Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Bara örfá orð við lok þessarar umræðu. Ég tek undir það með hv. 14. þm. Reykv. að við ræðum hér afmarkað málasvið, en að vísu mjög mikilvægt. En hv. 2. þm. Norðurl. e. vék nokkuð af þessu sviði og reyndar með aðdróttunum að þeim sem hér stendur um að hann stefndi að því að koma undirstöðuatvinnuvegunum á vonarvöl og þjóðnýtingu undirstöðufyrirtækja ,,aftan frá`` eins og hann orðaði það svo smekklega og nefndi meint dæmi frá Ólafsfirði. Ég mótmæli þessu harðlega sem fjarstæðukenndu tali. Það er að vísu rétt --- af því að hér var nefndur hlutafjársjóðurinn --- að það gengur nokkuð erfiðlega að koma því máli heim og saman. En það var inn tekið og fram flutt af Kvennalistanum og forustu Sjálfstfl. Þess er skemmst að minnast að hérna fyrir áramótin flutti formaður Sjálfstfl. um það fjálglegar ræður, að sjálfstæðismenn hefðu að vísu verið sjálfir með sínar tillögur um hvernig styrkja mætti eiginfjárstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi og öðrum útflutningsgreinum. Kvennalistinn hefði hins vegar flutt þessa tillögu sem væri bara svo mikið snjallari, þess vegna gerðu þeir hana að sinni. Það er sú tillaga um hlutafjársjóð sem við nú ræðum hvernig eigi að láta ganga upp, og það er vonandi að það takist. En að kalla það þjóðnýtingartæki til þess að taka undirstöðugreinarnar inn til ríkisins er fjarstæða tóm og ég vísa því til föðurhúsanna í orðsins fyllstu merkingu. Undir slíkum orðaleppum ætla ég ekki að sitja.
    Ég vil líka beina því frá sem fjarstæðukenndu tali að þessi stjórn vinni ekki að því að koma á tryggum rekstrargrundvelli fyrir fiskvinnslu og sjávarútveg. Það er hennar höfuðviðfangsefni, að því vinnur hún af fullri ábyrgð en ekki með kollsteypuaðferðum. (Gripið fram í.) Það gengur nokkuð vel. Ég ætla að ég sé þeim málaflokki a.m.k. jafn vel kunnugur og hv. 2. þm. Norðurl. e., bæði í raun og af löngum störfum við þá grein á vegum opinberra aðila. Þess vegna tel ég þetta fjarstæðutal og vísa því á bug.
    Út af því sem kom fram hjá hv. 14. þm. Reykv., að ég hefði talað um að hann væri bankaráðsmaður í litlum banka. Ég minnist þess alls ekki að ég hafi nefnt það mál með því lýsingarorði, enda fjarstæða að halda því fram að stofnanir sem ekki eru stórar að vöxtum geti ekki verið jafngóðar hinum. Það verður ekki allt mælt á mælikvarða vaxtanna, hvorki þjóðir né fyrirtæki og hafi mátt skilja orð mín svo leiðrétti ég það hér með. Það var alls ekki ætlun mín. En hitt er sannarlega rétt hjá hv. 14. þm. Reykv. að það er þörf fyrir skipulagsumbætur í íslenska bankakerfinu og ég veit að að því máli vill hann vinna eins og sá sem hér talar.