Alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um það að flugsamgöngur eru og verða okkur Íslendingum mjög mikilvægar og ég tel einmitt að við eigum að endurskoða flugmálaáætlunina núna út frá því að líklega felur þróunin það í sér að við Íslendingar þurfum að setja okkur stærri markmið í þeim efnum en við höfum hingað til gert. Ég hef sérstaklega lagt fyrir að flugmálaáætlunin verði endurskoðuð, m.a. með það í huga að í hverjum landshluta og öllum mikilvægustu héruðum verði flugvellir sem geti boðið upp á beina flutninga fragtflugvéla eða samsöfnun á fragt í tengslum við beint fragtflug til útlanda. Það held ég að verði mjög mikilvægt á næstu árum í sambandi við að koma okkar framleiðsluvörum á markað.
    Ég vil leggja á það áherslu að í þessu sambandi eru flugráð og Flugmálastjórn hinn faglegi aðili. Og ég fullvissa hv. þm. Stefán Guðmundsson um það að ég hef ekki áhuga á því að vinna að þessu máli á grundvelli ,,annarlegra sjónarmiða`` eins og hv. þm. orðaði það. ( StG: Ég var ekki að tala til þín.) Ég vona ekki. Ég hef fyrst og fremst áhuga á því að láta vinna upp í mínar hendur greinargóðar upplýsingar og tillögur af færustu mönnum sem byggja á faglegu mati, faglegri þekkingu, og taka ákvarðanir í samræmi við það. Ég mun að öllu leyti styðjast við tillögur og meðmæli Flugmálastjórnar og flugráðs við mína stefnumörkun og ákvarðanatekt. Þær stangast ekki á í sjálfu sér, hv. þm., vegna þess að það er ekki sanngjarnt að bera saman eldri og nýrri upplýsingar. Það hefur þegar farið fram gríðarlega mikil vinna í þessu efni núna á síðustu missirum og ítarleg skýrsla kom út um þetta mál á síðasta ári, sú langítarlegasta og viðamesta sem hingað til hefur verið unnin. Þar kemst flugráð, og þeir höfundar skýrslunnar, að hluta til að nýrri niðurstöðu sem byggir m.a. á ítarlegri úttekt og ítarlegri gögnum en nokkurn tíma áður hafa verið unnin upp um þessi mál. ( StG: En landakortið er það sama.) Ja, þau eru nú misgóð landakortin, hins vegar er landafræðin kannski svipuð.
    Varðandi það sem hv. þm. Kristinn Pétursson sagði um flug flugfélagsins Flying Tigers hingað, þá vil ég segja að það er ekki rétt að það mundi spara þeim einhverjar ómældar fjárhæðir ef hér væri 3000 m flugbraut, einfaldlega vegna þess að 2700 m löng flugbraut, eins og ég tel skynsamlegt að reikna með að verði á Egilsstöðum, er meira en nógu löng fyrir slíkar flugvélar til að lenda. Hér er ekki um öryggissjónarmið að ræða. Það skiptir hins vegar máli varðandi arðsemi eða notagildi flugvallarins upp á það til að gera hvort flugvélarnar geti fulllestaðar hafið sig á loft. Það er allt annar handleggur. Aðalatriðið frá öryggissjónarmiðinu er að þær geti lent og það geta þær á mun styttri flugbraut en þetta.
