Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins segja nokkur orð í tilefni frv. sem hér liggur fyrir. Þetta frv. byggir á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 6. febr. 1989 um umþóttun í kjölfar verðstöðvunar. Þar segir í upphafi þeirrar samþykktar, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin samþykkir að í lok verðstöðvunar, sem í gildi hefur verið frá því í lok ágúst á síðasta ári og lýkur 28. febr. nk., taki við sex mánaða umþóttunartímabil í verðlagsmálum með sérstöku aðhaldi að verðhækkunum.`` Nú er það spurning hversu raunhæft þetta verðlagseftirlit er vegna þess að hingað til hefur það gengið vel þar sem heimilin í þessu landi, kaupmenn og aðrir sem það snertir hafa tekið þessu máli mjög alvarlega og hafa fylgt eftir þeim reglum og aðhaldsaðgerðum sem ríkisstjórnin hefur boðað. Á meðan hefur ríkisstjórnin sjálf hins vegar gengið á undan með stórauknum skattahækkunum og ýmiss konar hækkanir hafa verið leyfðar hjá opinberum fyrirtækjum. Í þessari samþykkt kemur t.d. líka fram að ríkisstjórnin felur Verðlagsstofnun að fylgjast sérstaklega með verðákvörðun einokunar- og markaðsráðandi fyrirtækja, sbr. ákvæði verðlagslaga um slík fyrirtæki, hvort sem um er að ræða einkafyrirtæki eða opinber þjónustufyrirtæki. Þegar hafa einhver slík þjónustufyrirtæki fengið slíkar hækkanir í gegn þannig að þetta er ekki alveg sambærilegt miðað við einkaaðila. Síðan langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra að því hver þessi einokunar- og markaðsráðandi fyrirtæki séu, en því er haldið fram að þau séu við lýði hér á landi.
    Í samþykktinni segir enn fremur: ,,Komi í ljós að verðhækkanir verði umfram það sem brýn kostnaðartilefni og afkoma fyrirtækjanna gefa tilefni til skulu verðlagsyfirvöld beita tímabundið ýtrustu ákvæðum verðlagslaga eftir því sem efni standa til.`` Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvernig brýn kostnaðartilefni og afkoma fyrirtækjanna séu metin. Þetta hlýtur að vera mjög erfitt mat og hægt er að velta því fyrir sér hvort viðkomandi aðilar muni þá fá einhverjar pólitískar ábendingar í því efni eða hvort eðlilega verði að þessu staðið.
    Þessu máli á að hraða mjög í gegnum deildina á meðan önnur mál þurfa e.t.v. að bíða og því spyr ég eins og hv. þm. Egill Jónsson: Hvaða ávinningur er í raun og veru að þessu frv.?