Ástand í raforkumálum
Mánudaginn 13. febrúar 1989

     Friðjón Þórðarson:
    Virðulegi forseti. Það er ekkert óeðlilegt að þessi mál beri á góma, enda ekki á hverjum degi sem slíkur veðrahamur gengur yfir landið. Mér finnst það hafa verið fullkomlega eðlilegt hjá hv. 4. þm. Vesturl. að vekja máls á þessu mikla öryggismáli undir þessum kringumstæðum og það hafa líka komið fram fróðlegar upplýsingar frá hæstv. ráðherrum.
    En ég bendi á að það eru ýmsir staðir á landinu sem lenda í vandræðum þó að slík veður gangi ekki yfir eins og það sem nú hefur geisað. Vil ég í því sambandi leyfa mér að nefna Neshrepp utan Ennis, einmitt heimkynni hv. 4. þm. Vesturl. Það er mjög títt í vestanveðrum að þá kemur selta á línuna sem liggur frá Ólafsvík út á Hellissand og gerir það að verkum að íbúar Hellissands verða fyrir mjög miklum óþægindum oft og tíðum. Þeir voru rafmagnslausir klukkustundum saman á laugardaginn og allan daginn í gær frá morgni til kvölds. Það er þessi lína frá Bakka í Ólafsvík út í frystihúsin í Rifi, 6 km löng, sem veldur ófriði og öryggisleysi allt of oft. Ég sé í raun og veru ekki annað ráð en að koma þessari línu í jörð til þess að þarna skapist fullnægjandi öryggi. En þessar umræður, hvort sem þær eru almennar eða um sérstaka þætti þessa máls, eru af hinu góða og harla nauðsynlegar.