    Það sem skiptir mestu máli að menn hafi í huga er að samkvæmt núverandi flugmálaáætlun okkar Íslendinga, sem í gildi er og verið er að framkvæma, eru að verða til í landinu margir varaflugvellir, ekki

fáir, margir alþjóðlegir flugvellir, tugir alþjóðlegra flugvalla. Og það getum við, með því að ákvarða að þeir séu tollhafnir, endanlega stimplað. ( FrS: Hve margir tugir?) Í bréfi frá flugmálastjóra, sem ég hef fengið með þessari skýrslu sem þingmenn fá í sín pósthólf innan tíðar, segir --- og ég vil leyfa mér að vitna orðrétt í bréf flugmálastjóra. (Gripið fram í.) Ég legg til, virðulegur forseti, að þessi frammíköll verði dregin frá ræðutíma mínum. Það kemur sér vel að menn kalli fram í á meðan ég er að leita að þessu sem ég ætlaði að lesa upp fyrir hv. þm. úr bréfi frá Flugmálastjórn. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Nú er ljóst að öryggiskröfur í flugi kalla ekki á gerð sérstaks flugvallar umfram það sem ákveðið er í flugmálaáætlun heldur ráða þjóðarhagsmunir.``
    M.ö.o.: Vegna öryggisins þarf engar frekari framkvæmdir í þessum málum heldur en núverandi flugmálaáætlun gerir ráð fyrir. Það hef ég hér uppáskrifað og stimplað frá flugmálastjóra og Flugmálastjórn eftir ítarlega athugun á þessum málum. Hins vegar er það að mörgu leyti mjög æskilegt að við eignumst enn betri flugvelli, enn öflugri. Það er þannig með flugmenn að þeir segja gjarnan: Þeim mun lengri braut, þeim mun betra. Þeir segja það gjarnan. Þess vegna er það svo að ég tel eftir sem áður, þó að þess sé ekki þörf frá öryggissjónarmiðum, að við eigum að reikna með frekari framkvæmdum á Egilsstaðaflugvelli.
    Varðandi tillöguna um varaflugvöll á Akureyri þá er það nú í fyrsta lagi þannig að Akureyrarflugvöllur er varaflugvöllur í dag. Þess vegna ber okkur að reyna að búa hann sem best út. Í öðru lagi er hann sá flugvöllur sem er langlengst kominn af innlendum flugvöllum, öðrum en í Reykjavík og Keflavík. Í þriðja lagi er hann orðinn best búinn tækjum. Í fjórða lagi er mest notkun á Akureyrarflugvelli, þar eru lengstar vaktir, þar eru menntaðir flugmálastjórar á vakt o.s.frv. Það er því mjög skynsamlegt að við búum hann betur út og látum hann þjóna þessu hlutverki, a.m.k. á meðan við bíðum eftir öðrum völlum eins og Egilsstaðaflugvelli. En innan kannski 10--12 ára munu flugstjórar, sem eru að koma upp að landinu, eins og ég sagði nú reyndar við fréttamann í gærkvöldi og þjóðin hefur e.t.v. horft á í sjónvarpinu, væntanlega ekki hafa bara um einn flugvöll að velja ef þeirra áætlunarflugvöllur lokast heldur tvo, þrjá,
fjóra, jafnvel sex, sjö flugvelli og það er vissulega æskilegt og gott. Þetta er a.m.k. mín framtíðarsýn og ég tel að við eigum ekki að setja okkur markið lægra.
    Ég vil nefna eitt í viðbót sem er ánægjuleg framþróun sem átt hefur sér stað á Akureyrarflugvelli og sannast þar enn það sem ég flutti um tillögu hér fyrir mörgum árum síðan að þar væru verulegir möguleikar til framþróunar. Þar var settur upp á sl. hausti nýr aðflugsradar sem Flugmálastjórn hefur núna prófað. Ég vil leyfa mér að lesa fáein orð úr þeirri niðurstöðu því þau eru ánægjuleg tíðindi sem ég held að eigi erindi til manna. Með leyfi forseta segir um bætt aðflug fyrir Akureyrarflugvöll:

    ,,Þann 12. janúar 1989 fór Hörður Sveinsson til Akureyrar og flugprófaði ný aðflug sem miðuðu að því að koma flugvélum nær flugbrautarendanum og í lægri hæðir með aðstoð radars. [Þ.e. þessa nýja aðflugsradars sem þar var settur upp sl. haust.] Útkoman var góð og eru þarna líklega að opnast möguleikar fyrir bættu aðflugi bæði úr norðri og suðri.`` Síðan er farið ofan í það hversu lágmarksflughæðir ættu að lækka í framhaldi af þessum nýja tæknibúnaði o.s.frv. Þannig að bæði tæknin og þekkingin, ef við höfum nennu til þess að afla okkur hennar, vinna með okkur í þessu máli.