Sparisjóðir
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Frv. það til laga um breytingu á lögum nr. 87 frá 4. júlí 1985, um sparisjóði, sem er á þskj. 452 og ég mæli nú fyrir felur í sér að gerðar verði nokkrar breytingar á gildandi lögum um sparisjóði. Breytingar þessar eru að mestu hliðstæðar tillögum í frv. til breytinga á lögum um viðskiptabanka sem ég hef þegar mælt fyrir hér í deildinni, en auk þess er hér gerð tillaga um breytingu á skipan stjórnar sparisjóðanna með hliðsjón af þeim breytingum á sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi í byrjun þessa árs.
    Breytingarnar miða m.a. að því að kveða skýrar á um hlutdeild sparisjóðsstjórna og sparisjóðsstjóra við ákvörðun vaxta og ákvörðun á þjónustugjöldum. Þá hefur frv. að geyma nánari ákvæði um fyrirgreiðslu sparisjóðs við einstaka viðskiptavini sína og einnig ákvæði um starfsábyrgð stjórnenda til að girða fyrir hagsmunaárekstur.
    Í 1. og 2. gr. frv. er að finna ákvæði sem leiða af gildistöku nýrra sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986. Í hinum nýju sveitarstjórnarlögum hafa sýslunefndirnar verið felldar niður, en í þeirra stað koma nú sveitarstjórnirnar beint eða eftir atvikum héraðsnefndir. Sú breyting sem hér er gerð tillaga um, varðandi 5. og 21. gr. sparisjóðslaga, er því að öllu leyti tilkomin vegna hinnar breyttu skipunar samkvæmt sveitarstjórnarlögunum sem nú hefur að fullu tekið gildi. Tillagan felur það í sér að héraðsnefndir eða sveitarstjórnir komi í stað sýslunefndanna við kjör stjórnarmanna í sparisjóði. Þetta mál hefur verið rætt við Samband ísl. sparisjóða og einnig við Samband ísl. sveitarfélaga.
    Í 3. gr. frv. er að finna ákvæði sem ætlað er að skýra nánar hvað felist í þeirri takmörkun sem núgildandi sparisjóðalög gera varðandi þátttöku sparisjóðsstjóra í atvinnurekstri. Upp hefur komið álitamál innan bankakerfisins nýlega hvort telja skuli hlutafjáreign atvinnuþátttöku eða þátttöku í atvinnurekstri. Ákvæði þetta er alveg hliðstætt ákvæðinu í frv. til laga um breytingu á viðskiptabankalögum sem ég hef nýlega lýst hér í deildinni, og ég ætla ekki að gera nánari grein fyrir því að svo stöddu.
    Í 4. gr. frv. er gerð tillaga um nýtt og nákvæmara orðalag á 3. mgr. 24. gr. núgildandi sparisjóðalaga varðandi þátt sparisjóðsstjórnar við mótun stefnu sparisjóðsins í vaxtamálum og einnig varðandi reglur um hámark lánveitinga til einstakra lántakenda. Þannig er lagt til að í 4. mgr. 21. gr. laganna verði tiltekið að sparisjóðsstjórn skuli fjalla um ákvarðanir varðandi vexti og gjaldskrá fyrir veitta þjónustu að fengnum tillögum sparisjóðsstjóra. Einnig er lagt til að við umfjöllun um vexti og kaupgengi viðskiptavíxla og viðskiptaskuldabréfa skuli sparisjóðsstjórn gæta þess að ávöxtunarkrafa sparisjóðsins sé sambærileg við ávöxtun almennra útlána sjóðsins í hliðstæðum áhættuflokkum. Og eins og fram kom í umræðum okkar um frv. um viðskiptabanka er það mikilvægt að gætt sé sömu vaxtakjara í sömu áhættuflokkum, en

eins og fram kom í umræðunum er það auðvitað mikið matsatriði. Ég tel hins vegar mikilvægt að í sparisjóðum eins og viðskiptabönkum fjalli sparisjóðsstjórnirnar um meginreglur í slíkum viðskiptum.
