Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Mig langar til þess að reyna að svara í einhverjum mæli þeim fjölmörgu spurningum og athugasemdum sem fram komu í ræðum þeirra hv. 2. þm. Norðurl. e. og hv. 14. þm. Reykv., Guðmundar H. Garðarssonar, sem hér hafa báðir flutt langt mál og efnismikið. Ég mun freista þess að drepa á meginatriðin í því sem fram kom í máli þessara tveggja hv. þm. Ég get að sjálfsögðu alls ekki gert því viðhlítandi skil á þeim tíma sem eðlilegt er að taka til 1. umr. um þetta mál og mun því stikla á stóru.
    Mér finnst athyglisvert í málflutningi þessara tveggja hv. þm., og reyndar annarra þm. Sjálfstfl. sem talað hafa við umræður um efnahagsmál hér í þinginu á undanförnum dögum, að þeir virðast eiga erfitt með að gera það upp við sig hvort þetta mál í heild, stefnumótun ríkisstjórnarinnar í peninga- og vaxtamálum og efnahagsmálum yfirleitt, sé rýrt í roði eða mjög merkilegt og stórfellt straumhvarf í efnahagsmálum. ( GHG: Það þarf ekki að vera til hins betra.) Bíddu nú við, hv. 14. þm. Reykv. Ég skildi eiginlega skoðun hv. 14. þm. Reykv. að hann teldi að það væru vatnaskil til hins betra og ég fagna því því að ég er sannarlega sammála honum um það. ( GHG: Að hluta.) Ég vona þess vegna að þessi þversögn í málflutningi þessara ágætu þingmanna muni uppleyst í fyllingu tímans. Þannig mun reyndar einnig fara um þá þversögn sem báðir þessir þingmenn --- og reyndar fetuðu þeir þar í slóð formanns síns, hv. 1. þm. Suðurl. sem hafði þetta nokkuð á orði þegar ræddar voru yfirlýsingar hæstv. forsrh. á mánudaginn í fyrri viku. Þeir héldu því fram báðir í senn, og allir í senn ætti ég líklega að segja, að þessar tillögur væru mótsagnakenndar því að annars vegar takmörkuðu þær samkeppni og hlutuðust til um markaðinn, hins vegar stefndu þær að því að opna hann og tengja hann nánar, þ.e. fjármagnsmarkaðinn, því sem er í öðrum löndum. Ég tel að þarna sé málum nokkuð blandið í málflutningnum vegna þess að í þessu máli eru ekki andstæður þegar að er gáð.
    Það er almennt viðurkennt, og það veit ég að hv. 14. þm. Reykv. þekkir mætavel úr sínu námi og starfi, að þegar samkeppni er takmörkuð á markaði, þá eru úrræði hins opinbera til þess að ráða bót á því og tryggja sanngjarna verðlagningu tvenns konar: Til skamms tíma að hlutast til um verðákvarðanir þeirra sem eru markaðsráðandi og gæta þess að ekki halli á hina sem minna mega sín, þ.e. að halda í skottið á einokunar- og markaðsráðandi fyrirtækjum. Hin aðferðin er sú þegar til lengdar lætur að auka samkeppni á markaðnum, auka virkni samkeppninnar með því að opna hann. Þannig stuðlar almannavaldið að almannaheill og nýtir kosti samkeppninnar en eyðir markaðsbrestum með vel valinni íhlutun.
    Nákvæmlega þannig mætti lýsa þeim ráðstöfunum sem stjórnin hefur nú til gripið í bráð: Að hlutast til um ákvarðanir á markaði þar sem samkeppni er ónóg og hallar á almenning. Að treysta markaðsstöðu neytenda og hinna mörgu lántakenda sem ekki eiga í

önnur hús að venda en hjá innlendum lánastofnunum og þurfa þar stundum að sæta kjörum sem býsna þungbær geta reynst.
