Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það var í rauninni sorglegt að hæstv. viðskrh. skyldi ekki hafa haft tækifæri til þess að draga framtíðarsýn sína upp fyrir samtökum fiskvinnslustöðvanna sem þinguðu sl. föstudag í Háskólabíói. Þeir voru mættir þar, þrír ráðherrar, og ég hygg að það sé samdóma álit allra sem á þá hlustuðu að þeir voru ekki stoltir af yfirlýsingu hæstv. forsrh., þeir voru ekki stoltir af þeim rekstrarskilyrðum sem sjávarútvegurinn hefur nú og ég hygg að það liggi alveg ljóst fyrir, eins og fram hefur komið hjá hæstv. sjútvrh., eins og fram hefur komið þrásinnis hjá hæstv. forsrh., að grundvöllur peningakerfisins er skakkur. Það eru brestir í grundvellinum. Þegar hæstv. viðskrh. er hér að hrósa sér af því að hann sé tímamótamaður í sæti viðskrh. og talar mjög um að honum hafi auðnast að auka frelsi í gjaldeyrisviðskiptum og öðru slíku, þá er rétt að rifja upp að okkur sjálfstæðismönnum hefur tekist, þrátt fyrir að vinstri menn eru í meiri hluta á þinginu, að koma fram margvíslegum umbótum í gjaldeyrismálum, í viðskiptamálum þar sem á hinn bóginn Alþfl. hefur verið í gegnum tíðina mikill talsmaður hafta og verðlagshafta og verðlagseftirlits og hefur það m.a. komið skýrt fram í ýmsum upphrópunum og ræðum margra þingmanna og ráðherra Alþfl. En ég verð líka að segja að það var skemmtilegt að heyra hæstv. viðskrh. áðan reyna að gefa það í skyn og reyna að færa rök fyrir því að hann væri í raun og veru jafnmikill frjálshyggjumaður og við sjálfstæðismenn. Mér þótti líka vænt um að heyra það sem hann sagði, að sá árangur sem náðst hefði í stjórn peningamála væri allur í anda þeirrar yfirlýsingar sem formaður Sjálfstfl. hefði gefið og mátti vel heyra á viðskrh. að hann taldi að þá mundi þjóðinni fremur geðjast að þeim boðskap sem hann flytur nú hér á Alþingi ef honum tækist með einhverjum hætti að tengja boðskapinn því sem sjálfstæðismenn hafa haldið fram og sjálfstæðismenn hafa sagt á liðnum árum.
    Það er líka merkilegt að heyra hæstv. viðskrh. vera að gefa í skyn, ekki einu sinni í ræðunni heldur margsinnis, að sú stefna sem ríkisstjórnin er nú að beita sér fyrir sé í öllum aðalatriðum sú sama og sjálfstæðismenn vildu gera í september sem þó olli því að þessi hæstv. ráðherra beitti sér fyrir því ásamt með nafna sínum Jóni Baldvin og Steingrími Hermannssyni að rjúfa stjórnarsamstarfið við Sjálfstfl. vegna þess að hann taldi að Sjálfstfl. væri á þvílíkum nótum að ekki væri sæmandi þeim alþýðuflokksmönnum að vinna áfram með okkur og töluðu raunar um rýtingsstungu í því sambandi. Mig minnir að hæstv. forsrh. hafi meira að segja sagt í sjónvarpinu ,,og sárið er djúpt, ég verð að segja það`` þannig að menn litu nú svona ýmsum augum á silfrið á þeim tíma, en hitt var auðvitað líka rétt hjá hæstv. viðskrh. að við sjálfstæðismenn höfðum miklar áhyggjur af vaxtaþróun hér á landi allan þann tíma sem Jón Sigurðsson var viðskrh. í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar.
