Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Guðmundur H. Garðarsson (frh.) :
    Virðulegur forseti. Því miður varð hlé á því að deildin gæti fjallað um frv. til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands þannig að þegar ég lauk ræðu minni og fundi var frestað, þá var ég farinn að fjalla um þann þátt þessa máls í sambandi við ráðstafanir ríkisstjórnarinnar, en þetta frv. er tengt þeim í sambandi við efnahagsmál, þá var þar komið sögu í ræðu minni að ég vakti athygli á því að í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar væru miklar þversagnir sem m.a. felast í því og er þessu máli sérstaklega tengt að á sama tíma sem sumir hæstv. ráðherrar tala um það að auka þurfi samkeppni á sviði peningamála og bankamála á Íslandi er verið að gera ráðstafanir sem takmarka þessa samkeppni. Ég vakti m.a. athygli á því fyrr í ræðu minni að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í peninga- og bankamálum er sneru að innlendum aðilum væru þess eðlis að draga úr samkeppni, torvelda starfsemi einkabanka, torvelda starfsemi einkafyrirtækja á sviði peninga- og fjármálaþjónustu á innlendum markaði sem er í eigu innlendra aðila, á sama tíma sem hæstv. viðskipta- og bankamálaráðherra talar um að það eigi að auka samkeppnina m.a. með því að fá hér erlenda aðila til starfa, þ.e. að hugsanlega komi erlendir aðilar inn á íslenskan peningamarkað til þess að auka samkeppnina.
    Ég vil ítreka það að fyrir mitt leyti er ég sammála því meginviðhorfi hæstv. viðskipta- og bankamálaráðherra að á þessu sviði sem öðrum eigi að ríkja sem mest samkeppni. En ég hlýt að gera þær kröfur og hv. þm. að Íslendingar, íslensk fyrirtæki og innlendir aðilar fái þá að njóta þess frelsis að þau geti háð hér virka samkeppni bæði eins og bankamálum og peningamálum er háttað í dag og ekki síður ef hér eiga að koma erlendir aðilar inn í landið til að taka þátt í þessari starfsemi, þ.e. framkalla það sem hæstv. ráðherra kallaði svokallaðan virkan markað á þessu sviði.
    Ég ætla ekki að orðlengja þessi atriði frekar en legg áherslu á það að á sama tíma sem með þeim lagafrumvörpum, og þar á meðal því frv. sem hér er til umræðu, er verið að þrengja stöðu íslenskra banka og fjármálafyrirtækja, þá á að hleypa erlendum aðilum inn í íslenskt bankakerfi. Ég undirstrika það atriði sem ég kom einnig inn á í minni ræðu að þeir erlendir bankar sem mun vera um að ræða eru bankar frá Vestur-Evrópu og þar með Skandinavíu, þ.e. vestrænir bankar en þeir búa við frelsi, þ.e. algjört frelsi miðað við þær ráðstafanir sem hæstv. ríkisstjórn er að gera hér í dag á Íslandi sem er að takmarka frelsið enn frekar frá því sem verið hefur.