    Hins vegar er þetta ekki varanleg lausn. Varanlega úræðið er auðvitað að bæta eiginleikana á þessum lánamarkaði, stuðla að samkeppni bæði innan lands og í fjármálaþjónustu yfir landamærin. Þess vegna er það að mínu áliti sögulega merkileg samþykkt sem gerð var um það einmitt að íslenskar lánastofnanir búi sig undir það að tengjast nánar erlendum fjármagnsmarkaði. Til þess þarf að þjappa þeim saman, til þess þarf að gera úr þeim öflugri starfhæfar einingar. Þetta veit ég að við erum sammála um, hv. 14. þm. Reykv. og 2. þm. Norðurl. e., þegar að er gáð. Þannig er ekki í þessu fólgin nein þversögn heldur styður þetta þvert á móti hvað annað. Reyndar er það mín von að sú skerping á íhlutunarrétti Seðlabankans og stjórnvalda um lánamál, sem felst í þeim tillögum sem hér liggja á borðum í allmörgum frumvörpum, verði fyrst og fremst virk þannig að þarna vaki í veðri það aðhald sem almenningur þarf og að það þurfi ekki að beita þessu með beinni íhlutun. Þannig þjóna slíkar reglur slíkum tilgangi best. Á þetta mun náttúrlega reyna á næstu vikum og m.a. mun það varða þá sem sitja í bankaráðum, hvort sem það er nú Verslunarbankinn eða Búnaðarbankinn eða einhverjir aðrir bankar, þá mun reyna á það hversu trúir menn eru samkeppnishugsjóninni og ekki síður, hv. 14. þm. Reykv., ef þú mátt vera að því að hlusta, sanngirnishugsjóninni sem ég hélt að þú hefðir líka að leiðarljósi í þínu lífi og starfi. Þetta verður hann nú bara að lesa í þingtíðindunum, blessaður drengurinn. (Gripið fram í.)
    Þá hverf ég aftur að orðum hv. 2. þm. Norðurl. e. Hann sagðist vonast til þess að vinnubrögðin við meðferð þessara þingmála yrðu vönduð. Ég er sammála honum um það og ég tel að það sé alls enginn árekstur þar á milli að vinna skjótt og örugglega að málum og sinna þeim af nákvæmni. Ég treysti á að það verði gert, bæði hér í deildinni og í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar.
    Hv. 2. þm. Norðurl. e. taldi að í þeim tillögum, sem nú væru uppi í vaxta- og peningamálum, væru fólgin nokkur hamskipti hjá þeim sem hér stendur, og reyndar ýmsum öðrum sem að málinu standa, og sagðist telja að í þessu væru nú fólgnar tillögur um aukna miðstýringu í fjármálum og peningamálum, aukin
íhlutun í vaxtaákvarðanir o.s.frv. Vegna þessara orða hv. 2. þm. Norðurl. e. langar mig að lesa fyrir hann úr þeim tillögum hv. 1. þm. Suðurl., sem þá var forsrh. og hann flutti í ríkisstjórninni um miðjan september, um vaxtamál og biðja hann síðan að útskýra fyrir mér hvers vegna þeir sjálfstæðismenn snúast svo öndverðir við þeim tillögum sem hér eru fluttar. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég nú að hefja lesturinn og hann er svona:
    Tillögur hv. 1. þm. Suðurl., þáv. forsrh., voru í formi draga að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í efnahagsmálum og tilvitnunin er svona:

    ,,Ríkisstjórnin hefur falið Seðlabankanum í samráði við viðskrn. að halda áfram viðræðum við lánastofnanir um lækkun vaxta. Leiði þær viðræður ekki til samkomulags um vaxtaþróun ítrekar ríkisstjórnin samþykkt sína frá 26. ágúst sl. um beina íhlutun Seðlabankans um vaxtaákvarðanir innlánsstofnana til þess að viðunandi niðurstaða náist.
    Samhliða lækkun nafnvaxta í samræmi við áframhaldandi hjöðnun verðbólgu mun ríkisstjórnin vinna að því að meiri stöðugleiki í efnahagsmálum leiði til lækkunar raunvaxta.
    Fjármálaráðherra mun beita sér fyrir lækkun vaxta á spariskírteinum og öðrum skuldabréfum ríkissjóðs í samningum við innlánsstofnanir og lífeyrissjóði.
    Ríkisstjórnin hefur falið Seðlabankanum að stuðla að hliðstæðum breytingum á öðrum sviðum lánamarkaðarins og vinna þannig að almennri lækkun raunvaxta.