    Það er auðvitað ekki leyndarmál og auðvitað stóðum við eins og aðrir stjórnarflokkar þá að þeirri

samþykkt að ef nauðsyn krefði og ef raunvextir ekki lækkuðu yrði óhjákvæmilegt að Seðlabankinn gripi inn í. Ég vek athygli á því sérstaklega að í ræðu sinni áðan staðfesti hæstv. viðskrh. að í þeim frumvörpum sem nú er verið að leggja fram eru engar nýjar heimildir til handa Seðlabankanum til að grípa inn í vaxtaþróun. Ég vil líka minna á þau ummæli hæstv. ráðherra sem hann viðhafði í sinni fyrri ræðu um að orðið ,,hóflegur`` væri til þess að skerpa lagagreinina um eftirlit Seðlabanka með vaxtamun og raunvöxtum. Í sinni síðari ræðu afsakaði hann orðið með því að í lagagreininni væri annað orð sem líka væri huglægt og erfitt að henda reiður á, nefnilega ,,óhæfilegur vaxtamunur``. Ég get alveg unnt hæstv. viðskrh. þess. Ef hann vill hrúga saman svona orðum í þennan lagatexta, þá er mín vegna allt í lagi þó að þarna standi sanngjarn, hóflegur og ýmislegt af því tagi. Kannski enn þá betra að segja sanngjarn og hóflegur vaxtamunur. (Gripið fram í.) Jafnvel mín vegna mætti það standa. Það er auðvitað merkingarlaust. Það er að sjálfsögðu alveg merkingarlaust eins og orðið ,,hóflegur`` í þessu samhengi. Einnig þótti mér undarlegt þegar hæstv. ráðherra var að reyna að gera því skóna að Seðlabankinn hefði ekki talið sig hafa lagaheimildir til að taka tillit til annarra tekna innlánsstofnana en vaxtatekna í sambandi við eftirlit sitt með því að ekki sé óhæfilegur vaxtamunur hér á landi. Mér fannst ræða ráðherrans líka varðandi það atriði slöpp.
    Auðvitað vitum við að bankarnir hafa tekjur af mörgu öðru en vaxtamun og við vitum líka að á undanförnum árum hefur það oft komið fyrir að ríkisstjórnir hafa haft afskipti eða beitt þrýstingi við bankana til að fá þá til að halda niðri margvíslegum greiðslum fyrir þá þjónustu sem bankarnir veita vegna þeirra áhrifa sem slíkt hefur á vísitöluna þannig að hluti af þeim mikla vaxtamun sem er hér á landi er beinlínis vegna óheppilegra pólitískra afskipta einstakra ráðherra af bankaráðum og bankastjórnum, einkum ríkisbanka. Það er auðvitað líka alveg rétt, sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. hér áðan og óbeinlínis eða beinlínis, ég man það ekki glögglega, hjá hæstv. viðskrh., að þeir vilja hafa miklu sterkari pólitísk tök á viðskiptabönkunum en áður. M.ö.o.: bein pólitísk afskipti ráðherra af bönkum eru að verða að hálfgerðum
kæk og krystallaðist raunar í því þegar ríkisstjórnin kallaði sína menn í bankaráðum viðskiptabankanna til sín upp í Stjórnarráð til að segja þeim hvað þeir mættu samþykkja og hvað þeir mættu ekki samþykkja. Nú er hugmyndin hjá ríkisstjórninni eins og frv. liggur fyrir um viðskiptabankana nú að auka valdsvið bankaráðanna til þess að þeir geti betur haldið í spottann vegna þess að það hefur komið í ljós að fulltrúar stjórnarflokkanna í bankaráðum ríkisbankanna dansa alveg eins og þeim er sagt, minna í rauninni á sprellikarla eins og þeir voru í gamla daga. Svo var kippt í spottann og þá kipptust upp hendur og fætur. ( SkA: Eins og með Kidda Finnboga.) Kiddi Finnboga er nú ekki bestur af þeim. --- Hæstv. forseti. Ég biðst

afsökunar að hafa ekki nefnt þennan einstakling fullu nafni sem byggist á því að það var gripið fram í fyrir mér og ég endurtók það sem viðkomandi þingmaður sagði. (Gripið fram í.) Það liggur alveg ljóst fyrir að lagaheimildir til handa Seðlabankanum til að hafa áhrif á hverjir raunvextir séu í landinu eru hinar sömu og áður og í rauninni ekkert sem breytist við þetta frv. í þeim efnum.
