Alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Stefán Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Hér erum við enn og aftur komin að því að ræða um varaflugvöll. Ég er með hér fyrir framan mig till. til þál. sem flutt var á 109. löggjafarþingi um varaflugvöll fyrir millilandaflug á Akureyri, en 1. flm. var þá hæstv. núv. samgrh. ásamt öllum öðrum þingmönnum Norðurl. e. Ég fór þá nokkuð ítarlega yfir þessi mál, þessi varaflugvallarmál og mig langar aðeins til þess að rifja upp það sem stendur í fyrrnefndri þáltill., en í fskj. sem henni fylgir segir svo í grg. frá hinum virta flugstjóra og forstjóra Flugfélags Norðurlands, Sigurði Aðalsteinssyni:
    ,,Mikið hefur verið rætt um hugsanlegan varaflugvöll fyrir millilandaflugið, en því miður hafa sjónarmið flestra verið lituð af eigin hagsmunum og héraðaríg.`` --- Trúlega er nokkuð til í þessu enda hefur mönnum fundist að hér væri verið að takast á um nokkuð stórt mál. Síðar segir þessi ágæti flugstjóri:
    ,,Á meðan enginn áþreifanlegur áhugi erlendra þjóða eða samtaka er á varaflugvelli á Íslandi verður að telja líklegt að íslenskir skattgreiðendur standi undir gerð og rekstri þess flugvallar eins og raunar öllum samgöngubótum hér á landi í seinni tíð. Af þessum sökum tel ég rétt að fara varlega í fjárfestingar og miða framkvæmdir við þarfir Íslendinga sjálfra nú og í næstu framtíð.``
    Síðar segir Sigurður Aðalsteinsson:
    ,,Ef við lítum á þá fjóra flugvelli sem oft hafa verið nefndir í þessu sambandi og liggja utan veðursvæðis Reykjanesskagans, þá eru aðflugs- og veðurfarsskilyrði líklega best á Sauðárkróki. Síðan koma Egilsstaðir, Húsavík og Akureyri. Ef við ljáum máls á einhverri málamiðlun og látum arðsemi framkvæmda og rekstur ráða gæti röðin vissulega orðið önnur.``
    Þetta eru ummæli þess ágæta manns í fskj. með till. til þál. sem hæstv. núv. samgrh. flutti. Ég vitna til annarra umsagna úr fskj. með þessari þáltill. Það er viðtal sem Albert Jónsson fréttamaður átti við Hilmar Baldursson flugmann, sem þá var varaformaður flugráðs. Ég vitna til þess hvað hann segir um þessa tillögu, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hilmar Baldursson, varaformaður flugráðs og flugmaður á DC-8 hjá Flugleiðum, telur litlar líkur á að varaflugvöllur verði byggður við Sauðárkrók ef gera eigi það fyrir íslenskt fé. Því verða menn að beina sjónum að öðrum og ódýrari kostum. Og Hilmar heldur áfram: ,,Ég er sammála þeirri niðurstöðu sem komið hefur verið að varðandi samanburð á Akureyri og Sauðárkróki [og nú legg ég áherslu á] að flugtæknilega og veðurfarslega er Sauðárkrókur mun betri kostur, en ég sé ekki í sjónmáli að búinn verði til flugvöllur á Sauðárkróki kostnaðarins vegna.``
    Hæstv. forseti, hér er líka frv. til laga um flugmálaáætlun sem hér var lögð fram. Ég vil leyfa mér í örstuttu máli, vegna þess að tíminn er ekki langur til þess að fjalla um þetta nú, að vitna til þess sem segir á bls. 125, nál. um till. um varaflugvöll

fyrir millilandaflug. Þar er vitnað til nefndar sem var skipuð og skilaði af sér 9. okt. 1980 og var undir formennsku þess mæta flugstjóra, Jóhannesar Snorrasonar. Nefndin skilaði af sér störfum og sagði m.a.:
