Ríkisreikningur 1979
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Árni Gunnarsson):
    Herra forseti. Ekki undrar mig sú umræða sem hér hefur farið fram um ríkisreikning fyrir árið 1979. Það er fullkomlega eðlilegt að hv. þm. geri athugasemdir við það að hér skuli fara fram afgreiðsla á ríkisreikningi 10 ára gömlum. Fjh.- og viðskn. átti hins vegar engan annan kost en þann að leggja til að frv. yrði samþykkt, enda ekki fyrir hendi nein ráð hjá fjh.- og viðskn. til þess að reyna að koma á betri vinnubrögðum hjá framkvæmdarvaldinu.
    Ég vil vegna þessarar umræðu, herra forseti, vekja athygli á því að á borðum þingmanna liggja núna ríkisreikningar fyrir árin 1987 og 1986, fylgirit, og eftir að hafa gluggað í þessi fylgirit, þá þykir mér sýnt að Alþingi hafi fulla ástæðu til þess að líta á ýmsar tölur sem þar birtast um launakostnað hjá ríkisstofnunum í hinum ýmsu ráðuneytum og yfirvinnu sem hlutfall af launakostnaði. Í ljós kemur að í einstaka ráðuneytum fer yfirvinnukostnaður upp í allt að 30--40% heildarlaunakostnaðar. Og hafi ekki verið tilefni fyrir Alþingi Íslendinga að ræða um launakostnað hjá opinberum stofnunum, þá er það tækifæri komið nú.
    Í yfirlitinu, fylgiritinu fyrir árið 1987, er einnig reikningshald og yfirlit yfir bifreiðakostnað og risnukostnað hins opinbera árið 1987 og ef menn líta á tölur sem þar birtast, þá eru þær líka ærið tilefni til umræðna hér á hinu háa Alþingi. Það kemur nefnilega í ljós að bifreiða- og risnukostnaður ráðuneytanna hleypur á tugum milljóna króna. Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að nefna t.d. samgrn. með 94,6 millj. kr. í bifreiða- og risnukostnað, menntmrn. með 54,8 millj. kr. og utanrrn. með 41 millj. kr. Þetta er nota bene árið 1987, þegar krónan var öllu dýrmætari en hún er núna. Heilbr.- og trmrn. er með 55,4 millj. kr. í þennan kostnaðarlið. Ég hefði álitið að áður en ríkisreikningur með slíkum tölum færi í gegn fengi hann umtalsverða umræðu og menn lærðu af því sem hér hefur verið að gerast, m.a. með tilliti til næstu fjárlagagerðar og eftirlits með þessum þáttum í ríkisrekstrinum sem er yfirvinnukostnaður í heildarlaunakostnaði og bifreiðakostnaður og risnukostnaður.
    Ég vildi eingöngu vekja athygli á þessu, herra forseti, ef það mætti verða til þess að ríkisreikningar kæmu hv. þm. ekki mjög á óvart eins og þessi hefur gert. Og ég vek líka athygli á því að hér fer fram 2. umr. um þennan ríkisreikning 1979.