    Hitt var svo pínulítið eftirtektarvert að viðskrh. hélt sig við það að hann hefði fundið peningalindina, (Gripið fram í.) vatnsleysuna, peningavatnsleysuna í nýja seðlabankahúsinu. Það skiptir ekki máli þótt viðskiptabankarnir séu látnir greiða sektir til Seðlabankans. Ef þeir eru að reyna að fjármagna útflutningsatvinnuvegina, sjávarútveginn sérstaklega, og ef lausafjárstaða þeirra af þeim sökum er ekki nógu góð ber þeim að greiða sérstakar sektir til Seðlabankans. Nú ætlar ríkissjóður að klippa af skottinu pínulítið, taka til sín svolítið af þessum sektum. Auðvitað er það afsakað með fögrum orðum, afsakað með því að þetta sé mikil réttarbót og sanngirni og það sé verið að draga úr tortryggni í garð Seðlabankans og allt svoleiðis, en auðvitað kemur þetta ekki við neinn. Auðvitað kemur það ekki við neinn þótt þannig séu teknir peningar af útflutningsatvinnuvegunum í gegnum Seðlabankann. Ef fyrir hæstv. ríkisstjórn vekti að íþyngja hvorki atvinnuvegum né bankakerfi í heild með þessum sektargreiðslum væri hægt að nota peningana til þess t.d. að lækka vextina fyrir sjávarútveginn. Ég hef áður sagt það í deildinni að mér finnist rétt til þess að gengisfellingin síðasta og raunar áður nýttist undir eins fyrir útflutningsatvinnuvegina að þau gengistöp sem eru vegna afurðalána falli á Seðlabankann. Ef það væri gert mundi það ekki íþyngja neinum, ekki útflutningsatvinnuvegunum, og þá mundi ríkissjóður ekki fitna af þeirri ósvinnu þegar t.d. Landsbankinn er að reyna að halda uppi atvinnustarfsemi úti á landi með því að lána sjávarútvegsfyrirtækjunum mikið fé.
    Ég heyrði áðan, og það var kannski kjarninn í því sem þeir sögðu, hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh., og höfuðafsökunin fyrir því að þeir hefðu flutt þau frumvörp sem hér er fjallað um og samþykkt þá yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. las að hér á landi væri fákeppnismarkaður í peningamálum, peningamarkaðurinn væri fákeppnismarkaður sem leiddi til þess að raunvextir hækkuðu smátt og smátt, það væri lögmál á slíkum peningamarkaði, og að ógerningur væri að ná raunvöxtum niður á nýjan leik öðruvísi en með handafli. Þetta var lýsing hæstv. fjmrh. á þeim peningamarkaði sem er hér á landi og ummæli hans féllu á þann veg að vegna fámennis okkar hlyti það jafnan að vera svo. Mér heyrðist raunar að hæstv. viðskrh. reyndi að taka undir þetta með öðru orðinu þó hann með hinu orðinu hafnaði þessari skilgreiningu fjmrh. þegar hann talaði um að það væri varanlegt úrræði í peningamálum að bæta eiginleikana á þessum lánamarkaði. Hann er m.ö.o. þeirrar skoðunar að eins og sakir standa nú sé óhjákvæmilegt að hlutast til á markaðnum,

samkeppnin sé ónóg nú, en á hinn bóginn sé hægt að bæta eiginleikana framvegis. Þar komum við þá inn á það og í því felst í rauninni svarið við því sem hæstv. fjmrh. sagði, að það er síður en svo lögmál hér á landi að við getum ekki verið með frjálsan fjármagnsmarkað og þó hóflega vexti. Auðvitað, ef þannig er að markaðnum búið, eðlilega er að markaðnum búið, þýðir það að raunvextir hér á landi eru hóflegir, svo að ég noti það orð, eða sambærilegir við það sem er í kringum okkur. Ég vil í þessu sambandi hins vegar leyfa mér að halda því fram að fákeppnismarkaður eins og hann er hér geti fremur stuðlað að óhæfilegum vaxtamun.
