Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður, en vegna ummæla hv. þm. Halldórs Blöndals um að ríkisbankarnir væru sterkir vaknar sú spurning í mínum huga: Hversu sterkir eru raunverulega ríkisbankarnir? Hvað vitum við hv. þm. um það hver er staða ríkisbankanna í dag? ( Fjmrh.: Spurðu Halldór Blöndal. Hann er í bankaráði Búnaðarbankans.) Já, hæstv. fjmrh. Það er nú þannig að einstakir bankaráðsmenn eru ekki eins og starfandi bankastjórar. Þeir fylgjast ekki með rekstri bankanna frá degi til dags. Þeir hafa auðvitað sínar skyldur, en það sem ég var að segja núna er að það stendur kannski hæstv. ríkisstjórn nær að hugleiða hversu sterkir ríkisbankarnir eru raunverulega miðað við þær skyldur og kvaðir sem þeir hafa og miðað við stöðu þeirra fyrirtækja sem eru helstu viðskiptavinir þessara banka.
    Hæstv. bankamálaráðherra talaði um það áðan að sá sem hér stendur væri bankaráðsmaður í litlum banka. Hæstv. ráðherra hafði orð á því að það ætti að leggja niður þessa litlu banka, þeir ættu ekki rétt á sér. En ég hugsa, hæstv. ráðherra, að það sé betra að hafa lítið fyrirtæki og lítinn banka sem stendur fyrir sínu en reka stórfyrirtæki sem hugsanlega stæði á brauðfótum. Menn skyldu ekki lítilsvirða það sem lítið er og ættu hv. þm. Alþfl. síst að gera það. Hér var einu sinni á þingi hv. þm. Vilmundur Gylfason. Hann hafði mikið á lofti kennisetningar austurrísks hagfræðings, sem að vísu flýði til Bretlands á sínum tíma, Erichs Schumachers. (Gripið fram í.) Hann talaði um það að smátt eða lítið væri fallegt, ,,small is beautiful``. Ég held að fáir ráðamenn vilji lítilsvirða þau sjónarmið og síst skyldum við Íslendingar gera það, alla vega ekki í samfélagi þjóðanna þar sem við erum lítil þjóð. Við skulum ganga hægt um þær dyr að tala um að það sem er lítið sé ekki nægilega gott. --- Ég sé að hæstv. fjmrh. tekur undir þetta með því að nikka lítillega.
    Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir svör þeirra við fyrirspurnum mínum og því sem kom fram í minni ræðu og ég beindi til þeirra, en ég verð þó að segja það eftir ræðu hæstv. fjmrh. og formanns Alþb. að mér fannst hæstv. ráðherra víkja sér undan því að svara því beint að um afstöðubreytingu væri að ræða af hálfu Alþb. hvað varðar erlent fjármagn og þátttöku erlendra fyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Í þessu tilviki vorum við að tala um bankastarfsemi. Það getur beðið síns tíma og 2. umr. að ræða það nánar við hæstv. ráðherra.
    En hæstv. ráðherra Ólafur Ragnar Grímsson vildi meina að það væri ekki samræmi í málflutningi okkar sjálfstæðismanna, þ.e. að formaður flokksins, hv. þm. Þorsteinn Pálsson, hefði aðrar skoðanir en hv. þm. Halldór Blöndal og ég. (Gripið fram í.) Já, það er alveg rétt hv. þm. Egill Jónsson. Þetta er mikill misskilningur. Við erum að tala um afmarkað og tiltekið mál sem eru fjármál og peningamál sem eru í pakka ríkisstjórnarinnar um efnahagsaðgerðir. Það sem er aðalatriðið og það sem formaður flokksins átti

við er auðvitað að efnahagsaðgerðirnar í heild eru gagnslausar, gagnslitlar, ef ekki til hins verra. Það er það sem formaður Sjálfstfl. átti við. Við erum að tala um tiltekið þrengra svið sem eru fjármálin. Það stendur eftir sem áður óhaggað, og er samræmd skoðun okkar sjálfstæðismanna, að efnahagsaðgerðir þessarar ríkisstjórnar, alla vega gagnvart grundvallaratvinnuvegum þjóðarinnar, sjávarútvegi og fiskiðnaði, duga ekki.
