Flm. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 104 um launakostnað við mötuneyti framhaldsskólanna. Meðflutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ingi Björn Albertsson. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera nauðsynlegar ráðstafanir í því skyni að launakostnaður starfsfólks í mötuneytum framhaldsskólanna verði greiddur úr ríkissjóði.``
    Með stofnun fjölmargra nýrra framhaldsskóla um allt land á undanförnum árum hafa aðstæður til náms batnað til muna. Þó er það enn svo að nokkuð vantar á að möguleikar fólks til náms eftir búsetu og efnahag séu jafnir og almennur aðbúnaður nemenda á hinum ýmsu stöðum er afar mismunandi. Það er viðurkennt að hollir lifnaðarhættir eru ein af undirstöðum daglegrar vellíðunar, góðrar heilsu og þar með árangurs í starfi. Það er ekki síður mikilvægt fyrir nemendur en annað vinnandi fólk að geta neytt matar á vinnustað sínum og þeir sem sækja skóla langt að eiga ekki annarra kosta völ hvernig svo sem aðstæður kunna að vera í viðkomandi skólum. Það hefur færst mjög í vöxt á seinni tímum að starfandi fólk neyti hádegismatar á vinnustað. Mötuneyti fullorðinna og þar á meðal mötuneyti kennara beina einkanlega athygli að mismunun gagnvart skólabörnum að þessu leyti, þ.e. börn og unglingar geta ekki gengið að hádegismat í skólunum meðan fullorðnir geta það og innan skólanna ganga kennarar inn í mötuneyti þar sem þeir greiða einungis hráefniskostnað. Fram til þessa hefur hins vegar sá háttur verið hafður á þar sem mötuneyti eru fyrir hendi að nemendur sjálfir hafa borið launakostnað þeirra vegna.
    Á þessu skólaári er ætlað að launakostnaðurinn einn nemi um 30--40% af fæðiskostnaði nemenda. Ef miðað er við verðlag nú fyrir jólin má ætla að hver nemandi þurfi að greiða a.m.k., það er lágmarksupphæð, 110 þús. kr. fyrir veturinn í fullu fæði. Allir hljóta að sjá hversu þungur baggi þetta er á þeim heimilum sem senda þurfa börn sín í heimavist og víst er að fyrir marga er hann svo þungur að unglingar eiga þess vart kost að afla sér framhaldsmenntunar, ekki síst þar sem fleiri börn eru á sama heimilinu. Hér er því um mikið hagsmunamál ungs fólks og foreldra að ræða, ekki síst þeirra sem búa í dreifbýlinu, en síbreytilegar og æ flóknari aðstæður í þjóðfélagi okkar krefjast þess að fólk verður í sífellt ríkara mæli að auka við menntun sína að grunnskólaprófi loknu.
    Ég lít því á það sem eina af skyldum samfélagsins að gera fólki slíkt kleift án tillits til búsetu og efnahags. Till. er endurflutt, ég gleymdi reyndar að geta þess hér í upphafi máls míns, og var flutt hér á þinginu í fyrra, en hugmyndin með flutningi hennar var að stíga eitt örlítið skref í þá áttina að jafna aðstöðu fólks til náms. Ég vil láta þess getið nú að frá því að þessi till. okkar flm. sem ég nefndi áðan kom fram hefur verið lagt fram stjfrv. um ráðstafanir

til jöfnunar á námskostnaði. Það er 175. mál þingsins og er það nú til umfjöllunar í menntmn. Ed. Það nær reyndar til fleiri þátta, en samkvæmt 2. gr. þess mun ætlunin að greiða ferðastyrki, húsnæðisstyrki og sérstaka styrki til nemenda úr dreifbýli auk þess sem frv. gerir ráð fyrir að launakostnaður við mötuneyti verði einnig greiddur.
    Það er von mín að frv. þetta nái fram að ganga hið allra fyrsta þannig að nemendur njóti þeirrar jöfnunar sem þar um ræðir strax í upphafi næsta skólaárs, eins og frv. reyndar gerir ráð fyrir.
    Ég bendi hins vegar á að þrátt fyrir og þó að þetta verði að lögum er enn langt í land með að aðbúnaður nemenda á framhaldsskólastiginu sé viðunandi. Vil ég þá sérstaklega benda á skort á húsnæði og þau afarkjör sem fólk hér á landi má sæta á almennum húsnæðismarkaði. Við flesta nýju skólana sem stofnaðir hafa verið utan höfuðborgarsvæðisins hafa verið byggðar heimavistir. Engin þeirra annar eftirspurn nemenda eftir húsnæði og mötuneytisaðstaða er afar mismunandi.