    En hvað er það sem hefur valdið þessari tilhneigingu hér á landi til þess að hækka vextina og hvað veldur tregðunni t.d. hjá bönkum og fjármagnsstofnunum til að lækka raunvexti? Skýringin er sú að við bjuggum í mörg ár við öfuga vexti. Skýringin er sú að áður en verðtryggingin kom til sögunnar brann spariféð upp og menn reyndu að geyma sparnaðinn, m.a. í steinsteypu, í málverkum, jafnvel í gömlum bókum, í ýmsu öðru en beinum peningum eða skuldabréfum. Það var meira að segja svo á þeim árum að fyrirtæki áttu í erfiðleikum með halda nægilegu rekstrarfé inni í sínum rekstri þar sem skattalögin voru þannig upp byggð að lausafé hlaut að étast upp á tiltölulega fáum árum jafnvel þótt fyrirtækin væru rekin með góðum árangri og skiluðu hagnaði ár eftir ár. Slík fyrirtæki gátu ekki bætt eiginfjárstöðu sína til langframa nema með því einu að fjárfesta. Þannig var að þessu búið á þeim tíma. Síðan var lánskjaravísitalan var tekin upp og ég vil alveg taka undir það með einstökum ráðherrum að það var síður en svo happaspor eins og það var
gert. En ástæðan fyrir því að lánskjaravísitalan var tekin upp var auðvitað sú verðbólga sem hér hafði ætt yfir og er raunar enn að æða yfir landið. Þessi vísitala olli því að menn fengu aftur meiri trú á því að græddur væri geymdur eyrir og lengi var það svo að menn gátu treyst því að lánskjaravísitalan, góð eða vond, mundi standast allt það óðagot sem hefur einkennt einkum vinstri stjórnir hér á landi. Það er rétt hjá hæstv. viðskrh. að í þeirri málamiðlunartillögu, sem hann vitnaði til að formaður Sjálfstfl. hefði lagt fram í septembermánuði sl., var gert ráð fyrir því að ný lánskjaravísitala yrði til þar sem laun yrðu tekin inn sem jafngild bæði byggingarvísitölu og verðlagsvísitölu. Ég vil á hinn bóginn minna hæstv. viðskrh. á að hann var á þeim tíma þeirrar skoðunar, eins og raunar við sjálfstæðismenn einnig, að vísitalan gæfi betri mynd af þróun verðlagsmála ef gengið yrði jafnframt tekið inn í vísitöluna, ekki einungis launin heldur einnig gengið, enda er ég þeirrar skoðunar að áætlun ríkisstjórnarinnar sé að breyta lánskjaravísitölunni á nýjan leik nú í vor þannig að gengið komi inn sem viðmiðun eftir að ríkisstjórnin hefur fellt gengið svo sem einu sinni eða tvisvar til viðbótar eins og hæstv. forsrh. hefur lýst yfir að sé óhjákvæmilegt.
    Ég hygg, og vil ítreka það sem ég sagði í fyrri

ræðu minni, að eins og frv. um stjórn efnahagsmála er orðað er óhjákvæmilegt að fastir vextir á verðtryggð bréf hljóta að leiða til hækkunar vaxta þar sem þar er gert ráð fyrir því að lánskjaravísitölunni verði hreyft á nýjan leik og ljóst er að hún er ekki sami grunnur og áður fyrir fjárskuldbindingum. Óvissan hlýtur að valda því að vextir fari hækkandi. Vextir fóru hækkandi hér á landi vegna þess að hér var haldið uppi of háu gengi. Þrýstingurinn á lánsfjármarkaðinn hér á landi er aðallega til kominn vegna hins gífurlega hallarekstrar sem er í útflutningsatvinnugreinunum og eina leiðin til að ná vöxtum niður er að búa fyrirtækjunum sómasamlegt rekstrarumhverfi.