    Ég var á fundi eins og hv. þm. Halldór Blöndal sl. föstudag þar sem voru saman komnir forráðamenn íslensks sjávarútvegs og fiskiðnaðar. Þar voru einnig staddir hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson, hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson og hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson. Ég held að ég sé ekki að gera mönnum upp orð eða hugsanir þegar ég segi að það hafi verið afskaplega dapurt bæði að hlusta á ræður manna og gera sér grein fyrir því hve staða sjávarútvegs og fiskiðnaðar er erfið og vond þessa dagana. Þrátt fyrir þær tillögur um efnahagsaðgerðir sem eru í þessu frv. hjálpar það því miður ekki upp á stöðu þessara atvinnugreina. (Gripið fram í.) Það er það sem við erum að tala um í dag að efnahagsaðgerðir núv. ríkisstjórnar mæta þessu ekki. Fyrri tíð skulum við ekki fara út í, hv. þm. Karvel Pálmason. Því var lofað þegar þessi stjórn var mynduð sl. haust að gripið yrði til ráðstafana sem dygðu. Það hefur því miður ekki verið gert og ég veit að hv. þm. er sammála mér í því efni. Alla vega hefur hann látið þau orð falla, kannski ekki hér í þingsal en við önnur tækifæri.
    Það sem mér fannst athyglisvert var það sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar sérstaklega. Það er að sjálfsögðu þetta með þessa grundvallarafstöðubreytingu Alþb. til erlends fjármagns. Það er vissulega sögulegt atriði, eins og kom fram í ræðu hæstv. viðskrh., að það hefur orðið í vissum skilningi söguleg sátt í þessu. En sú sögulega sátt er afskaplega stefnumarkandi og mun hafa mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir stöðu Íslendinga sjálfra sem eignarhaldsaðila að íslenskum atvinnurekstri og íslenskum fyrirtækjum.
    En það var annað atriði sem mér fannst athyglisvert í ræðu hæstv. fjmrh. þegar hann var að ræða um stefnumótun og hvernig stefnumótun yrði til. Hann sagði: Stefnumótun getur myndast vegna tilfinningalegra atriða, sem er
auðvitað rétt og sem betur fer, segi ég. Sem betur fer er maðurinn tilfinningaskepna. En það sem mér fannst athyglisverðast var hvað hann lagði mikla áherslu á að raunverulega ætti það að víkja sem snýr að tilfinningunum. Það væri hinn harði raunveruleiki sem ætti að sitja í fyrirrúmi. Og hver var hinn harði raunveruleiki hjá hæstv. fjmrh.? Hann var sá í augum alþýðubandalagsmannsins að nú væri sá tími kominn að Alþb. yrði að horfast í augu við þann harða raunveruleika að Íslendingar yrðu að blanda blóði við erlent fjármagn í Vestur-Evrópu. ( EgJ: Frjálshyggja.) Þetta var vel svarað hjá hv. þm. Agli Jónssyni. Ég skal láta þá athugasemd standa.

