Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því að þessi ábending eða fsp. fór fram hjá mér, en svarið er þetta: Könnunin er í gangi. Hún er langt komin eða vel á veg komin og niðurstöður hennar liggja fyrir áður en mjög langur tími líður, trúi ég.
    Ég vil þakka fyrir þær umræður sem fram hafa farið um þetta mál, segja það hins vegar þingmönnum til ábendingar að það er alvarlegt umhugsunarefni fyrir okkur hvernig það rímar annars vegar að vera þeirrar skoðunar að ríkið eigi að standa undir þessum kostnaði, sem er út af fyrir sig ekki óeðlilegt sjónarmið, og hins vegar það að hafa komist að þeirri niðurstöðu að þessi kostnaður eigi allur að greiðast af sveitarfélögunum, og spyrja sig svo kannski í framhaldinu þeirrar spurningar: Hvernig ætli þessum mötuneytismálum yrði háttað þegar sveitarfélögin væru komin með málið yfir á sínar herðar? Ég er satt að segja ekki viss um að það sé nægilega tryggt og ég held að við þurfum að sjá því máli farborða um leið og afgreitt yrði frv. til laga um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þó að þetta atriði snerti grunnskólann, þá skiptir það líka miklu máli í sambandi við framhaldsskólann og þá almennu stefnumótun varðandi samfelldan skóladag sem við erum hér einnig að tala um.