Viðskiptabankar
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Frv. til laga um breytingu á lögum nr. 86 frá 4. júlí 1985, um viðskiptabanka, sem ég mæli nú fyrir felur það í sér að gerðar verði nokkrar breytingar á gildandi lögum um viðskiptabanka, m.a. með vísun til samþykktar ríkisstjórnarinnar um peninga- og vaxtamál, sem forsrh. kynnti í ræðu hér á þinginu á mánudag í liðinni viku.
    Gerðar eru tillögur um breytingar á nokkrum ákvæðum í ljósi reynslu af framkvæmd laganna frá því að þau tóku gildi 1. jan. 1986. Breytingarnar miða m.a. að því að kveða skýrar á um hlutverk bankaráða við mótun stefnu bankanna við vaxtaákvarðanir og ákvarðanir á þjónustugjöldum viðskiptabanka. Þá eru í frv. nánari ákvæði um fyrirgreiðslu viðskiptabankanna við einstaka viðskiptavini sína, ákvæði um starfsábyrgð stjórnenda til að girða fyrir hagsmunaárekstra og loks ákvæði sem snerta hlutfall fasteigna og búnaðar af heildareignum banka, en þetta hlutfall skiptir ekki síst máli þegar ákvarðanir eru teknar um stofnun útibúa eða fasteignakaup á vegum bankanna. Ég sný mér þá að einstökum greinum frv.
    Í 1. gr. frv. eru ákvæði sem skýra nánar hvað felist í þeirri takmörkun sem núgildandi viðskiptabankalög setja varðandi þátttöku bankastjóra í atvinnurekstri. Það álitamál hefur nýlega komið upp hvort hlutafjáreign teljist þátttaka í atvinnurekstri í skilningi þessara laga. Mér virðist ljóst að ráðandi hlutafjáreign í hlutafélagi falli undir ákvæði 13. gr. viðskiptabankalaganna. Hlutafjáreign, þótt ekki ráði meiri hluta, getur verið þess eðlis að í krafti hennar megi hafa veruleg áhrif á rekstur fyrirtækis, t.d. með hliðsjón af stærð eignarhlutarins og tengslum eigandans við aðra eigendur eða stjórnendur í fyrirtæki. Í öðrum tilfellum hins vegar getur eignarhald á smáhlut í hlutafélagi, t.d. í almenningshlutafélagi --- tökum sem dæmi að maður hafi tekið að erfðum eitt eða tvö hlutabréf í Eimskipafélagi Íslands eða Flugleiðum --- varla talist annað en ávöxtun sparifjár eða varðveisla verðmæta en ekki þátttaka í atvinnurekstri í skilningi laganna. Hvert einstakt slíkt hlýtur að vera háð mati og í frv. er lagt til að bankaeftirlit Seðlabankans skeri úr um það hvort hlutafjáreign bankastjóra brjóti í bága við þessa grein laganna. Ég tel mikilvægt að þetta sé gert skýrt vegna þess að í gildandi lögum er þetta ekki nefnt. Í athugasemdum með frv. sem varð að þeim lögum var þetta heldur ekki nefnt og ekki kom heldur neitt fram um þetta mál við umræður í þinginu. Mér virðist þó liggja í eðli máls að hlutafjáreign sem úrslitum ræður um ákvarðanir eða stjórn fyrirtækja hljóti að teljast þátttaka í atvinnurekstri.
    Þá er í 2. gr. frv. gerð tillaga um nýtt og nákvæmara orðalag á 4. mgr. 21. gr. viðskiptabankalaganna, um hlut bankaráðanna í mótun stefnu þeirra í vaxta- og gjaldskrármálum og varðandi reglur um hámark lánveitinga til einstakra lántakenda. Þannig er lagt til að í 4. mgr. 21. gr. verði mælt fyrir um það að bankaráð skuli fjalla um ákvarðanir um vexti og gjaldskrá fyrir veitta þjónustu á einstökum

sviðum bankastarfseminnar að fengnum tillögum bankastjórnar. Þá er einnig lagt til að við umfjöllun um vexti og kaupgengi viðskiptavíxla og viðskiptaskuldabréfa skuli bankaráðin gæta þess að ávöxtunarkrafa bankans sé sambærileg við ávöxtun almennra útlána bankans í hliðstæðum áhættuflokkum.