    Aðalréttlætingin fyrir því að auka samkeppnina með hugsanlegri þátttöku erlendra banka eða fjármálastofnana á íslenskum peningamarkaði er náttúrlega fólgin í því að það geti haft þau áhrif í för með sér að framkalla hér bæði betri þjónustu og lægri vexti og skapa það svigrúm á íslenskum peningamarkaði sem æskilegt er. En það er nauðsynlegt að gera sér fullkomlega grein fyrir því

hvað felst í slíku. --- Því miður er enginn hæstv. ráðherra Alþb. mættur hér í deildinni og ég vil ítreka þá skoðun mína og ósk eftir að einhver ráðherra úr þeim ,,ágæta flokki`` sé hér viðstaddur þegar fjallað er um þetta atriði vegna þess að ég vil gjarnan fá það staðfest með fyrirspurnum í tengslum við mína ræðu hér á eftir hvort það sé ekki rétt skilið að ráðherrar Alþb. hafi tekið þátt í samþykkt ríkisstjórnarinnar varðandi þetta mál, þ.e. að þeir hafi samþykkt að á næstu missirum verði reglur um fjármagnshreyfingar og viðskipti með fjármálaþjónustu milli Íslands og annarra landa mótaðar á grundvelli tillagna ráðherranefndar Norðurlanda um efnahagsáætlun Norðurlanda 1989--1992. Enn fremur þar sem segir í samþykkt ríkisstjórnarinnar:
    ,,Ríkisstjórnin leggur áherslu á að búa íslenska bankakerfið undir þær breytingar sem munu fylgja sameinuðum fjármagnsmarkaði Evrópu, m.a. með því að auka hagkvæmni þess þannig að það geti staðist samkeppni við erlenda banka hvað varðar vaxtamun, tryggingar o.fl. Í framhaldi af því verður kannað hvort heimila megi viðurkenndum erlendum bönkum starfsemi hér á landi.``
    Ég vil fá það staðfest hér, virðulegi forseti, m.a. með tilvist hæstv. ráðherra Alþb. hvort Alþb. og ráðherrar þess séu ekki örugglega búnir að samþykkja þetta í hæstv. ríkisstjórn. Þetta er grundvallaratriði vegna þess að ég mun víkja að því í ræðu minni hvað raunverulega felst í þessari stefnumörkun ef maður lítur á peningamarkað og fjármagnsmarkað í Vestur-Evrópu. Þetta er meginatriði. ( Forseti: Ég hef óskað eftir því að reynt verði að hafa samband við ráðherra Alþb.) Já, ég þakka virðulegum forseta fyrir það. Sem betur fer var og er hæstv. bankamálaráðherra mættur hér, hann mætti hér stundvíslega og virði ég það mjög við hann sem er auðvitað sjálfsögð skylda hans. Hæstv. ráðherrum Alþb. var kunnugt um það að ég mundi sérstaklega víkja að þessu í minni ræðu. Þetta er mjög veigamikið atriði, sem e.t.v. hefur farið fram hjá hv. þm., að núv. ríkisstjórn er raunverulega búin að taka ákvörðun sem felur í sér grundvallarstefnubreytingu í afstöðu til þess hvernig á að reka banka- og peningamálastarfsemi á Íslandi í framtíðinni, ef þetta er rétt sem kemur fram í samþykkt ríkisstjórnarinnar um samþykkt ríkisstjórnarinnar um peninga- og vaxtamál. En þetta mun hafa verið samþykkt á ríkisstjórnarfundi. Ráðherra kinkar kolli. Ég skil það vel vegna þess að þetta
hefur verið hugsjónamál hæstv. viðskipta- og bankamálaráðherra ekki aðeins sem ráðherra og þingmanns heldur í öllum hans athöfnum sem opinber embættismaður og í persónulegri tjáningu. Ég hef m.a. verið viðstaddur þar sem hann hefur flutt mjög margar ræður og merkilegar um efnahagssamstarf vestrænna þjóða og lýðræðisþjóðanna og það hvernig eigi að tryggja og standa vörð um það eðlilega frelsi sem við höfum svigrúm til þess að standa að á hverjum tíma. Hins vegar hef ég mínar efasemdir um það að hæstv. ráðherrar Alþb. séu jafntraustir í þessu og af er látið

fyrr en ég fæ það staðfest hér í sal.