    Ríkisstjórnin hefur falið Seðlabankanum að breyta grundvelli lánskjaravísitölu þannig að vísitala launa hafi sama vægi og framfærsluvísitalan og vísitala byggingarkostnaðar. Með þessari breytingu er leitast við að draga úr misgengi launa og lánskjara samhliða því sem sparifé verður áfram varið fyrir verðlagsbreytingum.``
    Þannig lýkur tilvitnun og ég spyr enn: Hvers vegna eru nú sjálfstæðismenn hér í þinginu svo afhuga þeim tillögum sem núv. ríkisstjórn hefur lagt fram, sem í raun og veru byggja á sömu hugsun og þeir áður kölluðu, fyrir ekki mörgum vikum, einu raunhæfu tillögurnar? Munurinn sem er á orðinn síðan er einfaldlega sá að verkfærin hafa verið brýnd svolítið betur. Það er búið að huga að því að ýmislegt sem gera þurfti til þess að þetta gæti orðið sem þarna var lesið --- og í öllum meginatriðum eru þessi atriði enn hér í tillögunum --- að þetta gæti orðið að veruleika. Hvernig stendur á því, hv. 2. þm. Norðurl. e. og hv. 14. þm. Reykv., að það sem þið gátuð lýst sem hinum einu ábyrgu tillögum í september er allt í einu nú í febrúar orðið þannig að það sé óþolandi miðstýring og íhlutun um frjálsa markaðsstarfsemi? Ég fæ ekki séð innrímið í þessu og ég veit að hv. 2. þm. Norðurl. e. með sitt næma brageyra og þjálfaðan rímhaus getur það ekki heldur.
    Ég ætla svo að víkja að einstökum atriðum í máli hv. 2. þm. Norðurl. e. Hann velti því fyrir sér hvort orðin --- sem bætt er við 2. mgr. 9. gr. laganna um Seðlabanka Íslands, að teknu tilliti til annarra tekna innlánsstofnana, þegar fjallað er um óhæfilegan vaxtamun milli inn- og útlána --- hvort í þeim fælist einhvers konar vantraust á Seðlabanka Íslands. Það er alveg fjarri lagi. Þetta er einfaldlega til þess að gefa Seðlabankanum færi á að meta með tilliti til allra aðstæðna og einmitt vegna þess sem þeir hafa einatt bent á sjálfir, bæði þeir og bankarnir, að tekjuskipting, tekjusamsetning einstakra lánastofnana væri svo breytileg. Þess vegna væri nokkuð gott að fá svona viðbót. Ég tel þetta reyndar einnig hentugt til þess að vaxtastefnan taki tillit til allra þátta í tekjumyndun bankanna og er ekki full þörf á að gera það í

bankaráðunum að líta líka til viðskiptakjara sem bankarnir bjóða sínum viðskiptavinum á öðrum lánsformum en hinum hefðbundnu sem birt eru í auglýsingum og tilkynningum frá bönkunum, þ.e. að bankaráðin hafi yfirumsjón með affallaviðskiptum og viðskiptakjörum sem boðin eru á viðskiptaskuldabréfum og viðskiptavíxlum? Þetta tel ég mjög nauðsynlegt til þess að sanngirni sé gætt og ekki sé eitthvert huldufólkskerfi í vaxtaákvörðunum í bönkunum, að það sé ekki tvöfalt siðgæði í þeim ákvörðunum sem þar eru teknar. Þannig er nú það. ( Gripið fram í: Hvar er Stefán?) Hann er því miður ekki hér.
    Þá kem ég að því sem er í 3. og 4. gr. frv., um innheimt viðurlög vegna vanefnda á lausafjár- eða bindiskyldukvöðum. Hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði að þetta væru nýir skattar á bankana, nýir skattar á atvinnuvegina. Þetta er fráleit fullyrðing. Í þessu er ekkert nýtt. Þetta eru þau viðurlög sem tíðkast hafa og áður hefðu runnið og renna nú til Seðlabankans. Það eina sem gerist er það að eigandi Seðlabankans, ríkissjóður, fær nú *y3/4*y af þessum viðurlögum beint til sín, fengi þau ella að hálfu á endanum í gegnum hagnaðarráðstöfun samkvæmt ákvæðum laganna. Ég tel það heppilegt að ráðstafa þessu fé, sem er ekki nýtt og ekki nýjar álögur, beint til ríkissjóðs þannig að Seðlabankinn liggi alls ekkert undir því að hann ákveði þessi viðurlög eða hagi framkvæmd sinni á bindiskyldu og lausafjárkvöðum út frá eihvers konar eigin hagsmunasjónarmiði, þ.e. að hann noti sér þetta til fjáröflunar. Ef það er sýnt að stærsti hluti viðurlaganna eins og önnur viðurlög sem tíðkast renni beint til ríkissjóðs, þá er þessari röksemd eytt. Þetta er tilgangurinn.
