Kynferðisleg misnotkun á börnum
Mánudaginn 13. febrúar 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Hér er um viðkvæmt en jafnframt mikilvægt mál að ræða og ég get tekið undir flest það sem hér hefur komið fram. Þetta mál varðar forvarnir, fræðslu, meðferð og refsingar ásamt ýmsu fleiru sem ég skal ekki fara hér út í, enda hefur málið verið ítarlega rætt. Ég vildi aðeins upplýsa það að í framhaldi af starfi nefndarinnar um meðferð nauðgunarmála og frumvarpa og annarrar umræðu hér á Alþingi er verið að endurskoða hegningarlögin, þau ákvæði sem snerta kynferðisafbrot, ekki aðeins þau afbrot sem tekin voru til meðferðar hjá svokallaðri nauðgunarmálanefnd heldur einnig önnur afbrot jafnframt því sem þá að sjálfsögðu er tekið til kynferðisafbrota gagnvart börnum.
    Ég vænti þess að þetta frv. verði tilbúið nægilega snemma þannig að það megi leggja fram á því Alþingi sem nú starfar, a.m.k. verður lögð á það öll áhersla af minni hálfu að slíkt frv. geti komið hér til meðferðar.