Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Árni Gunnarsson):
    Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur leyft sér að flytja frhnál., sem að vísu er nokkuð óvenjulegt en á sér fordæmi í þingsögunni og þau nokkur, um efnahagsaðgerðir. Ástæðan fyrir því að þetta frhnál. er flutt er sú að á síðustu stigum komu fram brtt. frá hæstv. forsrh. við frv. og segir hér í nál. frá meiri hl. fjh.- og viðskn.:
    ,,Eftir afgreiðslu frv. við 2. umr. hefur nefndin komið saman á ný til að ræða brtt. forsrh. sem birtar eru á þskj. 449. Nefndin kallaði á sinn fund til viðræðna um brtt. eftirtalda menn: Kristínu Sigurðardóttur frá Kaupþingi hf., Svavar Ármannsson, aðstoðarforstjóra Fiskveiðasjóðs, Leif Kr. Jóhannesson, forstöðumann Stofnlánadeildar landbúnaðarins, Gísla Benediktsson, forstöðumann rekstrarsviðs Iðnlánasjóðs, og Benedikt Davíðsson, formann stjórnar Sambands almennra lífeyrissjóða.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að brtt. á þskj. 449 verði samþykktar óbreyttar.
    Auður Eiríksdóttir, þingmaður Samtaka jafnréttis og félagshyggju, sat seinni fund nefndarinnar um málið.``
    Undir þetta nál. rita nöfn sín: Árni Gunnarsson, Jón Kristjánsson, Sigríður Hjartar og Ragnar Arnalds.
    Herra forseti. Ég tel nauðsyn á því að nokkur grein sé gerð fyrir þeim brtt. sem hér eru fluttar og eru í fimm liðum.
    Í 1. brtt. er gert ráð fyrir að við bætist setningin: ,,að kaupa hlutdeildarskírteini hjá hlutafjársjóði Byggðastofnunar``. Þetta er viðbót við frv. eins og það liggur fyrir eftir 2. umr. í Nd., en hún fór fram 21. des. sl.
    2. brtt. varðar 6. gr. frv. þar sem er geypilega mikilvægt atriði sem forstöðumenn lífeyrissjóða gerðu athugasemd við þegar stofnað var til Atvinnutryggingarsjóðs. Þeir töldu ekki vera nægar tryggingar fyrir því að ríkissjóður ábyrgðist greiðslur Atvinnutryggingarsjóðs, vildu fá hreinni málalok og klárari, og hér hefur komið inn í setning sem hljóðar svo:
    ,,Í stað lokamálsl. 6. gr. komi nýr málsliður svohljóðandi: Ríkissjóður ábyrgist skuldbindingar Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina og greiðir þær ef eignir og tekjur hans hrökkva ekki til.``
    Þetta atriði með þessum breytingum hefur m.a. verið borið undir Benedikt Davíðsson, formann stjórnar Sambands almennra lífeyrissjóða, og hann sagði að lífeyrissjóðirnir felldu sig alfarið við þá breytingu sem hér hefur komið fram og teldu breytinguna fela í sér nægjanlega tryggingu til þess að lífeyrissjóðirnir gætu átt viðskipti við Atvinnutryggingarsjóð.
    3. brtt. er við 8. gr. þar sem kveðið er nánar á um undanþágur á greiðslum gjalda sem Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina og hlutafjársjóður Byggðastofnunar skulu undanþegnir.
    Þá er 4. brtt. við 9. gr. þar sem bætt er við nýrri setningu sem hljóðar svo: ,,Til sjóðsins skal einnig renna sérstaklega framlag ríkissjóðs ef Alþingi ákveður

svo. Annars vegar til reksturs sjóðsins og hins vegar til kaupa á hlutabréfum.``
    Þá er gert ráð fyrir því í 5. brtt., sem fjallar um 10. gr., að síðasta setningin í 10. gr., sem hljóðar svo: ,,Hlutafjársjóðurinn skal gefa reglulega út gengi á hlutdeildarskírteinum``, falli brott.
    Þetta eru þær fimm brtt. sem nefndin leyfir sér að flytja og eru upprunnar frá forsrh. og meiri hl. nefndarinnar flytur.