    Hugleiðingum hv. 2. þm. Norðurl. e. um það að ríkisstjórnin liti á
Seðlabankann eins og einhverja sjálfrennandi lind og þarna væri auðsuppsprettan fundin vísa ég til föðurhúsanna. Það er hins vegar ljóst að það verður verulegur afgangur af rekstri Seðlabankans á árinu 1988. Sá afgangur fer inn í þriggja ára meðaltal sem ákveður hvað mikið muni renna til ríkissjóðs á árinu 1989 af meðalhagnaði sl. þriggja ára. Ég giska á að það verði um 150 millj. kr. Við það munu svo bætast þær rúmlega 250 millj. kr. sem ríkissjóður fengi af viðurlögunum sem á voru lögð í fyrra en eins og fram kemur í athugasemdum frv. voru þau um 335 millj. Samanlagt er því hér um það að ræða að af rekstrarafgangi Seðlabankans renni um 400 millj. kr. til ríkisins. Rekstrarafgangurinn 1988 er áreiðanlega hátt í 2 milljarða.
    Ég ætla ekki að segja neitt fleira um þetta. Ráðstöfun á rekstrarafgangi Seðlabanka til ríkissjóðs er með ýmsum hætti í löggjöf norðlægra landa, en ég bendi á lönd, sem hingað til eru talin hafa fylgt ábyrgri fjármálastefnu eins og t.d. Sambandslýðveldið Þýskaland, þar sem allur afgangur af seðlabankarekstrinum rennur í ríkissjóð. Sama máli gegnir um Noreg samkvæmt tiltölulega nýjum seðlabankalögum. En ég ítreka að hér er alls ekki um

neina nýja skatta að ræða, það er fráleit fullyrðing. Hins vegar tel ég þetta heppilega breytingu til þess að eyða þeim áróðri á hendur Seðlabankanum að hann hafi þetta sér til framfæris og afli sér tekna með því að níðast á bönkunum. Það gerir hann ekki. ( E gJ: Voru ekki tillögur uppi um að þetta færi í Atvinnutryggingarsjóð eða á einhvern slíkan stað?) Ég kannast ekki við þær tillögur.
    Í orðum sínum vék hv. 2. þm. Norðurl. e. nokkuð að vaxtalögum og þeim breytingum sem þar eru uppi. Ég tel heppilegra að þær umræður fari fram á þeim tíma sem það frv. er til meðferðar í hv. deild, en ég bendi á að það sem hann gerði helst að umtalsefni var reyndar umbrotsgalli í 6. gr. vaxtalagafrumvarpsins sem vonandi verður búið að leiðrétta og prenta upp áður en frv. kemur til þessarar deildar eins og reyndar var á orði haft í umræðum um málið í Nd. sem var að ljúka núna rétt áðan.