    Alvarlegast er ástandið í húsnæðismálunum á höfuðborgarsvæðinu. Þar voru utanbæjarnemendur um 3000 skólaárið 1986--1987 og hér er varla hægt að tala um að mötuneytisaðstaða sé fyrir hendi í skólunum. Það er reyndar í einum skóla a.m.k. til fyrirmyndar, í Iðnskólanum í Reykjavík, en við fæsta skólana er mötuneyti þannig að nemendur verða að grípa til annarra ráða og fara þar af leiðandi því miður í sjoppuna.
    Í Reykjavík og í nágrenni borgarinnar eru allmargir sérskólar sem ekki er grundvöllur fyrir að hafa á fleiri stöðum og það er mikill munur á úrvali námsbrauta eftir því hvar fólk býr á landinu. Skólaárið 1985--1986 voru 105 mismunandi námsbrautir framhaldsskólastigsins í Reykjavíkurumdæmi. Í umdæmi Norðurl. e. voru námsbrautir næstflestar eða 70, en í Vestfjarðaumdæmi gátu nemendur aðeins valið sér nám á 15 námsbrautum. Sem dæmi um sérskóla hér á höfuðborgarsvæðinu sem ekki er grundvöllur fyrir að hafa á fámennari stöðum má nefna listaskóla af ýmsu tagi, og iðnnám af ýmsu tagi er ekki hægt að stunda nema í Reykjavík. Nefni ég þar sem dæmi hárgreiðslu og bifreiðasmíði. Þrátt fyrir fjölgun skóla og námsbrauta úti á landsbyggðinni er því augljóst að stór
hópur skólafólks utan af landi, úr þorpum og bæjum landsins og úr dreifbýlinu, þarf á ári hverju að stunda nám utan sinnar heimabyggðar. Þessi ungmenni verða flest að yfirgefa fjölskyldur sínar og heimabyggð stærstan hluta ársins frá 16 ára aldri. Ég vil reyndar líka geta þess, af því að ég minntist á ástandið hér á höfuðborgarsvæðinu áðan, þ.e. að hér voru árið 1985--1986 um 3000 nemendur með lögheimili utan Reykjavíkurumdæmis, að hér er einungis pláss í heimavist fyrir 36 nemendur Sjómannaskólans í Reykjavík, þannig að það segir sína sögu um þann húsnæðisvanda sem hlýtur að vera fyrir hendi og allir vita að hvergi er húsaleigan svo himinhá sem hér á Reykjavíkursvæðinu. Það er ekki einungis það að

nemendur þurfi á ári hverju að leita sér að nýju að húsnæði, örfáir eru svo heppnir að geta dvalist hjá ættingjum, en það getur reynst mörgum unglingnum erfitt að leigja einn úti í bæ og mikil hætta er á félagslegri einangrun. Einnig er algengt að fæði þessara nemenda sé algjörlega ófullnægjandi og því var till. upphaflega flutt til þess að reyna að bæta úr því. En eins og ég minntist á áðan í máli mínu hefur nú þegar verið lagt fram frv. til laga um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði og fagna ég því að þessi hugmynd skyldi vera ein af þeim sem teknar voru upp í það frv. Þær koma fram í 3. gr. frv. og ég sé því ekki ástæðu til, að svo stöddu, að lengja mál mitt eða fjalla ítarlega um þetta en vil minna á till. til þál. sem hér var flutt í fyrra fyrir frumkvæði hv. þingkonu Kristínar Halldórsdóttur um könnun á launavinnu framhaldsskólanema því að það kom í ljós við skyndikannanir í nokkrum skólum í fyrra að allt upp í 70% nemenda unnu með náminu og það er vafalaust stór hópur þeirra sem einmitt verður að vinna með til þess að geta haft í sig og á. Ekki veit ég hins vegar hvað líður framkvæmd þeirrar tillögu. Það væri kannski forvitnilegt að heyra um það þar sem hæstv. menntmrh. er staddur hér nú.
    Ég minni einnig á frv. til laga sem flutt hefur verið í Ed. um mál þessu skylt, þar sem við þingkonur Kvennalistans höfum flutt frv. í Ed. um samfelldan skóladag og skólamáltíðir barna á grunnskólastigi. Þessi till. er, eins og ég minntist á áðan, flutt hér öðru sinni og ég geri mér vonir um, þar sem hún er inni í umræddu frv. til laga um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði, að hún sé þar með í höfn, en að lokinni þessari umræðu vil ég mælast til þess, virðulegi forseti, að till. verði vísað til félmn. og síðari umræðu.