    Ég vil ítreka það við virðulegan forseta að hér mæti ráðherrar Alþb. og standi fyrir sínu máli. ( SkA: Það finnst mér líka.) Já, ég skil það vel að hv. þm. Skúli Alexandersson skuli óska eftir því vegna þess að ég veit það að hann gerir sér grein fyrir því hvað hér er um veigamikla ákvörðun að ræða. Ég gæti bara vel trúað því, án þess að fullyrða nokkuð um það, að þetta hafi ekki verið lagt fyrir þingflokksfund í Alþb. vegna þess að ég kannast ekki við það að Alþb. hafi þetta á stefnuskrá sinni. En það er nauðsynlegt að fá það fram í hv. þingi og ég vil fá það staðfest. Ég geri ráð fyrir því að alþýðubandalagsþingmenn vilji það líka. Að vísu er mættur hér hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, sem er formaður þingflokks Alþb. Ég hef ekki óskað eftir því að hún standi hér upp og tjái sig um þetta. Ég krefst þess að þeir aðilar mæti, sem hafa staðið að þessari samþykkt um peninga- og vaxtamál, þ.e. fulltrúar Alþb. í ríkisstjórninni. Ég vil fá það staðfest hér og nú hvort þeir hafa samþykkt það að á sama tíma og þeir eru að takmarka samkeppni af hálfu innlendra aðila, þá eigi að hleypa hér inn erlendum aðilum og flokka það undir samkeppni. Því að það þarf að lýsa því fyrir hv. þm. Alþb. sem og öðrum þm. hvað raunverulega felst í þessari stefnumörkun og mun gera það í ítarlegu máli. ( Forseti: Ef hv. ræðumaður óskar þess, þá mundi ég gefa honum kost á því að fresta sínu máli þangað til viðkomandi ráðherrar eru mættir og taka þá fyrir önnur mál á meðan.) ( Viðskrh.: Mér er kunnugt um að menntmrh. er bundinn af öðrum skyldum til kl. hálffjögur.) Já, virðulegi forseti, ég met það. En það væri kannski nauðsynlegt að fá hérna líka hæstv. fjmrh. Ég heyrði það um daginn (Gripið fram í.) já, ég heyrði nefnilega hæstv. fjmrh. segja í sjónvarpi um daginn eitthvað á þá leið að hann tjáði sig þar sem nútíma evrópskan jafnaðarmann. (Gripið fram í.) Það er von að góðum alþýðuflokksmönnum sé brugðið hér í sal þegar maður skýrir frá þessu, en það mun hafa komið fram í sjónvarpi. ( KP: Vill ekki hv. þm. endurtaka þetta?) Jú, ég skal gera það, ekki með ánægju að vísu vegna þess að ég ber svo mikla virðingu fyrir evrópskum jafnaðarmönnum, en hæstv. fjmrh. sagði í viðtali í sjónvarpi um daginn, þar sem verið var að ræða við hann um hans eigin persónu, og margt gott um það að segja, en þegar hann var spurður að því hvers konar stjórnmálamaður hann væri, þá sagði hann: ,,Ja, ég lít nú á mig sem evrópskan jafnaðarmann`` og var þá ýmsum brugðið sem horfðu á sjónvarpið og hlýddu á þetta mál hans og viðhorf, ( Gripið fram í: Var það ekki nútíma?) nútíma evrópskan jafnaðarmann, já. En það er kannski ekki við hæfi að maður sé að herma það upp á hæstv. ráðherra eða yfirleitt að stjórnarandstæðingar skuli leyfa sér að hafa skoðanir eða álit og tjá sig um viðhorf þeirra. Það færi kannski best á því að maður þegði um allt slíkt, en ég veit að virðulegur forseti kærir sig ekki um það. Hann vill að hér sé þingræði og lýðræðisvenjur séu í heiðri hafðar og munum við auðvitað gera það. ( Viðskrh.: Og þingmenn velji sér

viðfangsefni í samræmi við það.) Að sjálfsögðu. Ég veit það. Það er von að hæstv. bankamálaráðherra segi það. Það er náttúrlega ekki viðeigandi að hæstv. fjmrh. sem er í Alþb. skuli leyfa sér að halda því fram að hann sé nútíma evrópskur jafnaðarmaður. Ég skil vel að góðum íslenskum alþýðuflokksmönnum sé brugðið. En ekki ætla ég að biðja hæstv. bankamálaráðherra afsökunar á þessum ummælum. Það verða aðrir að gera.
    En ég er reiðubúinn til þess, virðulegur forseti, ef það er öruggt að ég fái að ræða hér frekar í dag um þetta mál, að gera hlé á máli mínu og bíða þess að einhver hæstv. ráðherra Alþb. hafi tíma til að mæta hér.