    Ég vildi svo víkja að því sem hv. þm. Halldór Blöndal talaði hvað mest um og það var orðið ,,hóflegur``, hvernig það bæri að skilja þegar talað er um raunvexti. Ég vildi þá benda honum á að í þeim seðlabankalögum sem ég þykist viss um að hann muni hafa samþykkt með sínu atkvæði er einmitt í 9. gr. orðið ,,óhæfilegur`` um vaxtamun á milli inn- og útlána þar sem Seðlabankanum er fengið það vald að hlutast til um vexti til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána. Ég tel að úr því að þetta var hægt sé hitt líka hægt og það sé á margan hátt eðlilegt að Seðlabankinn hafi sömu stöðu og sömu möguleika til huglægs en sjálfstæðs mats á því hvað hann telji hæfilegt í þessu efni um vextina sjálfa eins og um vaxtamuninn því að munurinn verður nú ekki greindur á því þegar til stykkisins kemur. Þess vegna tel ég að þeir menn sem vilja vera sjálfum sér samkvæmir í þessu máli hljóti að geta fallist á þá tillögu, sem hér er gerð, að þetta mat verði Seðlabankanum heimilað innan þeirra marka sem þarna eru nefnd, þ.e. ,,og eigi hærri en algengast er í helstu viðskiptalöndum Íslendinga``. Þetta er mjög mikilvægt og ég tel reyndar að það sé nauðsynlegt vegna þess hversu umdeilanlegt slíkt mat og samanburður á milli landa er þannig að það verður að gefa þeim aðila sem á að fara með þetta vald aðstöðu til þess, heimild til þess að meta sjálfur hvað hann telji hæfilegt innan þeirra marka, einkum vegna þess hve sundurleitt efnið er sem bera skal saman. Reyndar tel ég að þetta muni stuðla að því að auðveldara sé að skilja hvernig á að framkvæma þessa grein og reyndar, eins og ég kom inn á í minni framsöguræðu, var það meðal minna fyrstu verka sem viðskrh. að óska eftir reglulegum skýrslum frá Seðlabankanum um þessi tvö atriði sem eru í 9. gr. seðlabankalaganna, þ.e. samanburð raunvaxta á milli landa og hvað hann teldi hæfilegan vaxtamun. Satt best að segja hafa þær skýrslur verið nokkuð lausar í böndum. Þess vegna finnst mér eðlilegt þegar svona stendur á að gefa Seðlabankanum sjálfstæði til að meta það hvað hann telji hæfilegt.
    Ég vísa því alveg á bug, sem hv. 2. þm. Norðurl.

e. hélt hér fram, að ég hefði haft Seðlabankann að blóraböggli í umræðum um efnahagsmál. Það er fjarri öllu lagi. Það hef ég ekki gert og tel ekki skynsamlega vinnuaðferð. Seðlabankinn er starfstæki ríkisstjórnarinnar. Hann hefur visst sjálfstæði lögum samkvæmt, á að nota það með þeirri ábyrgð sem á honum hvílir sem helstu stjórnvaldsstofnun á sviði peningamála.
    Hv. þm. las úr samþykktum ríkisstjórnarinnar um peninga- og vaxtamál og óskaði skýringa á því hvað við væri átt þar í meginatriðum. Ég tel mig í raun og veru hafa oft svarað þeim lestri með því sem ég las úr tillögum hv. 1. þm. Suðurl. þar sem einmitt þræðinum í þessu máli var lýst. Það sem nú er verið að gera er að gera þetta framkvæmanlegt, herða á því skrúfurnar, brýna vopnin svo þau bíti betur til þess að hægt sé að framkvæma þann góða ásetning sem hikað var við í haust. Svoleiðis er nú það.
    Síðan spurði hv. þm.: Hvað er átt við þegar talað er um endurskoðun á skiptikjarareikningum? Ég skal skýra það nokkrum orðum.
    Margir af bankastjórunum, ekki síst í Búnaðarbankanum þar sem ég veit að hv.
þm. er málum kunnugur, hafa áhyggjur af því að skiptikjarareikningarnir með því lagi sem þeir eru nú setji bankana í óhæfilega áhættu með sínar tekjur. Það sé of erfitt að geta sér til um hver verði niðurstaðan með vaxtamuninn hjá bönkunum, með greidda vexti og endurheimta vexti. Ég tel ástæðu til að hlusta á þessar raddir og meta hvort breytingar á þessu fyrirkomulagi, sem samkomulag gæti tekist um milli stjórnvalda og viðskiptabankanna, eru heppilegar. Þetta mál er alls ekki sett upp þannig að menn telji sig fyrir fram geta sagt nákvæmlega hvaða breyting þarna yrði gerð, en ein er þó augljós og hún er sú að það er mjög útbreiddur vilji forsvarsmanna viðskiptabankanna að draga úr mikilvægi þessara reikninga vegna þeirrar áhættu sem þeir telja að þeir feli í sér.
