Egill Jónsson:
    Herra forseti. Þessi fundarboðun kemur sannast sagna nokkuð á óvart, þ.e. mér, og ég hygg að því hafi nú verið komið á framfæri að sumir af þingmönnum Sjálfstfl. höfðu ráðstafað sér til annarra starfa á þessum degi, en bót er að hér eru ekki teknar mikilvægar ákvarðanir um framgang mála.
    Það vekur satt að segja líka nokkra eftirtekt að svo mikið skuli við liggja í sambandi við afgreiðslu þessa máls því að þótt hæstv. viðskrh. hafi talað hér í nokkrum slaufum í kringum þetta, þá er þetta nú ekki sá bógur að miklu valdi. Það má út af fyrir sig segja að þetta sé eitt af þeim leiftrum sem ríkisstjórnin er að skjóta upp í áróðursskyni til þess að leitast við að halda þeirri umræðu uppi í þjóðfélaginu að það séu einhverjar umtalsverðar eða marktækar aðgerðir í gangi til þess að halda verðlagi niðri. Hér er einungis fjallað um það eitt efnislega að orkuvinnslufyrirtæki muni eftir samþykkt þessa frv. verða að lúta verðlagsákvörðunum yfirvalda. Og hver skyldu nú þessi orkufyrirtæki vera og hvar skyldi helst vera að finna þau? Það eru að sjálfsögðu hitaveiturnar sem eru í eigu sveitarfélaganna og ég hygg að mönnum hér í þessari hv. deild sé fullkomlega ljóst hver rekstur þeirra er, a.m.k. mjög víða.
    Ég nefni dæmi eins og Hitaveitu Akureyrar og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar sem hafa átt og eiga enn í miklum erfiðleikum og engar gjaldskrár hafa getað borið uppi þeirra kostnað. Og þannig er með mörg fleiri orkufyrirtæki sem eru í eigu sveitarfélaganna, að þar hefur ekki verið unnt að haga rekstri þannig að endar næðu saman. Árlega hafa verið veittar heimildir á lánsfjárlögum til þess að skuldbreyta og færa aftur lán og gera aðrar slíkar ráðstafanir.
    Allir vita hvernig rekstur Rafmagnsveitna ríkisins stendur. Til þess að hann geti verið með líðanlegum hætti að því er verðlagningu áhrærir þarf að greiða niður mjög mikilvæga rekstrarpósta eins og t.d. raforkusölu til húshitunar, raforkusölu til hraðfrystiiðnaðarins í landinu svo að dæmi séu tekin. Það er þá einkum eftir Landsvirkjun sem hægt væri að hugsa sér að mögulegt væri að halda aftur af án þess að til sérstakrar skuldasöfnunar komi.
    Ég vek sérstaka athygli á því í þessu sambandi, herra forseti, hvað hér er um mikla sýndarmennsku að ræða. Raunar þarf ég ekki að hafa mörg orð um það því að hæstv. viðskrh. sagði með mjög skýrum hætti frá því sjálfur í sinni ræðu, hvort sem það hefur nú verið viljandi eða óviljandi, að agðerðir af þessu tagi hefðu lengst af reynst haldlausar eða haldlitlar. Og eins og ráðherrann tók líka fram, þá væri því aðeins möguleiki á því að verðstöðvun væri virt að hún væri tímabundin þannig að fyrirtækin tækju á sig tilskildar kostnaðarhækkanir vegna þess að þær væru ekki varanlegar.
    Það var líka vissulega kátbroslegt að heyra hæstv. ráðherra lýsa því yfir að slíkar verðstöðvunarákvarðanir gætu því aðeins skilað árangri að þær væru hlutdeild í víðtækum efnahagsaðgerðum,

eins og ráðherrann orðaði það. Þær hafa nú ekki enn séð dagsins ljós, þær víðtæku efnahagsaðgerðir, þannig að í ræðu hæstv. viðskrh. rak sig eitt á annars horn.
    Í umfjöllun í nefnd, sem væntanlega mun verða fjh.- og viðskn. þessarar virðulegu deildar, hlýtur það að sjálfsögðu að verða upplýst hvernig rekstri fyrirtækja í orkusölu og orkuframleiðslu er háttað og þá gefst að sjálfsögðu enn frekara ráðrúm til þess að meta til hvers þessi lagabreyting kann að leiða. Við þá umfjöllun mun afstaða Sjálfstfl. skýrast þannig að eðlilegt er að ekki fyrirferðarmeira mál en þetta fái greiða leið í gegnum þessa deild svo að frekari umfjöllun um það geti þá farið fram.