Alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki blanda mér í deilur um eignarrétt á hugmyndum um úrbætur á Egilsstaðaflugvelli. Þetta er mál sem hefur verið í deiglunni um alllangt árabil og hafa margir komið þar að. En eigi að síður vil ég leggja örfá orð í belg í sambandi við þá tillögu sem hér er til umræðu.
    Þó að óneitanlega sé orðalag tillögunnar dálítið óljóst, þá reikna ég með að flm. hafi með flutningi hennar viljað ýta á það að varaflugvöllur fyrir millilandaflug yrði staðsettur á Egilsstöðum eða Egilsstaðaflugvöllur yrði þannig úr garði gerður að hann gæti tekið á móti því flugi. Það að Egilsstaðaflugvöllur hefur komið til greina í þessu sambandi og þykir vænlegur stafar af því að þar er mikill umferðarvöllur, vel staðsettur og veðurskilyrði eru þar mjög ólík því sem er í Keflavík og yfirgnæfandi líkur til þess að hægt sé að lenda á þeim flugvelli ef ófært er í Keflavík. Þær framkvæmdir sem gerðar eru á Egilsstaðaflugvelli koma að góðum notum í innanlandsfluginu sem er aðalstarfsemin á þessum flugvelli og verður það um ókomna tíð, þó að verulegt millilandaflug hafi farið þar fram um margra ára bil eins og t.d. til Færeyja.
    Ég fagna því að það virðist vera skriður á því að Egilsstaðaflugvöllur verði þannig úr garði gerður að hann geti tekið við millilandaflugi og farþegaflugi með ýtrustu kröfum. Ég tel að það sé rétt stefna að í beinu framhaldi af þeim framkvæmdum sem þar eiga sér stað núna að lengja þennan flugvöll í 2700 metra. Þá er hann mjög vel úr garði gerður til að taka á móti öllu millilandaflugi tveggja hreyfla þotna miðað við ýtrustu kröfur. Nauðsynlegt er að staðfesta það að Egilsstaðaflugvöllur verði tollhöfn eins og þörf er á við alla alþjóðlega flugvelli. Það er nauðsynlegt, ekki síður vegna innanlandsflugsins, að snjóhreinsibúnaður og brunavarnir á þessum velli verði í samræmi við alþjóðlegar kröfur.
    Sem betur fer hefur mikið skeð í flugmálum síðustu árin síðan flugmálaáætlun var samþykkt. Það var vissulega brotið blað í þeim efnum með samþykkt þeirrar áætlunar. Það eru nú þegar í gangi miklar framkvæmdir á Egilsstaðaflugvelli, endurbygging flugbrautarinnar, endurbygging flugstöðvarinnar og endurnýjun aðflugstækja sem eru í samræmi við þær kröfur sem eru gerðar til varaflugvallar. Ég tek undir það að e.t.v. hefur þessi varaflugvallarumræða verið nokkuð á villigötum. Allir vellir sem fullnægja kröfum eru að sjálfsögðu varaflugvellir og það er ákvörðun flugstjóra í hvert sinn hvaða flugvöllur er notaður. Aðalatriðið er að þær framkvæmdir sem við gerum í þessu efni nýtist vel, bæði í innanlandsflugi og millilandaflugi.
    Ég held að þessi tillaga sé góðra gjalda verð og ég vil taka undir hana þó að vissulega mætti hún kannski vera dálítið nákvæmar orðuð en raun er á, en ég er sammála efni hennar og vil taka undir vilja flm. Einnig vil ég fagna því og vona að það verði ekki látið standa við orðin tóm, og haldið áfram framkvæmdum á Egilsstaðaflugvelli. Sú flugbraut sem

nú er í byggingu lengd og snjóruðningstæki og brunavarnir á vellinum verði í takt við þær kröfur sem gerðar eru í millilandaflugi.