Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kristín Halldórsdóttir):
    Herra forseti. Fulltrúar Kvennalistans, Borgfl. og Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. skiluðu sameiginlega nál. við það frv. sem hér er til umræðu þegar það var afgreitt frá nefndinni í desember sl. Það var reyndar afar stuttaralegt álit, enda buðu aðstæður ekki upp á annað þar sem meiri hlutinn skellti fram viðamiklum brtt. á síðustu stundu sem enginn tími gafst til að athuga. Það var þó augljóslega verið að reyna að koma til móts við sjónarmið stjórnarandstöðunnar eða kannski öllu heldur að nýta sér hugmyndir hennar og tillögur þótt hún sé reyndar í sífellu sökuð um að hafa ekki annað fram að færa en gagnrýni og skammir.
    Nú hefur okkur gefist tími til að átta okkur á því hvernig meiri hlutinn hyggst nýta sér tillögur okkar. Þar sem meginbreytingin á frv. felst í ákvæðum um svonefndan hlutafjársjóð Byggðastofnunar, þá hef ég lagt fram frhnál. 1. minni hl. ásamt hv. 1. þm. Reykv. Friðriki Sophussyhni sem sótti fund nefndarinnar, þar sem um þetta mál var fjallað, í forföllum fulltrúa Sjálfstfl., Matthíasar Bjarnasonar. Fulltrúi Borgfl., hv. 5. þm. Vesturl., skrifar ekki undir þetta nál. með okkur eins og hið fyrra af þeirri einföldu ástæðu að þeir borgaraflokksmenn voru ekki meðflm. að tillögunni um hlutafjársjóðinn á sínum tíma.
    Nál. er á þskj. 472 og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Við lausn þess vanda, sem við er að fást í atvinnulífinu, er hvað mikilvægast að gera fyrirtækjum kleift að bæta rekstrarstöðu sína með aukningu eigin fjár. Lán á lán ofan leysa engan vanda til frambúðar. Því lögðu fulltrúar Kvennalista og Sjálfstfl. fram brtt. við þetta frv. sem gerði ráð fyrir stofnun hlutafjársjóðs við Byggðastofnun sem kaupa skyldi hlutabréf í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, sbr. þskj. 209 og 298. Með því skyldi opnuð leið fyrir þá sem vildu efla eigið fé fyrirtækja með hlutafjárkaupum, án þess þó að taka mikla áhættu. Forsenda þess að sjóðurinn næði tilgangi sínum var að hann yrði rekinn á faglegum grunni, en ekki eftir pólitískum geðþótta.
    Nú hefur meiri hlutinn gert þessa tillögu að sinni, en gjörbreytt formi hennar og tilgangi svo að alls ekki er um sömu tillögu að ræða þótt ráðamenn hafi ítrekað látið liggja að því. Af brtt. forsrh. á þskj. 449 og yfirlýsingum í umræðum á Alþingi er bersýnilegt að sjóðnum er ætlað að taka við þeim fyrirtækjum sem Atvinnutryggingarsjóður hefur úrskurðað óhæf til lánafyrirgreiðslu vegna vonlausra rekstrarskilyrða. Það er fjarri hinni upprunalegu hugmynd. Nauðsynlegt er að taka á vanda verst stöddu fyrirtækjanna með viðeigandi ráðstöfunum, en 1. minni hluti harmar að ríkisstjórnin skuli ætla að misnota hugmyndina um hlutafjársjóðinn í því skyni.
    Í öðru lagi vekur athygli að ríkisstjórnin hefur viðurkennt sjónarmið forsvarsmanna lífeyrissjóðanna og látið undan kröfum þeirra um ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs, sbr. 2. lið brtt. forsrh. á þskj. 449.``

    Undir þetta frhnál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. rita Kristín Halldórsdóttir og Friðrik Sophusson.
