Ástand í raforkumálum
Mánudaginn 13. febrúar 1989

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður og svör sem hér hafa verið flutt og þakka ráðherrum sérstaklega fyrir greinargóð svör í sambandi við spurningar mínar þó ég segi nú að sum svörin hafi verið á þann veg þegar svarað var nærri því ákveðið já og á hinn veginn að hlutirnir væru í þó nokkuð góðu lagi, þá vil ég nú bara segja: Ja, stundum er það nú kannski og sei, sei. Því er nú verr og miður. Ég hef ekki orðið var við og ég efast um að samband forustuaðila bæði hjá Síma, Landsvirkjun og Rafmagnsveitum séu í beinum tengslum við þá aðila sem þeir ættu að vera í, sem ég nefndi eins og Almannavarnir öðruvísi en kannski í síma, ekki með beinni tilætlun um að þeir taki þátt í þeim vörnum sem uppi þarf að hafa þegar ástand verður eins og var hér í gær og hefur verið áður.
    Eins er með það sem verið er að gera í sambandi við endurnýjun á rafkerfi á Hellissandi, sem hefur verið hér til umræðu, þökk sé hv. 2. þm. Vesturl. Í Neshreppi utan Ennis var byggð spennistöð 1954. Hvernig skyldi hún vera frágengin? Hún er algjörlega lokuð. Við fórum ekki að verða fyrir vandræðum fyrr en staðurinn fór að stækka og nýjar spennistöðvar komu. Síðustu spennistöðvarnar sem boðið er upp á í endurnýjun eru stöðvar sem eru opnar. Það má varla gera neitt veður sem heitir öðruvísi en að slái út eins og hv. þm. benti á. Því miður hefur tæknin ekki heimsótt þennan þátt raforkunnar hjá okkur eins og í sambandi við hringtengingu og annað.
    Geithálsstöðin er ekki margra ára gömul. Samt er hún þannig búin eins og raun ber vitni um. Geithálsstöðin mun hafa verið farin að senda frá sér geisla eða neistaflug nokkru áður en hún sló út. Þess vegna spurði ég: Hvert er forvarnarstarfið hjá því starfsliði sem vinnur við þessa stöð? Hver er aðstaða þess til þess að beita forvarnarstarfi? Ég þekki það m.a. að starfsmenn við rafveitu á Vesturlandi hafa byggt upp forvarnarstarf á þann veg að þegar þessar stöðvar eru byrjaðar að senda frá sér neistaflug þá er kallað til slökkviliðið á þessum stöðum til aðstoðar sem er nú ekki nálægt því eins vel útbúið og slökkviliðið hér í Reykjavík. Ég t.d. trúi því að það hefði verið hægt með öflugu forvarnarstarfi að koma í veg fyrir það í gær að þeir hlutir sem gerðust á Geithálsi hefðu þurft að eiga sér stað.