    ,,Þar kemur fram að athugaðir hafa verið í þessu sambandi flugvellirnir á Akureyri, Egilsstöðum, Húsavík og Sauðárkróki. --- Alltaf erum við með sömu flugvellina í athugun. --- Niðurstaða nefndarinnar varð sú að Sauðárkrókur væri hagstæðasta valið og mætti völlurinn þeim kröfum sem gerðar yrðu til slíks flugvallar.``
    Þá kemur einnig fram í þessu frv. að menn leituðu álits Flugleiða á þessum orðum og hér stendur:
    ,,Þá kemur fram að Flugleiðir eru sammála niðurstöðu nefndarinnar frá 1980 um að Sauðárkrókur sé hagstæðasti kosturinn.`` Og aðeins neðar á sömu blaðsíðu segir, því það var einnig leitað til Arnarflugs um hvaða álit þeir hefðu á niðurstöðum áætlunar og tillagna þessara mætu manna, þar stendur: ,,Arnarflug mælir því eindregið með því að Sauðárkróksflugvöllur verði byggður upp sem aðalvaraflugvöllur á Íslandi fyrir millilandaflug.``
    Síðan var sett nefnd á laggirnar undir formennsku Birgis Ísl. Gunnarssonar. Sú nefnd starfaði mikið og skilaði einnig áliti og niðurstöður álits þeirrar nefndar voru einfaldlega þær að nefndin staðfesti í öllum meginefnum niðurstöður nefndar þeirrar sem Jóhannes Snorrason hafði veitt forstöðu.
    Mér hefur hins vegar blöskrað sú umræða sem farið hefur fram um þetta varaflugvallarmál. Mér finnst hún vera komin út í miklar ógöngur. Mér finnst menn vera að tala um peningana í þessum efnum. Í mínum huga skiptir það ekki nokkru máli hvort þessi flugvöllur kostar okkur einhverjum tugum milljónanna meira eða minna. Ég hef litið svo á að við værum að tala um að byggja varaflugvöll öryggisins vegna, vegna flugfarþega og flugáhafna. Við höfum Keflavíkurflugvöll vitaskuld og ég hef alla tíð skilið umræðuna svo að við værum fyrst og fremst að byggja upp varaflugvöll sem mundi þjóna okkur Íslendingum þegar Keflavíkurflugvöllur væri lokaður.
    Ég endurtek það að í mínum huga skiptir það langmestu máli hvar öryggið er
mest og ég trúi því og beini því til hæstv. núv. samgrh. að hann láti ekki annarleg sjónarmið, ég segi það hér úr þessum ræðustól, að hann láti ekki annarleg sjónarmið ráða gerðum sínum í þessum efnum. Menn tala um kostnaðartölur og það má sjálfsagt reikna þær fram og aftur. En vita menn það hvar lengsta flugbraut á Íslandi utan Keflavíkur og Reykjavíkur er? Á Egilsstöðum? Húsavík? Akureyri? Nei. Lengsta flugbrautin er á Sauðárkróki þegar í dag. Þar er lengsta flugbrautin. Það má deila um það þegar menn setja upp kostnaðartölur hvort menn eru að tala um að þar eigi eftir að malbika flugvöllinn. En ætla menn ekki að malbika flugvöll á Sauðárkróki ef hann verður ekki gerður að varaflugvelli? Ég spyr, þegar menn eru að tala um stofnkostnað.
    Ég endurtek það, og læt það vera mín lokaorð í

þessu máli vegna þess að mér finnst þetta mál vera orðið heldur óskemmtilegt hér í umræðu. Varaflugvallarmálið er miklu alvarlegra en mér finnst að menn hér geri sér grein fyrir. Ég efast um að þeir sem um þessi mál hafa fjallað í seinni tíð hafi raunverulega það bak og þá burði til að axla þá ábyrgð sem þeir hafa tekið með þeim úrskurði sem þeir hafa nú lagt á borðið.