    Ég tel það mikilvægt að skylda bankaráðanna til þess að taka ákvarðanir eða móta stefnu um jafnmikilvæg atriði sem vexti og þjónustugjöld viðskiptabankanna sé alveg ótvíræð og einkum að mótun á vaxtastefnu bankans taki mið af öllum tekjum hans þótt bankaráðin feli bankastjórn að sjálfsögðu alla framkvæmd og daglegar ákvarðanir á grundvelli almennra starfsreglna. Hér hef ég ekki síst í huga að ávöxtunarkröfur viðskiptabankanna við kaup á viðskiptavíxlum, viðskiptaskuldabréfum og greiðslukortanótum hafa sætt mikilli gagnrýni að undanförnu. Það er því ástæða til þess að gera það ljóst að affallaviðskipti eru hluti af vaxtastefnu bankans og samræmis þarf að gæta að teknu tilliti til áhættu. Því hefur verið haldið fram að bankarnir hafi í raun og veru tvenns konar vaxtakjör í boði og ráði hending eða geðþótti því hvoru vaxtakerfinu fyrirtæki eða einstaklingar tilheyri. Ég tel þess vegna æskilegt að í lögunum sé það gert ljóst að allt sé þetta hluti af vaxtastefnu bankans og endanlega á stjórnarábyrgð bankaráðanna. Ég tel að á þessum grundvelli verði auðveldara að fylgja fram samræmdri stefnu í bankamálum og jafnframt gert ljóst að það eru bankaráðin sem bera ábyrgð á öllum þáttum í vaxtastefnu bankans.
    Í lögum um viðskiptabanka er nú kveðið á um það í 4. mgr. 21. gr. að bankaráð viðskiptabanka setji að fenginni umsögn bankastjórnar almennar reglur um lánveitingar bankans sem sendar skulu bankaeftirlitinu. Í grg. með frv. til laga um viðskiptabanka var á sínum tíma vikið að því að unnt væri á grundvelli slíkra reglna að leggja bann við lánum til einstakra viðskiptaaðila umfram tiltekið hlutfall af eigin fé bankans. Um skyldu til að kveða á um hámark lána til slíkra aðila var hins vegar ekki að ræða. Ég tel að það sé hins vegar til bóta að kveða nú á um skyldu bankans til þess að hafa í slíkum reglum ákvæði
um hámark lána til einstakra lántakenda og um tryggingar fyrir lánum. Jafnframt eru tekin af tvímæli um það að ábyrgðir séu settar á sama bekk og lánveitingar.
    Þá er mælt fyrir um það að reglurnar séu endurskoðaðar ekki sjaldnar en árlega og að bankaeftirlitið skuli láta í té álit sitt á þeim hverju sinni. Stefnt er að því að reglur þessar veiti aukið aðhald varðandi lánveitingar, ábyrgðir og tryggingar, en með því er m.a. leitast við að draga úr líkunum á stóráföllum í rekstri bankanna og tryggja betur hag innlánseigenda.
    Það á að vera meginstefna í bankarekstri að bankar bindi ekki um of fé sitt hjá einum eða fáum viðskiptavinum heldur dreifi áhættu vegna starfsemi sinnar. Þess vegna er líka nauðsynlegt að líta ekki eingöngu á efnahagsreikning bankans þegar slíkar

ákvarðnir eru teknar heldur líka á efnahagsreikning skuldarans.
    Með 3. gr. frv. er stefnt að lögfestingu reglna til að girða fyrir hagsmunaárekstur stjórnenda viðskiptabanka annars vegar og hins vegar aðila sem þeir tengjast fjárhagslega eða hagsmunalega. Mér þykir rétt að gera í lögum strangar kröfur um starfsábyrgð stjórnenda í svo mikilvægum stofnunum sem viðskiptabankarnir eru og tryggja sem best í lögum, eftir því sem það er unnt að gera með lögum, óháða ákvarðanatöku í bönkunum. Í þessari grein er lagt til að bankaráðsmenn skuli ekki taka þátt í meðferð máls er varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eiga hlut í, sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða þeir eða aðilar þeim tengdir eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna þar að gæta. Ákvæði frumvarpsins er hliðstætt þeim ákvæðum sem er að finna í bankalöggjöf nágrannalandanna um þetta efni, en í okkar bankalöggjöf eru ekki slík ákvæði nú.