    Þá er í lögunum um sparisjóði kveðið á um það í 3. mgr. 24. gr. að sparisjóðsstjórnin setji að fenginni umsögn sparisjóðsstjóra almennar reglur um lánveitingar sparisjóðsins sem sendar skulu bankaeftirlitinu. Hliðstætt ákvæði er að finna í lögum um viðskiptabanka. Í frv. sem hér liggur fyrir deildinni er lagt til að kveðið verði skýrar á um þetta atriði og er tillaga um hliðstæða breytingu í frv. sem nú liggur fyrir um breytingu á viðskiptabankalögunum. Ég tel að það sé til bóta að kveða nú á um skyldu sparisjóðanna til að hafa í reglum þessum ákvæði um hámark lána til einstakra lántakenda og um tryggingar fyrir lánum. Jafnframt eru tekin af tvímæli um það að ábyrgðir séu jafnsettar lánveitingum í þessu tilliti.
    Þá er mælt fyrir um það að reglurnar skuli sæta endurskoðun ekki sjaldnar en árlega og að bankaeftirlitið skuli láta í té álit sitt á þeim hverju sinni. Það er stefnt að því að reglur sem þessar veiti aukið aðhald varðandi lánveitingar, ábyrgðir og tryggingar, en með því er m.a. leitast við að draga úr líkum á stóráföllum í rekstri sparisjóðanna og tryggja betur hag innlánseiganda. Það er skemmst frá því að segja að þar sem sparisjóðir hafa lent í alvarlegum fjárhagsvandræðum hefur það næstum því án undantekningar stafað af því að sparisjóðirnir hafa lánað of mikið til eins eða fárra lántakenda. Það á að vera meginstefna í rekstri sparisjóðanna að þeir bindi ekki um of fé sitt hjá einum eða fáum viðskiptavinum heldur dreifi áhættunni af starfsemi sinni eins og þeim er frekast kostur.
    Í 5. gr. frv. er stefnt að lögfestingu reglna til að girða fyrir hagsmunaárekstur stjórnenda sparisjóðs annars vegar og hins vegar aðila sem þeir tengjast fjárhagslega eða hagsmunalega. Það þykir rétt að gera í lögum strangar kröfur um starfsábyrgð stjórnenda í sparisjóðunum líkt og í viðskiptabönkunum og stuðla að því að þar verði tryggðar sem best óháðar ákvarðanir. Í greininni er þannig lagt til að stjórnarmenn sparisjóðs, með sama hætti og bankaráðsmenn, skuli ekki taka þátt í meðferð máls er varðar
viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eiga hlut í, sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða þeir eða aðilar þeim tengdir eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna þar að gæta.
    Loks er með 6. gr. frv. leitast við að eyða ágreiningi um það hvernig skilja beri 1. mgr. 71. gr. laganna um sparisjóði. Það hefur borið á því að þeir aðilar sem ákvæði þessu er ætlað að taka til, eins og reyndar um samsvarandi ákvæði í viðskiptabankalögunum og ég gerði hér að umtalsefni áðan, telji sér í sjálfsvald sett að hækka fasteignahlutfall og búnaðar af eigin fé, m.a. með því að bæta við útibúum á því fimm ára aðlögunartímabili sem ákveðið var í lögunum um viðskiptabanka og

sparisjóði, en það var árabilið 1986--1990, og telji nægilegt að þeir nái niður í 65% hlutfallið við lok þessa tímabils. Í frv. eru tekin af öll tvímæli um það að lögin leyfi ekki svo frjálslega túlkun. Í undantekningartilfellum er þó ráðherra gefin heimild til að víkja frá umræddum skilyrðum um sparisjóði. Í þessu frv. til laga um sparisjóði er þannig í stórum dráttum, burtséð frá því sem ég nefndi áðan um breyttan hlut sýslunefnda við kjör í stjórnir sparisjóðanna, fjallað um sama málasvið og í frv. um viðskiptabanka sem var til umræðu fyrr á þessum fundi.
    Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum þessa frv. Ég tel ekki þörf á að fylgja því úr hlaði með fleiri orðum og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.