Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka að fá þetta tækifæri til að gera hér örstutta athugasemd. Hv. 2. þm. Norðurl. e. geisaði hér mjög um það að ráðherrar færu fram úr vilja þingsins í þessu máli. Þetta er fráleit skoðun eins og glöggt má sjá af því að lesa tilvitnaðan 4. tölul. 3. mgr. 19. gr. laganna um ríkisfjármál og lánsfjármál, eins og þau voru samþykkt í þinginu, þá er heimilt að fella þetta niður, hafi ríkisstjórnin samþykkt sérstakar ráðstafanir í þágu sjávarútvegsins, og þá sé rétt að fella niður heimildina. Það sem á skortir er það að það hafði verið tekin um þetta ríkisstjórnarákvörðun og það er rétt hjá hv. þm. að það er alls ekki í mínu valdi að fella niður skatta sem þingið á leggur. Það þarf til atbeina þeirra sem um þetta fjalla í Stjórnarráðinu og fleiri, þ.e. fjmrh., og reyndar ríkisstjórnarinnar allrar eins og þetta mál er vaxið því að það varðar fleira en eitt ráðuneyti, en heimildin er á lögbókinni og það er fráleitt af hv. 2. þm. Norðurl. e. að halda því fram að þetta sé að koma aftan að ákvörðun þingsins því að þessi skilningur, þessi ásetningur lá hér fyrir áður en umrædd lög voru samþykkt og reyndar í fyrri hluta þessarar umræðu um skipaiðnaðinn sem sennilega hefur verið rofinn tvívegis en er nú vonandi loksins að ljúka.