Sparnaðarátak
Mánudaginn 13. febrúar 1989

     Flm. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 64 sem er 62. mál þessa löggjafarþings hef ég leyft mér að flytja till. til þál., svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera átak til eflingar frjálsum sparnaði í landinu með fræðslu um þá sparnaðarkosti sem fyrir hendi eru og með því að stuðla að nýjum leiðum til að draga úr eyðslu og hvetja til sparnaðar.``
    Orðin ,,frjáls sparnaður`` hafa verið auðkennd í sjálfri tillgr. og fer vel á því, enda er fyrst og fremst átt við þann sparnað sem ekki er svokallaður þvingaður sparnaður með þátttöku í lífeyrissjóðum og skyldusparnaði. Þessari till. er beint fyrst og fremst að svokölluðum frjálsum sparnaði og henni er ætlað að fela ríkisstjórninni að gera átak til þess að efla slíkan sparnað.
    Það er ljóst, virðulegur forseti, að halli á ríkissjóði og fjárfestingar hér á landi umfram innlendan sparnað hafa birst í mörg undanfarin ár í viðskiptahalla og auknum erlendum skuldum. Þess vegna er ljóst að mjög mikilvægt er að efla innlendan sparnað og hamla þannig gegn erlendum lántökum og forðast aukna skattheimtu.
    Peningalegur sparnaður hefur enn ekki náð sér eftir það hrun sem varð á áttunda áratugnum í kjölfar óðaverðbólgu og neikvæðra raunvaxta og peningalegur sparnaður hér á landi er minni en gerist í nálægum löndum.
    Í lok þessa áratugar, nánar tiltekið árið 1979, voru sett lög sem kölluð hafa verið Ólafslög í höfuðið á þáv. forsrh., Ólafi Jóhannessyni. Í þessum lögum eru ákvæði sem enn eru í gildi og eru þess eðlis að heimilt er að verðtryggja fjármuni og hafa þau lagaákvæði haft gífurlega mikla þýðingu fyrir innlendan sparnað allt frá þeim tíma.
    Að undanförnu hefur nokkuð borið á því og þó einkum og sér í lagi fyrir síðustu jól, en þessi till. var lögð fram í október á sl. ári, að ráðamenn þjóðarinnar og þó einkum hæstv. ráðherrar gáfu alls kyns yfirlýsingar sem skilja mátti á þá lund að draga ætti úr sparnaði hér á landi. Einkum og sér í lagi beindust þessi ummæli að lánskjaravísitölunni annars vegar og eins hinu að nú ætti að stýra vöxtum með handafli, ná þeim niður án þess að um jafnvægi væri að ræða á fjármagnsmarkaðnum. Þessi óvissa varð til þess að ýmsir þeir sem lagt hafa til hliðar urðu uggandi um sinn hag, ekki síst þegar til viðbótar við fyrri yfirlýsingar kom yfirlýsing frá hæstv. fjmrh. þess efnis að nú skyldi skattleggja fjármagnstekjur. Sú yfirlýsing var þó kölluð aftur, a.m.k. í bili, og nú liggur fyrir að taka á því máli um leið og skattareglur um eignarskatt verða endurskoðaðar.
    Það sem skiptir mjög miklu máli, og er ástæðan fyrir því að þessi tillaga er flutt, er að koma í veg fyrir að slíkar yfirlýsingar leiði til þess að sparifé hverfi úr peningastofnunum eins og gerðist á áttunda áratugnum.
    Ýmsir halda því fram að fjármagnseigendur hér á landi séu fáir og stórir. Það er út af fyrir sig rétt

