Breytingar á dagskrá
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Mér finnst það ekki koma til greina að taka hér inn með þeim hætti sem gert hefur verið sjötta málið sem hér er á nýprentaðri dagskrá. Það kemur auðvitað öllum á óvart sem hafa undirbúið sig fyrir þennan fund. Það er ljóst að þetta mál hefur verið sett inn sjálfsagt vegna þess að það kemur sjöunda málinu við. Þessi mál tengjast að verulegu leyti. Ef hv. stjórnarþingmenn, sem eru fyrstu flm. þessara tveggja frv., geta ekki komið sér saman um að fresta umræðu um málið af því það er nauðsynlegt að tala um bæði málin á sama fundi --- og m.a.s. hefur virðulegur forseti upplýst að það sé einungis ætlunin að flytja framsöguræður í málunum --- þá fæ ég ekki orða bundist og óska eftir því að umræðum verði frestað, þó það verði ekki nema bara í örfáa daga, ellegar ef það er ekki hægt að þá verði a.m.k. farið að þeirri dagskrá sem þingmenn töldu sig geta treyst og lá fyrir þegar til þessa fundar var upphaflega boðað.
    Þetta getur, ef ræða á um sjötta dagskrármálið á þessum fundi, orðið til þess að þingmenn geta ekki treyst dagskrá sem þeir fá í hendur og geta þar af leiðandi ekki undirbúið sig fyrir þingfundi eins og þeim ber að gera. Séu hins vegar, virðulegur forseti, einhverjar sérstakar skýringar á því hvers vegna þetta mál er sett á dagskrá og nauðsynlegt er að rjúfa dagskrána með þeim hætti sem stillt er upp, en fyrstu fimm málin eru stjórnarfrv., þá tel ég, virðulegur forseti, að alþingismenn eigi heimtingu á að fá haldbærar skýringar á því. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. síðustu ræðumönnum um þessi mál.