    Í yfirlýsingu forsrh. á mánudaginn var var einmitt sérstaklega vikið að þörfinni fyrir aðlögun íslenska bankakerfisins að breyttum aðstæðum í umheiminum. Þessar tillögur eru skref í þá átt að hér gildi um þetta líkar reglur og gilda í nágrannalöndum okkar. Það er enginn vafi á því að mínu áliti að þegar til lengdar er litið er öruggasta leiðin til að lækka raunvexti hér á landi að auka samkeppni á lánamarkaðnum með nánari tengslum við erlenda fjármagnsmarkaði. Þetta er það meðal sem hrífur. Stefnumótun ríkisstjórnarinnar felur því ekki aðeins í sér tímabundnar ráðstafanir til þess að snúast gegn skammæjum hagsveiflum heldur er hér horft til lengri framtíðar og stefnt að bættu skipulagi í íslenska fjármálakerfinu yfirleitt.
    Á næstunni verður sérstök athugun gerð á því með hvaða skilyrðum sé unnt að veita erlendum bankastofnunum heimild til að starfa hér á landi. Í gildandi bankalögum er nú einungis heimild til þess fyrir ráðherra að veita umboðsskrifstofum erlendra fjármálastofnana starfsleyfi hér á landi. Þessi athugun er í samræmi við þá áformuðu útvíkkun á fríverslun í Vestur-Evrópu sem gerir ráð fyrir því að fríverslun nái ekki einungis til varnings heldur einnig til þjónustu, þar á meðal til bankaþjónustu. Um þetta mál er nú fjallað í viðræðum milli EFTA og Evrópubandalagsins og einnig á vettvangi Norðurlandaráðs, m.a. í tillögum ráðherranefndar Norðurlanda um efnahagsáætlun Norðurlandanna fyrir árin 1989--1992. En það er ljóst að íslenska bankakerfið verður að búa sig undir samkeppni frá erlendum bönkum á næstu árum, samkeppni sem mun veita bönkunum verulegt aðhald og verður því að þjappa þeim saman í styrkari og hagkvæmari einingar. Ég mun á næstunni kynna ákveðnar tillögur um samruna bankastofnana sem einmitt hafa þetta að markmiði.
    Þá kem ég að 4. gr. frv. en þar er gerð tillaga um þá breytingu að endurskoðun á reikningum ríkisviðskiptabankanna skuli framkvæmd af Ríkisendurskoðun eða þeim sem hún tilnefnir og af skoðunarmanni sem ráðherra skipar í stað þess að

kjósa skoðunarmenn ríkisviðskiptabanka á Alþingi. Sú breyting sem grein þessi gerir ráð fyrir er í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 12 frá 1986, um Ríkisendurskoðun, en samkvæmt þeim lögum heyrir nú Ríkisendurskoðunin stjórnarfarslega undir Alþingi. Þessi tillaga er líka flutt samkvæmt málaleitan og áskorun frá Ríkisendurskoðun og þar með frá forsetum þingsins. Mér þykir eðlilegt að endurskoðun ríkisviðskiptabankanna skuli framvegis skipað með þeim hætti sem hér er lagt til þannig að þar séu ekki óþarflega mörg endurskoðunarlög.
    Ég kem svo að 5. gr. frv. Hún er efnislega samhljóða tillögu sem flutt var hér á þinginu í fyrra. Þar er leitast við að eyða ágreiningi um það hvernig skilja beri 1. mgr. 54. gr. laganna um viðskiptabanka. Það hefur nokkuð borið á því að viðskiptabankar, þar sem bókfært virði fasteigna og búnaðar sem bankarnir nota til starfsemi sinnar hefur verið hærra en svarar 65% af eigin fé bankanna, að þeir bankar telji sér það í sjálfsvald selt að láta þetta hlutfall hækka m.a. með því að bæta við sig útibúum á því aðlögunartímabili sem ákveðið var í lögunum um viðskiptabanka, en það voru árin fimm frá 1986 til 1990. Þeir bankar sem hafa þessa skoðun telja nóg að færa þessar eignir niður í 65% af eigin fé við lok þessa tíma. Í frv. eru tekin af tvímæli um það að lögin heimili ekki svo frjálslega túlkun. Í undantekningartilfellum er ráðherra þó gefin heimild til að víkja frá þessum skilyrðum 54. gr.
viðskiptabankalaganna.
    Í frv. til breytinga á lögum um sparisjóði, sem ég vænti að ég fái tækifæri til að mæla hér fyrir í deildinni í beinu framhaldi af þessu lagafrv., er gert ráð fyrir samsvarandi breytingum og ég hef nú lýst varðandi viðskiptabankalögin.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum þessa frv. og tel ekki ástæðu til eða þörf á að hafa þau orð öllu fleiri. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.