Ástand í raforkumálum
Mánudaginn 13. febrúar 1989

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ég tel þær upplýsingar sem hæstv. ráðherra iðnaðarmála gaf fyrir ástæðunni fyrir þeim truflunum, sem undanfarna daga hafa verið á heimsendingu rafmagns víðs vegar um land og eins hvernig komið verði í veg fyrir sams konar truflanir með nýrri tækni í framtíðinni, fullkomlega fullnægjandi svör við þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar. Og það vekur að sjálfsögðu öryggiskennd hjá þjóðinni allri ef með nýrri tækni skapast meira öryggi.
    En það sem mér fannst vanta í spurningarnar sem frummælandi bar hér fram eru ástæðurnar fyrir því að hinar ýmsu varaaflsstöðvar, sem eru víðs vegar á landinu og m.a. hér í Alþingishúsinu, sem eiga að fara í gang af sjálfu sér verði einhverjar truflanir, gera það ekki. Hæstv. samgrh. stóð hér undir truflunum áðan sem ekki eiga að geta komið fyrir vegna þeirrar tækni sem er hér í þessu húsi, en það kom nú fyrir samt. Ég tek undir spurningu hv. 6. þm. Reykv. að það er athugunarefni hvernig á því stendur að dælustöð Hitaveitu Reykjavíkur hefur ekki varaaflsstöð á borð við spítalann t.d. Ég vissi það ekki, og er ég þó búinn að vera borgarfulltrúi í ein 15--16 ár, ég vissi það ekki. Ég hélt að dælustöðin á Reykjum væri þannig útbúin. (Forseti hringir.) Ég skal ljúka máli mínu á mjög skömmum tíma. Samkvæmt fréttum í útvarpinu í gær var Borgarspítalinn afllaus í 10 mínútur, varastöðvar fóru ekki í gang. Sem betur fer stóðu ekki yfir aðgerðir á skurðstofum. Það er spurning sem ég hefði viljað fá svar við. Hvernig stendur á því að þær aflstöðvar, sem eru fyrir hendi og eiga að fara sjálfkrafa í gang þegar í stað þegar rafveitan fer út eða rafmagn er ekki afgreitt á hefðbundinn hátt, fóru ekki í gang? Og við vitum það að á þeim stöðum er oft stutt milli lífs og dauða.
    Ég skal ljúka máli mínu, ég tel þetta nægjanlega sagt. En ég hefði gjarnan viljað hvetja ráðamenn, sem þessi mál heyra undir, til að láta fara fram könnun á því hvers vegna þær neyðarstöðvar, sem eru fyrir hendi í stofnunum og þá sérstaklega í sjúkrahúsunum, voru ónothæfar í þetta langan tíma.