Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim þingmönnum sem talað hafa í umræðunni fyrir undirtektirnar og hv. 4. þm. Austurl. fyrir að heita því að greiða málinu leið í gegnum deildina svo að það megi fá meðferð í nefnd. Sama máli gegndi um hv. 6. þm. Reykv. og ég vonast til þess að deildin geti afgreitt málið sem fyrst til nefndar.
    Vegna þeirra athugasemda og spurninga sem fram komu í máli þeirra sem talað hafa ætla ég ekki að hafa mörg orð. Ég vildi benda hv. 4. þm. Austurl. á það að í raun og veru felst í þessu frv. það sem að mínu áliti þarf að gera til þess að hnykkja á því að það stranga aðhald að verðlagsmálum í samræmi við gildandi ákvæði um verðstöðvun og verðlagsmál samkvæmt lögum nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, megi framkvæma sem formaður Sjálfstfl. lagði til sjálfur í september að fylgt skyldi. Og mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp þá tillögu sem hann gerði um ályktun ríkisstjórnarinnar í málinu. Tillagan var í formi yfirlýsingar frá ríkisstjórninni um aðgerðir í efnahagsmálum sem margir af þingmönnum Sjálfstfl. kölluðu þá ,,einu ábyrgu tillögurnar`` og tilvitnunin er svona:
    ,,Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fela Verðalagsstofnun að beita ströngu verðlagsaðhaldi í samræmi við gildandi ákvæði um verðstöðvun samkvæmt lögum nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Við framkvæmdina skal Verðlagsstofnun veita nauðsynlegar undanþágur vegna breytinga á gengi og verði á erlendu hráefni og aðföngum og enn fremur vegna starfsemi innlendra uppboðsmarkaða og árstíðabundinna verðbreytinga.
    Breytingar á gjaldskrám ríkisfyrirtækja verða óbreyttar til 10. apríl 1989. Þó verður heimilt að taka tillit til hækkana af erlendum toga og sérstakra heimilda í fjárlögum.
    Fjárhæðir launaliða í gjaldskrám sjálfstætt starfandi sérfræðinga verða óbreyttar til 10. apríl 1989. Sama gildir um hvers kyns útselda vinnu og þjónustu.``
    Reyndar gengu þessar tillögur nokkru lengra að sumu leyti en þær sem hér eru gerðar, þ.e. í þeim var fólgin binding til 10. apríl. Hins vegar tel ég að strangt verðlagsaðhald geti átt rétt á sér við undantekningaraðstæður eins og nú gilda til þess að vekja mönnum traust á því að varanleg lækkun verðbólgunnar geti náðst og að kjarasamningar verði gerðir í því ljósi. Þetta er kjarni málsins. Þess vegna eru þessar tillögur fluttar, til þess að tákna það að nú skuli slík tilraun gerð. Þess vegna þakka ég hv. 4. þm. Austurl. fyrir að hafa bryddað upp á málinu og sama gildir um 6. þm. Reykv.
    Ég vildi taka fram vegna fyrirspurnarinnar um það hvort þessir nýju varamenn mundu kosta meiri peninga, að þá er það mitt svar að það er ekki mín ætlan að þessu fylgi viðbótarkostnaður. Þetta eru óskir tilnefningaraðilanna, einkum Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins og Verðlagsráðsins og ég

geri ráð fyrir því að þetta verði fundaþóknun en ekki fast kaup.
    Um orkufyrirtækin verður vafalaust margt fjallað í fjh.- og viðskn. Það er eðlilegt. Það er rétt sem kom fram hjá hv. 4. þm. Austurl. að ýmis orkufyrirtæki berjast í bökkum og eiga í vandræðum. Til þess mun enda tillit tekið þegar þessum lagaákvæðum verður beitt. Ég vildi benda á í sambandi við Rafmagnsveitur ríkisins að þar standa nú yfir viðræður milli ríkisins með þátttöku fjvn. um yfirtöku skulda af ríkisins hálfu á skuldum þess fyrirtækis, sem lengi hefur til staðið, sem mun gjörbreyta aðstöðu þeirra í gjaldskrármálum. Þar verður líka í umræðu og samningum málefni Orkubús Vestfjarða sem að ýmsu leyti gildir hið sama um. En auðvitað eru í röðum orkufyrirtækjanna, bæði vinnslufyrirtækja og dreififyrirtækja, önnur sem búa betur og gætu þess vegna e.t.v. hagað gjaldskrárákvörðunum sínum með öðrum hætti.
    Ég ætla ekki að orðlengja um þetta, hæstv. forseti, en ítreka þá ósk mína að málið fái skjóta en vandaða meðferð.