    Hér ætla ég ekki að gera frekar að umtalsefni þá yfirlýsingu stjórnarinnar að stefna að nánari tengslum íslenska fjármagnsmarkaðarins við fjármagnsmarkaði nálægra landa. Það er mikið framtíðarmál sem stjórnin hefur orðið sammála um að undirbúa með skipulegum hætti og móta þarf reglurnar á grundvelli m.a. efnahagsáætlunar Norðurlanda sem Guðmundur H. Garðarsson, 14. þm. Reykv., gerði hér að umtalsefni og hafði greinilega lagt í það mikla vinnu að kynna sér það sem í því felst. Ég ætla ekki að hafa um það mjög mörg orð. Ég tel þetta mikilvæga samþykkt og að því máli verður unnið með þeim hætti sem fram gengur af samþykktinni og þarfnast ekki frekari skýringa á næstu missirum.
    Mér fannst eiginlega vaka í máli hv. 2. þm. Norðurl. e. andstæða þess sem kom fram í máli hv. 14. þm. Reykv. Hann virtist hafa áhyggjur af því að tengja íslenska fjármagnsmarkaðinn nánar erlendum lánamarkaði, taldi það dauflega þjóðerniskennd ef erlendir bankar væru helsta úrræðið eða hjálpræðið minnir mig að hann notaði. Síðan sagði hann margt

fleira um þetta mál, taldi það ósýnt að slíkar breytingar mundu lækka vextina og varpaði fram þeirri spurningu hvort afurðalán án ríkisábyrgðar mundu þá ekki valda hærri vöxtum. Mér finnst þetta satt að segja ganga dálítið á skjön við málflutning annarra flokksbræðra hv. þm.
    Ég held því alls ekki fram að nánari tengsl íslenska fjármagnsmarkaðarins við erlenda markaði muni alltaf og ævinlega þýða lægri vexti. Ég held því hins vegar fram að slík tenging mundi stuðla að meira jafnvægi á lánamarkaðnum og að lán til fyrirtækja án ríkisábyrgðar á eigin ábyrgð séu æskileg þróun í okkar landi og draga eigi úr ríkisábyrgðunum. Ég bendi á að því hefur oft verið haldið fram af samtökum útflytjenda að þeir geti sjálfir fjármagnað sína sölu og sínar afurðabirgðir án milligöngu bankanna og ég tel rétt að þeir séu frjálsir að því að gera það.
    Þetta er í einföldu máli það sem um þetta er að segja, en auðvitað verður ekki að breytingum af þessu tagi hrapað. Auðvitað varpa menn ekki frá sér því sem hefur skapað Íslendingum gott orð sem lántakendum erlendis, auðvitað munum við ekki varpa fyrir róða því gildi sem eignarhald ríkisins á vel metnum lánastofnunum getur haft fyrir okkur. Það eru auðvitað búhyggindi sem ég er sammála hv. 2. þm. Norðurl. e. um að við eigum að hafa í heiðri og ekki rýra fyrir okkur sjálfum.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta mikið fleiri orð. Aðrar athugasemdir og spurningar hv. 2. þm. Norðurl. e. sneru að öðrum frv. en því sem hér er til umræðu. Eitt af því sem hann varpaði fram hér var um óbreytilega vexti á verðtryggðum lánum en það er gerð um það tillaga hér í öðru frv. að Seðlabankinn hafi heimild til þess að taka upp slíka tilhögun almennt ef og þegar aðstæður eru heppilegar á lánamarkaði til slíkra hluta. Hann varpaði því fram að þetta mundi hækka vexti. Það tel ég nú ekki einsýnt. Það fer eftir því við hvaða aðstæður þetta er gert. Ég minni hann á það að formaður Sjálfstfl., 1 þm. Suðurl., fagnaði þessu ákvæði alveg sérstaklega. Endurtók það oft í sinni ræðu á mánudaginn í fyrri viku.
    Loks hafði hv. þm. orð um það að lánskjaravísitölubreytingin horfði ekki til framfara. Ég minni hann enn á það sem ég las áðan úr tillögum hv. 1. þm. Suðurl. sem hv. 2. þm. Norðurl. e. kallaði hinar einu sönnu tillögur eða einu ábyrgu tillögur. Þar var orðrétt lagt til það sem nú hefur verið gert í þessu máli.
