Alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það er óhjákvæmilegt við þessar umræður að vekja athygli á því að þau fádæmi gerðust í gærkvöldi í sjónvarpinu að hæstv. samgrh. lýsti því yfir að varaflugvöllur í Aðaldal væri ekki á borðinu í samgrn., væri ekki í myndinni. Ástæðan fyrir þessu er að sjálfsögðu sú að vegna fordóma Alþb. almennt og sérstaklega fordóma þessa hæstv. ráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, er Alþb. nú með öllum ráðum að reyna að koma í veg fyrir það að hagkvæmniathugun geti farið fram á því á kostnað mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins hvar hagkvæmast sé að varaflugvöllur sé lagður hér á landi.
    Ég tel, hæstv. forseti, óhjákvæmilegt vegna þeirra umræðna sem um þetta hafa fallið utan þingsins og vegna þess sérstaklega sem hæstv. utanrrh. hefur sagt um þessi mál að umræðunni sé frestað og hann sé kvaddur hingað til þess að hann geti gert grein fyrir sinni skoðun á málinu og vil óska eftir því að hæstv. utanrrh. sé kallaður til á fundinn og að hlé sé gert á umræðunni nú af þeim sökum. ( Forseti: Það mun verða reynt að ná í utanrrh. Hann er á leiðinni hingað er mér kunnugt um. En ég vil mælast til þess að hv. þm. haldi máli sínu áfram þar til ráðherra kemur.) Það er guðvelkomið og er mér ljúft að verða við því.
    Ég vil taka það fram að þessi ódæmi sem lýstu sér í ummælum hæstv. samgrh. í sjónvarpinu í gærkvöldi hafa að sjálfsögðu valdið því að ég hef tekið málið upp með sérstakri fsp. hér í þinginu sem er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt og gerir ráð fyrir því að hæstv. samgrh. muni svara því sérstaklega hvaða mál hann hafi uppi á borðinu hjá sér og hver ekki og væri kannski forvitnilegt að fá að vita svo um ýmsa aðra ráðherra, hvernig þeir haga sínum vinnubrögðum að þessu leyti. En kjarni málsins er að sjálfsögðu sá að okkur Íslendingum yrði mikill hagur að því ef hér gæti risið myndarlegur varaflugvöllur. Ég skal á þessari stundu ekkert um það fullyrða hvort hann yrði endilega í Aðaldalnum. Það eru ekki mín orð. Það sem verið er að tala um er eingöngu það að hagkvæmniathugun fari fram á því hvar slíkur varaflugvöllur skuli vera. Ég vil í því sambandi minna sérstaklega á að Danir leggja nú mikið kapp á það að ná þessum varaflugvelli til Grænlands. En það má vera að það sé kannski í léttu rúmi hjá þeim alþýðubandalagsmönnun hvernig okkar hagsmunum sé að þessu leyti sinnt, enda þekkjum við það og vitum að samúð þeirra alþýðubandalagsmanna eftir að þeir skiptu um nafn hefur ekki fremur verið með lýðræðisþjóðum í sambandi við öryggismálin. Samúð þeirra hefur ekki verið með þeim frjálsu þjóðum hér í Vestur-Evrópu sem við viljum standa með, fremur en þegar þeir hétu Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn eða þegar þeir hétu Kommúnistaflokkur Íslands. Það má segja að strengurinn sé sá sami og maður getur fikrað sig aftur í tímann eftir honum hvort sem maður lítur til hæstv. menntmrh. eða hæstv. forseta þessarar deildar. Þingmenn þekkja hinar óbilgjörnu skoðanir sem báðir

þessir fulltrúar Alþb. hafa í utanríkis- og öryggismálum og þá fyrirlitningu sem oft hefur komið fram í þeirra orðræðum fyrir því að dyggilega sé staðinn vörður um öryggi hinna vestrænu þjóða. En einmitt styrkur Atlantshafsbandalagsins og samheldni hinna frjálsu þjóða hefur valdið því að e.t.v. getum við horft fram á það fyrr en við ætluðum að afvopnun takist og friðvænlegt geti kallast í heiminum. Má vera að við lifum það og auðvitað er það vegna samstöðu hinna frjálsu þjóða, þeirra þjóða sem virða almenn mannréttindi.
    Þessi afstaða hæstv. samgrh., þ.e. sú að hann á erfitt með að sætta sig við varnarbandalag hinna lýðfrjálsu þjóða og getur ekki tileinkað sér þau grundvallarsjónarmið sem liggja að baki frelsisbaráttu vestrænna þjóða, veldur því að hann getur ekki sinnt þeirri sjálfsögðu embættisskyldu sinni sem ráðherra að bregðast vel við þegar mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins býðst til þess að kosta hagkvæmniathugun á því hvar varaflugvöllur skuli vera hér á landi, varaflugvöllur þar sem engir hermenn verða við vinnu eða standa á verði, varaflugvöllur þar sem eingöngu Íslendingar munu starfa, varaflugvöllur sem verður opinn allan sólarhringinn og mun að sjálfsögðu, ef svo skyldi fara að hann yrði staðsettur í Aðaldal, vera mikil lyftistöng fyrir þessar byggðir við Eyjafjörð og Skjálfanda þar sem ríflega tíundi hluti þjóðarinnar býr. Þarf auðvitað ekki að fara mörgum orðum um að ef þingmenn Norðurl. e. bera hagsmuni byggðarlaganna fyrir norðan fyrir brjósti og þess fólks sem þar býr hljóta þeir að standa saman um það sem einn maður að þessi byggðarlög geti færst nær umheiminum, ekki aðeins af þægindaástæðum heldur líka af markaðsástæðum nú þegar okkur dreymir t.d. um að efla fiskeldi í Öxarfirði. Þegar okkur dreymir um að nýta hinar gjöfulu auðlindir hafsins norðan- og norðaustanlands er auðvitað mjög þýðingarmikið að slíkur flugvöllur rísi í þessum héruðum og þjónustu verði haldið uppi allan sólarhringinn. Ég vænti þess að hæstv. samgrh. sjái að sér og muni taka þetta mál upp með öðrum hætti þegar hann hefur áttað sig.
    Til allrar hamingju stendur nú svo á að hæstv. forsrh. er staddur hér í sameinuðu þingi og ég vil af þeim ástæðum beina þeirri fyrirspurn til hans
hvort það sé með hans samþykki sem hæstv. samgrh. hefur hafnað því einhliða að hagkvæmniathugun á varaflugvelli hér á landi verði kostuð af mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Hefur slík samþykkt verið gerð í ríkisstjórn Íslands? Ef svo er, er það þá samhljóða álit hæstv. ríkisstjórnar? Hefur hæstv. utanrrh. samþykkt það sem kom fram í ummælum hæstv. samgrh. að því verði hafnað að mannvirkjasjóðurinn kosti slíka hagkvæmniathugun eða er samkomulag um það innan ríkisstjórnarinnar að hver ráðherra skuli tala um þetta rétt eins og honum sýnist eftir því hvar hann er staddur? Um þetta er auðvitað nauðsynlegt að fá skýrar upplýsingar.
    Ég vil minna hæstv. forseta á að ég er að reyna að verða við hans beiðni um að tala þangað til hæstv.

utanrrh. kemur hingað í salinn. Ef hæstv. forseti vill hins vegar losa mig undan þeirri kvöð er ég mjög þakklátur og skal rýma ræðustólinn.