    Herra forseti. Er ekki hægt að kalla a.m.k. eins og einn ráðherra hér í salinn? Og þá óska ég nú sérstaklega eftir forsrh. sem hefur lagt fram brtt. við þetta þingmál og hlýtur að hafa áhuga á að hlýða á umræðu um þetta mál og svara spurningum. ( Forseti: Það mun vera vandalaust að fá forsrh. í salinn og verður eftir því leitað. Hann mun vera hér á næsta leiti.) Ég mun þá halda ræðu minni áfram því að ég vildi bæta ögn við þetta.
    Ég hef nú lesið þetta nál. sem undirritað er af mér og hv. þm. Friðriki Sophussyni og ég vænti að hæstv. forsrh. hafi kynnt sér. Umræður um þessar fyrstu efnahagsráðstafanir núv. ríkisstjórnar hafa nú staðið með litlum hléum allar götur síðan þær voru fram lagðar í bráðabirgðalögum á fyrsta degi stjórnarferilsins og enn erum við sem sagt við þá iðju. Það er þó ekki hægt að kvarta undan algeru tilbreytingaleysi þar sem ýmsar breytingar hafa orðið á sköpunarverkinu í daganna rás og eru nú enn að gerast.
    Ekki veit ég hvort þess eru dæmi að bráðabirgðalög hafi tekið ámóta breytingum í meðförum þings og þessi hafa mátt sæta, en ég tel það harla ólíklegt. Þessar miklu breytingar bera þess órækan vott hversu lítt var til vandað í upphafi, svo og hins að ríkisstjórnin hefur ekki þann stuðning sem þarf til þess að koma málum í gegnum þingið af eigin ramleik og hefur því verið að reyna að teygja sig í áttina til stjórnarandstöðunnar. Heldur hafa þær aðfarir við klaufalegar og oft eins og hæstv. ráðherrar átti sig ekki á stöðu stjórnarinnar. En henni hefur reyndar lagst ýmislegt til eins og kunnugt er og sjálfstraustið virðist óbilandi þótt bössulega gangi að koma sér saman um langtímaaðgerðir eins og við höfum orðið vitni að síðustu daga. En það eru fyrstadagsverkin sem hér eru á dagskrá.
    Svo margt hefur verið sagt um þetta þingmál sem hér er til umræðu að ekki er kannski miklu á bætandi. Þó hlýt ég að segja hér nokkur orð og þá fyrst og fremst um þann bónus sem stjórnarandstaðan ber óneitanlega nokkra ábyrgð á,
þ.e. hlutafjársjóð Byggðastofnunar. Hugmyndin um sérstakan hlutafjársjóð kom upphaflega frá kvennalistakonum, en sjálfstæðismenn fluttu tillöguna um hann með okkur. Með þeirri tillögu vorum við, eins og kemur fram í nál. á þskj. 472, að benda á leið til þess að veita fjármagni til eflingar eigin fjár í fyrirtækjum og gefa fólki kost á því að fjárfesta í undirstöðuatvinnugreinum okkar án þess að taka of mikla áhættu sjálft. Það var og er okkar skoðun að við lausn þess vanda sem hrjáir nú atvinnulífið sé mikilvægast að búa svo í haginn að fyrirtækin geti aukið eigið fé og staðið áfram á eigin fótum. Skuldbreytingar og lán á lán ofan eru skammtímalausnir og leysa engan vanda til frambúðar, en fyrirtæki í erfiðleikum, sem hafa þó alla burði til rekstrar með bættum skilyrðum, geta vissulega bætt stöðu sína með skuldbreytingum og jafnvel auknum

lánum, en bætt eiginfjárstaða er líklegri frambúðarlausn. Bætt eiginfjárstaða skilar sér margfalt betur en lán og eykur heildarstyrk fyrirtækisins. Þetta er meginmálið og þetta var markmiðið og tilgangurinn með tillögu okkar um sérstakan hlutafjársjóð við Byggðastofnun.
    Þessari hugmynd okkar var vissulega mætt með nokkurri tortryggni fyrst í stað og það mun hafa þótt, og þykir sjálfsagt enn, mikil bjartsýni að halda að menn séu fúsir til að veita fé í formi hlutafjár til fyrirtækja í erfiðleikum, sérstaklega með tilliti til stöðu efnahags- og atvinnumála um þessar mundir. Þó er það nú einmitt það sem sífellt er verið að gera í atvinnulífinu. Og því skyldu menn ekki vilja styrkja þann grunn sem efnahagslíf okkar hvílir að miklu leyti á? Og þá er ég fyrst og fremst að tala um sjávarútveginn.
