvaða flugvellir á Íslandi skulu teljast aðaltollhafnir og ég hef þegar gert tillögu um hvaða flugvellir það verði.
    Í fjórða lagi þarf að taka þessar hugmyndir og aðrar inn í þá vinnu sem stendur yfir og lýtur að fyrstu endurskoðun samkvæmt samþykkt Alþingis á 10 ára flugmálaáætlun. En hana skal endurskoða á tveggja ára fresti og bæta þá tveggja ára tímabili við í hvert sinn. (Forseti hringir.)
    Ég heyri að virðulegur forseti er farinn að berja nokkuð í bjölluna þannig að ég ætla þá að ljúka máli mínu. Ég tel það ánægjulegt að hv. flm. hafa áhuga á þessu máli og þakka stuðning við það, hvaðan sem hann kemur, ekki síst frá hv. þm. Sjálfstfl. að staðfesta þá stefnu og þá skoðun sem ég hef barist fyrir í mörg ár að við Íslendingar eigum sjálfir að leysa þessi mál, þar með talið hið svonefnda varaflugvallarmál og að því leyti er þessi tillaga tímamótaplagg. Hún er flutt af tveimur hv. þm. Sjálfstfl. sem lýsa sig sammála þeirri stefnu að Íslendingar eigi sjálfir með eigin fé að leysa þetta svonefnda varaflugvallarspursmál.