    Þá vík ég nokkuð að athugasemdum og ummælum hv. 14. þm. Reykv. Guðmundar H. Garðarssonar. Ég hef reyndar þegar fjallað um það sem hann kallaði hina stóru þversögn í málflutningi stjórnarinnar. Þegar að er gáð er þetta ekki þversögn eins og ég kom inn á í upphafi minnar ræðu. Þetta er einfaldlega dæmi um tvenns konar íhlutun stjórnvalda við ófullkomin markaðsskilyrði, annars vegar íhlutun í bráð, opnun markaðarins og aukin samkeppni í lengd sem er nákvæmlega það sem felst í tillögum stjórnarinnar. Og ég vísa því á bug að tillögurnar feli í sér að stefnt

skuli að því að eyðileggja verðbréfasjóði og fleira af því tagi sem hv. þm. fór hér með í annars mjög málefnalegri og vandaðri ræðu. Því fer víðs fjarri. (Gripið fram í.) Þú sagðir eyðileggja verðbréfasjóði og slíkar stofnanir. (Gripið fram í.) Já, einmitt ég er að tala um fyrri ræðu þingmannsins. Ég er að því. Ég geri ráð fyrir því að hann geri ekki upp á milli sinna ræðna og það ætla ég heldur ekki að gera. --- Ég vísa því alveg á
bug. Sannleikurinn er sá að hér hefur þrifist fjármálastarfsemi bæði verðbréfasjóða og fyrirtækja og með greiðslukort án þess að um þetta væru í gildi almennar leikreglur. Og ég bið hv. þm., sem í ræðum sínum hefur sýnt að hann hefur kynnt sér hvað tíðkanlegt er í löndunum í kring, að kynna sér þær reglur sem gilda um starfsemi verðbréfasjóða og verðbréfafyrirtækja í nálægum löndum, hvort sem væri á Norðurlöndum eða á Bretlandi, og þá mundi það upp fyrir honum renna að þar gilda margar og mjög strangar reglur um slíka starfsemi. Sama máli gildir um verðbréfafyrirtæki.
    Menn mega ekki blanda agaleysi og frelsi saman. Frelsið er gott en því frelsi sem ríkir á markaðnum þarf að fylgja ábyrgð og agi og almennar leikreglur sem tryggja það að samkeppnin fari vel og heiðarlega fram og að hlutur neytenda og hinna smáu sé ekki fyrir borð borinn. Þar kem ég að því, sem ég nefndi hér áðan, að ég treysti því að hv. 14. þm. Reykv. hafi ekki eingöngu samkeppnina að leiðarljósi í sínu starfi heldur líka sanngirnina. Það er kjarni þessa máls að hér er verið að setja almennar leikreglur fyrir fjármálastarfsemina sem miðar að þessu í senn.
    Hv. þm. nefndi ýmislegt um starfsemi lífeyrissjóðanna og þá skoðun, sem hann lét í ljós, að breytingar á lögbindingu eða lögþvingun á ráðstöfun fjár þeirra til húsnæðismála og hvort það að losa um þá fjárbindingu og hleypa því fé almennt inn á lánamarkaðinn, inn í bankakerfið gæti ekki stuðlað að betra jafnvægi á lánamarkaðnum. Ég tel þetta mjög réttmætar ábendingar og mál sem ræða þarf. En þar er náttúrlega líka til þess að líta að þessi svokallaða binding, sem ég að sumu leyti lít eiginlega á sem réttindi fremur en skyldur vegna þess að þarna er ríkið að ábyrgjast verðtryggingu og ríflega ávöxtun á mjög stórum hluta af sjóðunum, þessi tilhögun er til komin, á sett sem hluti af kjarasamningunum 1986. Auðvitað geta þeir ekki gilt til eilífðarnóns, en hins vegar veit ég það að hv. 14. þm. Reykv., svo reyndur sem hann er af þeim vettvangi, skilur líka að slík löggjöf hefur í sér fólgnar vissar skyldur, viss bönd úr fortíðinni sem ekki er svo auðvelt að leysa, hvað þá að höggva á. En ég tel að ábending hans sé réttmæt. Þarna mætti huga að því hvort einhvers konar breyting á þessu og að meira af fé lífeyrissjóðanna komi inn á hinn almenna markað gæti ekki stuðlað þar að betra jafnvægi.