þegar litið er til lífeyrissjóðanna og þeirra sem varðveita fé með þvinguðum sparnaði, fjármuni sem þurfa að vera varðir gegn verðbólgunni og koma eiga að gagni til að mynda þeim sem lokið hafa sínum starfsdegi. En þeir sem leggja til hliðar og spara af fúsum og frjálsum vilja eru hins vegar ekki fáir og stórir heldur fjölmargir. Einkum og sér í lagi er það eldra fólkið í landinu en einnig ungt fólk sem leggur til hliðar, geymir að fjárfesta eða eyða peningunum en kýs heldur að hafa þá til geymslu, annaðhvort í bankakerfinu eða hjá öðrum stofnunum sem tekið hafa að sér að endurlána þessa fjármuni og ávaxta með þeim hætti. Það er þess vegna gífurlega mikilvægt að hagur þessa fólks verði ekki fyrir borð borinn í þeirri umræðu sem nú fer fram um að draga úr fjármagnskostnaði, enda hygg ég að þær umræður séu um margt á villigötum því að auðvitað er hár fjármagnskostnaður ekki eingöngu bundinn við vaxtastig heldur einnig við það magn sem tekið er að láni á hverjum tíma. Er þetta alkunna því að þau fyrirtæki sem ekki hafa þurft að taka fé að láni ganga vel, þau fyrirtæki hafa eigið fjármagn og nota það í rekstur sinn. Önnur fyrirtæki sem hafa verið rekin með tapi, ekki síst fyrirtæki sem stunda útflutningsframleiðsluna, þurfa að taka mikið fjármagn að láni og kaffærast smám saman í miklum fjármagnskostnaði og skiptir þá ekki öllu máli hvort vaxtastigið er prósentunni hærra eða lægra þar sem lausn á þeim vanda hlýtur að byggjast á því að rekstrarskilyrði séu fyrir hendi, en því miður eru þau það ekki um þessar mundir og verða ekki þrátt fyrir nýútgefna tilkynningu hæstv. ríkisstjórnar í efnahagsmálum.
    Mig langar, virðulegur forseti, til þess að spyrja hæstv. ráðherra, sem væntanlega heyra mál mitt hér í hliðarsölum, hvernig ætlunin sé að breyta skattalögum eins og lesa má út úr yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar í efnahagsmálum að gert verði. Það skiptir ákaflega miklu máli að sparifjáreigendur fái að vita það sem allra fyrst hvert ríkisstjórnin hyggst stefna í þeim málum.
    Ég vil enn fremur, virðulegur forseti, vekja athygli á að í grg. með þessari till. er gert ráð fyrir því, ef till. verður samþykkt, að hæstv. ríkisstjórn og þó einkum þrír ráðherrar standi að framkvæmdinni. Einn þeirra er hæstv. menntmrh. sem sér um fræðslumálin í landinu. Ástæðan fyrir því að menntmrh. er
nefndur til sögunnar er sú að sparnaður, ráðdeild, fyrirhyggja og reyndar virðing fyrir verðmætum almennt eru mikilvægir þættir í uppeldi æskunnar. Að undanförnu höfum við séð að ný kynslóð hefur vaxið úr grasi. Hún hefur lært að spara. Þessa viðleitni má alls ekki kæfa í fæðingu. Það er þess vegna mikilvægt að efla í skólakerfinu fræðslu um tilgang og kosti sparnaðar.
    Þá er í grg. með till. bent á nauðsyn þess að tryggja að jafnræði sé á milli ýmissa tegunda sparnaðar og mig langar, virðulegur forseti, til þess að spyrja þá ráðherra sem mál mitt heyra hvernig skilja megi yfirlýsinguna um efnahagsmál sem snýr að því

máli. Þá á ég einkum og sér í lagi við þau ummæli hæstv. forsrh. að nú standi til að breyta skattreglum með þeim hætti að hlutabréf og arður verði skattlögð með sama hætti og aðrar tegundir sparnaðar.
    Hæstv. viðskrh., sem nú er nýgenginn í salinn, hefur allra ráðherra best skilið nauðsyn þess að efla sparnað hér á landi. Um það hefur hann skrifað lærðar greinar, þar á meðal grein um lækkun vaxta sem birtist fyrir rúmu ári síðan í Morgunblaðinu og er ein besta grein sem skrifuð hefur verið um þetta málefni á undanförnum árum og má þó ætla þegar þetta er sagt að stórt sé upp í sig tekið. En í þeirri grein koma fram öll grundvallaratriði sem snerta þetta mál, bæði vaxtamál og sparnað og málefni sem snúa að sparnaði almennt.
    Ég veit því, virðulegur forseti, að innan hæstv. ríkisstjórnar ríkir mikill skilningur á þeim sjónarmiðum sem koma fram í þessari þáltill. og vænti ég þess að hún njóti stuðnings meiri hluta Alþingis eftir að hv. allshn. sameinaðs þings hefur um hana fjallað. Það væri þó ekki lakara að nú við fyrri umræðu till. fengjust svör við fyrirspurnum, annars vegar fyrirspurn er varðar skattareglur og þá kannski ekki síst hvernig skattleggja eigi tekjur af peningalegri eign. Á að gera mun annars vegar á ríkisskuldabréfum, spariskírteinum ríkissjóðs, og hins vegar annars konar sparnaðarformi? Og hvernig hyggst hæstv. ríkisstjórn standa að því sem ég nefndi fyrr í framsöguræðu minni, að tryggja jafnræði milli tegunda sparnaðar?
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að fengist rætt við fyrri umræðu. Ég held hins vegar að það sé ástæðulaust að hafa þessi orð fleiri að sinni. Mér sýnist eftir þær umræður sem fram hafa farið um þessi mál á undanförnum vikum og mánuðum að öllum sé ljóst að einungis verður hægt að búast við að innlendur sparnaður aukist ef jafnvægi er á fjármagnsmarkaðnum og ekki er gripið til lausna sem leiða til þess að fjármagn hverfi úr peningastofnunum landsins, hvort sem það er innan bankakerfisins eða utan.
    Að þessu sögðu legg ég til að þessari þáltill. verði vísað til hv. allshn. sameinaðs þings í trausti þess að hún verði þar rannsökuð, um hana fjallað og hún lögð hér inn til síðari umræðu og síðan samþykkt hér. Kjósi hins vegar hæstv. ráðherrar sem hlýða á mál mitt að koma hér og ræða efni till. eða gefa þær yfirlýsingar að gert verði átak til að efla frjálsan sparnað í landinu og gera það átak að hluta af þeirri heildarlausn sem við þurfum á að halda til þess að bæta efnahagsástand þjóðarinnar, tel ég að ég hafi haft erindi sem erfiði við flutning þessarar þáltill.