Sparnaðarátak
Mánudaginn 13. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins leiðrétta það sem mér fannst koma fram í upphafi síðustu ræðu hv. þm., að ég vildi takmarka samkeppnina. Það er ekki rétt. Ég legg mikla áherslu á það að samkeppnin sé sem mest í raun en hins vegar gildi um hana ákveðnar leikreglur og ég hef gagnrýnt það að hér gildi ekki þær reglur um peningamarkaðinn sem tryggja að samkeppnin sé eðlileg. Og ég er sammála því sem kom fram hjá hv. ræðumanni síðar í hans máli að hér þurfi einmitt að vera reglur sem eru svipaðar því sem er í okkar nágrannalöndum. Þær skortir. T.d. eru miklu strangari reglur í þessum löndum, svo að ég nefni aðeins dæmi, um notkun greiðslukorta sem eru varla til hér. Það eru miklu strangari reglur um starfsemi kaupleigufyrirtækja, um verðbréfamarkaði, og ekkert af þessum löndum sem hv. ræðumaður nefndi er t.d. með verðtryggingu á fjármagn. Það er fullkomin samstaða innan ríkisstjórnarinnar um það að hér verði settar reglur sem eru í fullu samræmi við það sem er í þessum löndum í kringum okkur, m.a. til þess að við getum í framtíðinni starfað með opnari fjármagnsmarkaði og þá í samkeppni við slíka starfsemi í okkar nágrannalöndum.