    Ég vil svo að síðustu aðeins ítreka það sem ég sagði síðast þegar þetta mál var hér til umræðu. Auðvitað gefur auga leið að raunvextir hljóta að hækka við það ef ríkisábyrgð verður felld niður, t.d. af Landsbanka, Útvegsbanka, Fiskveiðasjóði, Iðnlánasjóði o.s.frv. Auðvitað hljótum við að búa við verri kjör ef ríkisábyrgðin verður felld niður. Þetta var síðast í morgun staðfest í fjh.- og viðskn. af fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Þetta er almennt viðurkennt með því að sérstakt gjald er lagt á ríkisbankana vegna þess að þeir njóta betri kjara en aðrir bankar. Við getum haldið því fram að það gefi meira aðhald á fjármagnsmarkaðinn, á fyrirtækin, ef ríkisábyrgðin er afnumin þannig að fyrirtækin taki síður lán en ella og reyni frekar að fjármagna sig með eigin fé ef lánsfé verður dýrara. Það má halda því fram. Ýmsir vilja meira að segja halda því fram að ríkisstjórnir freistist til þess að draga nauðsynlegar ráðstafanir í efnahagsmálum á langinn vegna þess hversu sterkir ríkisbankarnir eru í íslensku hagkerfi og er vafalaust að það er ein skýringin á því núna að ríksistjórnin lætur undir höfuð leggjast að gera nauðsynlegar ráðstafanir fyrir sjávarútveginn. En um leið og viðskrh. talar um að hann vilji leggja niður ríkisábyrgð og draga úr ríkisábyrgð á erlendum lánum ætti hann að hætta að hugsa um að þjóðnýta fyrirtækin aftur eins og hann ætlar að gera með hlutabréfasjóðnum sem talað er um og eins og hæstv. viðskrh. er að gera með því að skipuleggja hallarekstur fyrirtækjanna og með því að reyna að hafa stjórn og hemil á efnahagsmálunum með því annars vegar að framkalla atvinnuleysi og hins vegar með því að draga úr því að menn fái yfirborganir. Ég vil í þessu sambandi bara vitna til eins dæmis sem við vorum að fjalla um í dag. Við getum talað t.d. um Ólafsfjörð. Það fæst ekki eitt einasta svar frá þessum Atvinnutryggingarsjóði nema nei og ef talað er við þá stjórnarþingmenn og ráðherra sem koma úr Norðurlandskjördæmi eystra um það hvort þess sé að vænta að þeir Ólafsfirðingar geti aftur farið að starfrækja sín frystihús sem þeir eiga, sem þeir í rauninni eiga því að skuldir eru minni en eigið fé, og ef þessir menn eru spurðir, þingmennirnir í Norðurlandskjördæmi eystra sem spyrja stjórnina: Hvenær lagast rekstrargrundvöllurinn? þá er bara bent á hlutabréfasjóð sem einhvern tíma komi. Það er sagt

að þeir verði þá að þiggja slíka ölmusu en ekki neitt svar um hitt hvort þeir fái almennilegan rekstrargrundvöll.
    Auðvitað þýðir ekki neitt að vera að guma af einhverri skynsamlegri stefnu í sambandi við bankamálin, að menn vilji gera bankastarfsemi frjálsa og menn vilji laga íslenskt bankakerfi að bönkum í Vestur-Evrópu, á sama tíma og hæstv. ráðherra sér ekki um það t.d. að skattalögin séu í einhverju samræmi við það sem þar er og þau starfsskilyrði sem bankarnir vinna við séu sæmandi. Auðvitað er þetta allt saman ekkert annað en orðaleppar.
    Við beittum okkur fyrir því á síðasta þingi að laga skattalögin. Þau voru afvegaleidd á nýjan leik nú eins og ég hef áður rakið þannig að aldrei verður talið fram eftir þeirri skattalagabreytingu sem við komum í gegn á sl. vetri og við slík skilyrði er víðs fjarri að þess sé að vænta að sá stöðugleiki skapist í efnahagslífi sem nauðsynlegur er fyrir lága vexti.