    En svo er það umræðan um að íslenskur peningamarkaður sé ekki frjáls samkeppnismarkaður. Það er afskaplega fróðlegt fyrir okkur sjálfstæðismenn að hlusta á hvernig vinstri menn ætla að hjálpa upp á sakirnar til að skapa grundvöll fyrir frjálsa samkeppni. Ef það gerist ekki með innlendum aðilum skulum við bara fá erlenda aðila, erlenda banka, erlend fyrirtæki til að framkalla æskilega samkeppni. Þetta er alveg ný kenning fyrir mér úr herbúðum alþýðubandalagsmanna. En látum það standa og tökum þá hvernig þeir tala um þetta, þessir hv. þm. Þeir flokka samkeppni eða réttara sagt möguleika á markaðnum þannig: Það er verið að tala annaðhvort um einokun, fámennissamkeppni eða frjálsa samkeppni. Okkur sjálfstæðismönnum er fundið allt til foráttu fyrir að við viljum það sem við köllum frjálsa samkeppni, en okkur hefur samt ekki dottið í hug að það lægi svo mikið á að við þyrftum að fá erlenda aðila til að taka þátt í því með okkur. En það sem mér finnst athyglisverðast og sameina þessa hæstv. ráherra tvo, viðskrh. og fjmrh., er afstaða þeirra til ... ( Fjmrh.: Fákeppnismarkaðar.) Fákeppnismarkaðar, já. Þetta er nýyrði. (Gripið fram í.) Jú. Ég veit alveg hvað það er. Ég mundi nota annað orð yfir það. En hæstv. fjmrh. notar þetta nú í tíma og ótíma, fákeppnismarkaður. Og það er af hinu vonda að það skuli nokkrir íslenskir aðilar vera á þessum markaði. En á sama tíma sem þeir kvarta undan því að það sé ekki samkeppni, það sé fákeppnismarkaður, vilja þeir leggja niður fyrirtækin og fækka þeim, hafa helst tvo ríkisbanka og einn einkabanka en að vísu að viðbættum erlenda bankanum. Það er nú kórónan á sköpunarverki þessara vinstri flokka. Ég skil ekki almennilega hvað þessir menn eiga við nema að það sé grundvallaratriði og lífsspursmál fyrir þá að fá hér erlenda aðila inn í íslenskt bankakerfi og íslenskan peningamarkað.
    Við sjálfstæðismenn höfum haft ákveðna stefnu í þessu sem hefur verið sú að vera afskaplega varkárir í því að taka erlend fjármálafyrirtæki inn í íslenskt atvinnulíf. Við höfum hins vegar ekki hafnað þeirri hugmynd að það komi til skoðunar og athugunar, en að vel athuguðu máli og þá þurfa allar forsendur að vera fyrir hendi sem gera að verkum að innlendir aðilar geti staðist þá samkeppni sem í því felst þegar erlendir aðilar koma til skjalanna. Það er okkar grundvallarkrafa.
    Ég vil þá víkja að því enn einu sinni að það er fleira en bankarnir eða þeir sem þar starfa sem við er að sakast um hvernig komið er í sambandi við vaxtamálin. Fjárþörf hins opinbera hefur mjög alvarleg og mikil samkeppnisáhrif á hinum íslenska peningamarkaði sem er lítill. Samkeppnin um peningana í húsnæðismálin er geysilega hörð. Hún er svo hörð að íslenskir lífeyrissjóðir fá ekki að koma inn á þennan svokallaða frjálsa markað sem þið ætlið að mynda, ágætu herrar, með sama hætti og lífeyrissjóðir annarra landa gera það. En hæstv. viðskrh. tók undir það sjónarmið og var því meðmæltur að það yrði reynt að þróa það þannig sem

er auðvitað hárrétt. Þessir aðilar koma inn á þennan markað, en á sama tíma verður að tryggja að húsnæðislánakerfið bíði ekki hnekk af og það er hægt að gera með ýmsum leiðum. Síðan eru það skattalög og fleira sem kom inn í.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta, virðulegi forseti, ég þakka fyrir að ég skyldi hafa tækifæri til að ræða þennan þátt, efnahagsaðgerðir sem lúta að fjármagni og Seðlabankanum, jafnítarlega og gert hefur verið hér, en ég undirstrika það enn einu sinni að því miður eru efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í heild ekki þeirrar gerðar að þar sé að vænta mikils batnaðar eða bótar. Þess er ekki að vænta að mikið batni í íslensku atvinnulífi. Því miður.