    Síðan vil ég víkja aðeins að því sem fram kom í máli hans og varðaði breytingar á ákvæðum 8. gr. seðlabankalaganna um bindiskyldu þar sem ég lýsti því að bankabréf og veðdeildastarfsemi kynnu að

koma undir bindiskylduna samkvæmt þeim tillögum sem nú væru ræddar. Ég andmæli því að í þessu felist nokkur aðför að einkabönkunum. Þvert á móti tel ég að í þessu fælist jöfnun á skilyrðum vegna þess að það fer ekki mála á milli um þá banka sem hafa notfært sér það að færa meira og meira af lánastarfseminni yfir í veðdeildir og bankabréfaviðskipti, og það eru ekki eingöngu einkabankarnir því að ríkisbankarnir hafa líka gert þetta, að það var með öllu óeðlilegt. Þess vegna tel ég að þarna þurfi að leita að leið sem tryggir það að eins sé með alla farið og að menn geti ekki vikið sér undan þessum kvöðum hvort sem mönnum eru þær ljúfar eða leiðar einfaldlega með því að segja: Þetta er starfsemi sem ég rek í gegnum veðdeild bankans en ekki fyrir reikning hans sjálfs. Þetta er starfsemi sem ég rek yfir bankabréf. Ég vil ekkert lána þér peninga, segir bankinn við viðskiptavininn, en þú getur fengið hér bankabréf og þá er auðfengið lánsféð. Þessar reglur eru augljóslega ekki sanngjarnar eins og þær eru og ég tel þess vegna mjög athugunarvert hvort ekki eigi að færa þetta í þetta snið.
    Hv. þm. kom inn á langtímastefnuna í samþykktum ríkisstjórnarinnar og spurði mjög um það. Það endurtók hann í sinni ræðu í dag og ég kann honum þakkir fyrir að hafa vakið athygli á því hversu stóru máli er þarna hreyft. Ég býst við að ræða hæstv. fjmrh. hafi líka leitt í ljós að þarna hefur tekist það sem ég vil kalla sögulegt samkomulag um að vinna að undirbúningi að breytingum á þessum reglum á grundvelli tillagna ráðherranefndarinnar um efnahagsáætlun Norðurlanda sem hefur sem eitt mikilvægasta innihald sitt breytingar á fjármagnsmarkaði og reglur um frjálsari hreyfingar á milli landa. Þessi þróun er hér þegar byrjuð. Í upphafi ársins voru gefnar almennar heimildir til þess að taka vörukaupalán allt að þremur mánuðum ef tekið var á eigin ábyrgð fyrirtækjanna án tillits til þess hvað inn var flutt, enda voru þær reglur sem áður giltu gjörsamlega úreltar. Þetta var fyrsta skrefið í átt til þess að heimila lántökur í auknum mæli á eigin ábyrgð, en í því felst líka að það verði haldið aftur af lántökum sem eru teknar fyrir ábyrgð banka eða ríkisins.
    Þetta er í stuttu máli fyrsta skrefið, en við þurfum líka að huga að því hvort og með hvaða skilyrðum unnt sé að leyfa viðurkenndum fjármálastofnunum að starfa hér á landi. Við þurfum að búa innlendu lánastofnanirnar undir þetta, þjappa þeim saman, gera úr þeim starfhæfari einingar sem í fyllingu tímans geti leitað viðskipta utan lands ekki síður en innan um leið og einhverjir erlendir aðilar fengju viðskipti innan lands. Ég er sannfærður um það að næsti áratugur verður að sama skapi áratugur aukins frelsis í viðskiptum með þjónustu, bæði fjármálaþjónustu og aðra þjónustu, eins og
sjöundi og áttundi áratugurinn eru einkenndir af auknu frelsi í viðskiptum með vörur. Hægt og hægt mun þessi breyting verða og ég er sannfærður um að hún verður okkur til góðs ef við kunnum fótum okkar

forráð og högum okkar búskap þannig að við getum staðist þessi nýju skilyrði. Það er mál til komið að hér kæmi ríkisstjórn sem tæki á þessu máli með þá framtíðarsýn sem ég tel að lýsi sér í samþykkt ríkisstjórnarinnar og forsrh. kynnti hér á mánudaginn var.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð í þessu máli og mun að sjálfsögðu svara öðrum fyrirspurnum og athugasemdum sem berast kunna eftir því sem ástæða gefst til.