    Okkur finnst eitthvað meira en lítið bogið við þann hugsunarhátt, ef við þorum ekki að treysta því að hagur undirstöðuatvinnuvega okkar batni svo að óhætt sé að fjárfesta í þeim. Kannski er það fyrst og fremst hugsunarhátturinn og viðhorfin sem við þurfum bæta og lagfæra. E.t.v. er það skortur á þessu nauðsynlega trausti sem veldur því að þessi ágæta tillaga okkar hefur nú orðið fyrir nokkrum hremmingum í meðförum meiri hluta Alþingis. Það er satt að segja heldur óviðkunnanlegt hvernig fulltrúar meiri hlutans klifa á því sýknt og heilagt að þessi ákvæði um hlutafjársjóð Byggðastofnunar séu tilkomin að tillögu stjórnarandstöðunnar. Það er miklum ofsögum sagt þegar litið er til meðferðar meiri hlutans á henni og með tilliti til þess hlutverks sem sjóðnum virðist nú ætlað.
    Svo virtist raunar við upphaf 2. umr. sem meiri hlutinn hefði fallist á hugmynd okkar nokkurn veginn ómengaða en með brtt. hæstv. forsrh. og yfirlýsingum út og suður um þetta mál er nú deginum ljósara hvað hér er að gerast þar sem opnað er fyrir bein fjárframlög frá ríkinu til reksturs sjóðsins og til hlutafjárkaupa. Það er engin trygging sett fyrir faglegri stjórnun og það er felld niður skylda til reglulegrar útgáfu á gengi aðildarbréfanna.
    Rekstur á faglegum grunni er algjör forsenda þess að þessi starfsemi nái tilgangi sínum, eins og segir í því nál. sem ég las hér í upphafi máls míns. Við töldum t.d. að sú sérfræðiþekking, sem fyrir hendi er í Byggðastofnun, ætti að geta nýst til þess að velja þau fyrirtæki sem hlutafjásjóðurinn fjárfesti í, þannig að tryggt yrði fullt verðgildi bréfanna. Meiri hlutinn vill hins vegar sérstaka pólitíska stjórnun þriggja manna sem forsrh. skipar, svo sem segir í 9. gr. frv. Engin trygging er sett fyrir því að þar verði um faglega stjórn að ræða. Kannski er bara ástæða til þess að fagna því að ekki er notað sama orðalag og í 4. gr. frv. þar sem forsrh. er gert að hafa samráð við formenn þingflokka, eins og þar segir, um skipan þriggja af átta mönnum í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs. Það er reyndar merkilegt orðalag því það leggur ekki áherðar forsrh. neina skyldu um samráð við formenn allra þingflokka,

heldur bara óskilgreindra þingflokka, enda er þetta ákvæði ekki sett í neinu samráði við fulltrúa stjórnarandstöðunnar né í þeirra þökk þótt það hafi greinilega átt að milda hug einhverra til þessarar lagasetningar, og hefur kannski gert það, hver veit.
    Í þessu sambandi má minna á að núverandi stjórn Atvinnutryggingarsjóðs er sögð afar faglega skipuð og jafnvel hafa heyrst þær raddir að hún vinni of faglega, eins og það hefur verið orðað, og mun þá átt við að ákveðin sjónarmið eigi erfitt uppdráttar, svo sem hrein byggðasjónarmið. Spurningin er bara hvort þau rúmast nokkuð frekar innan ramma hlutafjársjóðs. Það er ekki mín meining. Með því er ég að sjálfsögðu ekki að segja að við viljum ekki gera byggðasjónarmiðum hátt undir höfði. Það höfum við kvennalistakonur alltaf viljað gera. Við gerum okkur mætavel grein fyrir þeim gífurlegu erfiðleikum sem eru í atvinnulífinu úti um allt land, þar sem brestur jafnvel í burðarásum heilla byggðarlaga. Á þeim vanda þarf að taka, eins og drepið er á í okkar nál., það þarf að taka á þessum vanda bæði með almennum aðgerðum og sértækum og á það vil ég leggja sérstaka áherslu.
