Alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það er dæmigert fyrir málflutning alþýðubandalagsmanna að geta ekki sagt satt orð þegar kemur að þessum málaflokki. Ég hafði beðið um orðið áður en hv. 1. þm. Reykv. tók til máls en hæstv. samgrh. tróð sér inn fram fyrir þingmenn eins og ráðherrar hafa heimild til og tók til máls áður en kom að minni ræðu. Það er því ekki við mig að sakast þótt ráðherrar hafi þann háttinn á að leyfa þingmönnum ekki að komast að áður en þeir troða sér upp á milli þeirra. Við það getum við ekki ráðið en á hinn bóginn getur forseti þingsins, ef honum sýnist svo, auðvitað reynt að hafa áhrif á það. Ég vil af þessu gefna tilefni biðja hæstv. forseta að leyfa hæstv. samgrh. að bera af sér sakir, skárra væri það, mér finnst nauðsynlegt að hann megi koma hér upp og bera af sér sakir. Annars var það ekki ég sem hóf þennan leik. Hæstv. samgrh. hóf þennan leik í sjónvarpinu í gærkvöldi þar sem hann talaði með mikilli fyrirlitningu um það baráttumál margra manna í hans kjördæmi að varaflugvöllur kæmi í Aðaldal. Hitt kemur mér að sjálfsögðu ekki á óvart, hæstv. menntmrh., þótt hann reyni að mikla það fyrir þjóðinni og sjálfum sér. Hvenær sem kemur að því að við tölum um að hægt sé að halda öryggi landsins í heiðri og að hægt sé að vinna að því að Atlantshafsbandalagið sé hér með sínar stöðvar til eftirlits með hafinu í kringum okkur, þá reynir þessi hæstv. ráðherra með margvíslegum hætti að draga úr þessari miklu nauðsyn þótt fáum mönnum sé það jafnkunnugt og honum hvernig ástandið er þar fyrir austan eftir ítrekaðar ferðir hans austur fyrir járntjald á kostnað þeirra þrautpíndu þjóða sem þar eru. Skal ég ekki nota tækifærið nú til þess að þylja upp gistivini þeirra alþýðubandalagsmanna austur þar né heldur sérstaka gistivini Framsfl., ég man ekki hvort það er í Rúmeníu eða Búlgaríu, skiptir kannski ekki máli.
    Hitt vil ég aðeins segja og legg áherslu á að þetta er ekki aðeins áhugamál Sjálfstfl. eða sjálfstæðismanna heldur hefur mér skilist að það sé líka áhugaefni hæstv. utanrrh. að þessi hagkvæmniathugun á varaflugvelli hér á landi fari fram á kostnað mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins. Nú hefur hæstv. menntmrh. svarað fyrir forsrh. Forsrh. er hér í hliðarsal og má vel heyra mín orð. Forsrh. sat við hlið hæstv. menntmrh. þegar hann svaraði fyrir hans hönd og svar menntmrh. var á þá lund að hæstv. forsrh. hefði snúist á sveif með samgrh. gegn utanrrh. og að það væri sameiginleg skoðun hæstv. forsrh. og hæstv. samgrh. að utanrrh. skyldi að engu hafður í þessu máli og að vilji hans, sem stendur til þess að hagkvæmniathugunin verði kostuð af mannvirkjasjóðnum, skuli að engu hafður. Það er líka athyglisvert að hæstv. viðskrh. gengur úr salnum þegar kemur að þessum þætti og stæði honum þó vissulega skylda til að taka upp hanskann fyrir hæstv. utanrrh. til þess að við fengjum að heyra hans sjónarmið, hvernig hann túlkar ummæli utanrrh. í þessu máli. Ég sé á hinn bóginn að þingmaður Alþfl. í Norðurl. e. er

í salnum og væri fróðlegt að heyra hvað hann hefur um það að segja að hagkvæmniathugun skuli fara fram á því hvar best sé að varaflugvöllur muni vera og að slík hagkvæmniathugun yrði kostuð af Atlantshafsbandalaginu. Hitt eru ekki annað en orðaleppar að tala um herflugvöll í þessu sambandi þegar eingöngu er rætt um varaflugvöll þar sem enginn hermaður verður staðsettur og enginn hermaður vinnur. Þarna munu eingöngu fara fram venjuleg störf flugumferðarstjóra og annars þess öryggisgæsluliðs sem hvarvetna er á varaflugvöllum. Það er öldungis misskilningur hjá hæstv. samgrh. og öðrum þeim sem tala um varaflugvelli að hægt sé að dreifa þeim hringinn í kringum landið eins og spilapeningum á kort. Auðvitað kostar rekstur varaflugvallar mikið, þar þarf að halda uppi sólarhringsgæslu og þar eru miklar kröfur til hvers eins, sem ég hef auðvitað ekki tæknilega þekkingu á.
    Ég vil aðeins minna á að í þessu máli er kominn fram enn einn ágreiningurinn hjá þessari ríkisstjórn. Þessi ágreiningur leiðir til þess, eins og raunar allir þeir ágreiningar sem koma dag eftir dag, mörgum sinnum á dag, að íslenskir hagsmunir verða að víkja fyrir þessari ógæfusömu stjórn sem hæstv. forsrh. tókst að koma saman af því einu að hvorki Alþfl. né Alþb. þorðu að leggja til kosninga á sl. hausti. Af þeim sökum tókst hæstv. forsrh. að teyma þá á eftir sér inn í Stjórnarráðið þó að honum hafi ekki tekist á þeim tíma sem síðan er liðinn að kalla þá til samstarfs um neitt það í efnahags- eða atvinnumálum sem horfa megi þjóðinni til heilla. Ég vil þess vegna segja að það var mikið ógæfuspor stigið þegar þessi ríkisstjórn var mynduð. Við erum ekki búnir að sjá fyrir endann á því enn hvað af því muni leiða en við munum samt eftir því að helmingurinn af eigin fé fyrirtækja í sjávarútvegi var étinn upp á næstliðnu ári. Við höfum tekið eftir því að þrátt fyrir verðstöðvun svo mánuðum skiptir, verðstöðvun að kalla því auðvitað hafa vörur hækkað í kjölfar nýju skattanna og í kjölfar gengislækkananna, þá er fjármagnskostnaður óhæfilega hár og ekki hefur tekist að ná raunvöxtunum niður þrátt fyrir það að lífskjörunum sé haldið niðri og almenningur í landinu megi ekki halda þeim kaupmætti sem hann hafði samið um og vonir stóðu til.
    Hæstv. forseti. Ég vil ítreka ósk mína og skírskota til þess sem hæstv. forseti sagði hér áðan á þessum fundi þegar hann bað mig að tala þangað til
utanrrh. gengi í salinn. Ég vil ítreka beiðni mína um að þessum fundi verði frestað þar til hæstv. utanrrh. hefur komið hingað og svarað þeim óbilgjörnu fullyrðingum hæstv. menntmrh. að skoðanir utanrrh. séu að engu hafðar í ríkisstjórninni. Ég óska eftir að þessi frestun á fundinum megi verða því að ég á satt að segja ekki von á að hæstv. forsrh. geri tilraun til þess að bera blak af sínum utanrrh. Ég geri heldur ekki ráð fyrir því að hæstv. viðskrh. sjái ástæðu til þess að skýra afstöðu flokksformanns síns né heldur að hv. 3. þm. Norðurl. e. sjái ástæðu til að taka til máls eins og allt er í pottinn búið.