    En hæstv. ráðherrar eru að mínu mati komnir á alranga braut með hlutafjársjóðinn og eru að gera hann að einhvers konar ruslakistu sem fleygja megi í þeim málum sem Atvinnutryggingarsjóður vísar frá sér vegna þess að reglugerð um hann er svo ströng og umfjöllun svo fagleg að nú er m.a.s. útlit
fyrir að ekki takist að úthluta öllu því fé sem sá sjóður fékk til umráða. Þá er gripið til þess að veita afgangskrónunum í hlutafjársjóðinn og vísa bágstöddustu fyrirtækjunum þangað. Og ekki nóg með það heldur er opnað fyrir beint framlag úr ríkissjóði og forráðamenn opinberra sjóða eins og Fiskveiðasjóðs og Iðnlánasjóðs og fleiri slíkra yppta öxlum yfir hugmyndum um að skuldum þessara fyrirtækja við þá verði breytt í hlutabréf í sjóðnum og segja að sennilega sé það betra en að fá alls ekki neitt upp í skuldirnar. Þeir hinir sömu tóku líka hressilega upp í sig á fundi í fjh.- og viðskn. varðandi almenn skilyrði fyrir atvinnureksturinn í landinu og verður ekki sagt að þeir hafi sungið stjórnvöldum lof og dýrð. Gengisstefna stjórnvalda er miðuð við Kringlur en ekki frystihús og fiskiskip, sagði einn þeirra. Þar í liggur auðvitað stærsta meinsemdin, að hin almennu skilyrði eru svo slæm að sértæku aðgerðirnar verða ekki að gagni til frambúðar.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta þingmál sem gjarnan má fara að víkja fyrir öðrum hér í deildinni. Við kvennalistakonur lögðum mikla áherslu á að fá sem fyrst úr því skorið hvort ríkisstjórnin hefði í raun átt vísan stuðning í þinginu við þær efnahagsráðstafanir sem hún batt í bráðabirgðalög 12 dögum áður en þing kom saman til reglulegra funda á sl. hausti. Það er þegar komið í ljós að svo var ekki þótt henni bærist síðan liðsauki sem firrti hana falli. En það er ljótur svipur á stjórnvaldsaðgerðum af þessu tagi.
    Ég vil svo að lokum benda á --- og nú vildi ég gjarnan ná eyrum hæstv. forsrh. --- að í 5. gr. frv.,

eins og það er nú orðið, er staðfestur sá einlægi vilji stjórnarflokkanna að ganga í fé Atvinnuleysistryggingasjóðs, en eins og hv. þm. væntanlega muna lögðust kvennalistakonur eindregið gegn því að svo yrði gert. Að vísu hefur sú barátta okkar og tillöguflutningur annarra leitt til þess að inn í 5. gr. er nú komið ákvæði sem á að tryggja endurgreiðslu þeirrar upphæðar sem tekin er frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Það er hins vegar galopið í annan endann og verður alls ekki séð hvernig þetta kemur út að lokum. Það er engin leið að átta sig á því hvenær þetta framlag á að endurgreiðast að fullu, ég minnist þess reyndar ekki að hafa nokkurn tímann heyrt nokkuð sagt um verðbætur og vexti í sambandi við þessar endurgreiðslur.
    Ég vil þess vegna óska eftir því við hæstv. forsrh. að hann upplýsi þingheim um þessi atriði, þ.e.: Á hve löngum tíma er ætlað að þessar endurgreiðslur til Atvinnuleysistryggingasjóðs vari eða m.ö.o. hvenær verður þeim lokið, hvenær hefur Atvinnuleysistryggingasjóður fengið að fullu endurgreitt það sem frá honum er tekið? Verða þessar endurgreiðslur verðbættar og verður endurgreiðslan með vöxtum? Við þessu vildi ég gjarnan fá svar í þessari umræðu.