Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Mig langar til þess að spyrja hæstv. forsrh. nokkurra spurninga í sambandi við mismunandi yfirlýsingar um eiginfjárstöðu sjávarútvegsfyrirtækja. Hæstv. forsrh. hélt því fram í yfirlýsingu sinni um efnahagsmál 6. febr. sl. að eiginfjárstaða fyrirtækja í sjávarútvegi hefði rýrnað um 13 milljarða á síðasta ári. Ég vil leyfa mér að spyrja: Hvaðan koma þessar upplýsingar? Er hægt að fá þær forsendur sem hæstv. forsrh. hefur fyrir þessum tölum eða er þetta eitthvert leyndarmál? Þetta eru upplýsingar út af fyrir sig og ekki ætla ég að gera lítið úr bágu ástandi sjávarútvegsfyrirtækja en það stangast á að samkvæmt greinargerð Þjóðhagsstofnunar frá 15. des. sl. er taprekstur sjávarútvegsfyrirtækja á sama ári yfir 1,3 milljarðar eða bara 10% af því sem hæstv. forsrh. segir að eigið fé hafi rýrnað. Hvernig má vera að svona lagað gangi upp? Hvaðan koma upplýsingarnar um 13 milljarðana ef Þjóðhagsstofnun segir 1,3 milljarðar? ( Forsrh.: Frá Seðlabankanum.)
    Síðan er ég hérna með greinargerð frá Seðlabankanum frá 7. des. sl. þar sem kemur fram að eigið fé hafi rýrnað um 9,4 milljarða. Og til þess að útskýra þessar stærðargráður aðeins þá eru 13 milljarðar fjárhæð sem dugar til þess að gera 17 Ólafsfjarðarjarðgöng og 9,4 milljarðar, eins og skýrsla Seðlabankans hljóðar upp á, er ekki nema 12 Ólafsfjarðarjarðgöng. Það er því ekki verið að tala um neinar smátölur. Og hvernig stendur á því að það munar svona miklu á upplýsingum á milli hæða ef hæstv. forsrh. hefur þessar upplýsingar frá Seðlabankanum en Þjóðhagsstofnun, sem er í sama húsi, segir 1,3? Síðan gerir ríkisstjórnin efnahagsráðstafanir miðað við það sem Þjóðhagsstofnun segir. En af hverju ekki að gera efnahagsráðstafanir miðað við þessa 13? Ég skil ekki svona misvísun. Eru svona margir kompásar hjá ríkisstjórninni að það sé bara keyrt eftir því hvað er verið að tala um hverju sinni?
    Hæstv. sjútvrh. sagði á fundi hjá Samtökum fiskvinnslustöðva sl. föstudag að eigið fé hefði rýrnað um 2--3 milljarða. Er svona mikið sambandsleysi í ríkisstjórninni að það sé ekki einhugur um hvað menn eru að tala um?
    Ég krefst þess að við fáum skriflegar upplýsingar um hvernig þessum málum er varið. Það væri einnig gaman að fá svar við því hjá hæstv. forsrh. hvort ríkissjóður muni taka við skuldabréfum Atvinnutryggingarsjóðs sem greiðslu.
    Í öllu talinu um vanda sjávarútvegs og að eigið fé sé lítið í undirstöðufyrirtækjum, þá skyldi maður halda að athafnir fylgdu orðum en hér fyrir áramót barðist stjórnarandstaðan á móti því að skattar yrðu hækkaðir á íslenska atvinnuvegi.
    Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar, sem ég minntist á áðan, frá 15. des. sl. er inngangurinn með eftirfarandi punktum, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Afkoma sjávarútvegs hefur versnað verulega á þessu ári. [Þetta er frá 15. des. sl.] Afkoma útflutnings- og samkeppnisiðnaðar hefur versnað á

þessu ári. Afkoma í verslun hefur einnig versnað frá því í fyrra. Afkoma í landbúnaði var slæm 1987 og hefur ekkert batnað. Markaðsverð sjávarafurða hefur lækkað um 6%.``
    Með svona upplýsingar í höndunum leggur hæstv. ríkisstjórn stórauknar álögur á atvinnulífið. Til hvers er verið að láta að vinna svona upplýsingar og fara svo ekkert eftir þeim? Ég skil það ekki.
    Ég vil spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann geri sér ekki grein fyrir því að skattstofnar þjóðarinnar eru takmörkuð auðlind, alveg eins og fiskistofnarnir. Ofsköttun er ekkert annað en rányrkja á íslenskum atvinnuvegum. Og í sama orðinu og menn eru að tala um að eigið fé hafi rýrnað svo og svo mikið, þá er verið að rýra það enn meira með enn frekari sköttun. Þetta heitir nú bara á hreinni íslensku að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri. Menn verða að standa við það sem þeir segja. Það þýðir ekkert að ætla sér að leysa vanda atvinnuveganna og hella síðan álögur á atvinnulífið sem veltur út í verðlagið og bitnar svo á undirstöðufyrirtækjunum, því það á að leyfa milliliðunum að hækka verðið en svo á að halda genginu föstu.
    Ég verð að segja að það er meiri háttar áfall að verða vitni að svona rugli eins og var hérna fyrir jólin. Með þessar upplýsingar í höndunum, með þetta tal um það að allt sé að fara norður og niður í atvinnulífi þjóðarinnar, að leggja þá stórauknar álögur á, sem gerir ekkert annað en að skerða lífskjörin í landinu og minnka getu fyrirtækjanna til að borga hærri laun og rýra samkeppnishæfni þeirra á erlendum vettvangi sem þau mega nú ekki við um þessar mundir.
    Mönnum er tíðrætt um það að vextir séu háir. Auðvitað eru vextir háir, það vita það allir. En af hverju eru vextir háir? Það segir hæstv. forsrh. að sé vegna einhverrar frjálshyggju sem hann hefur ekkert skilgreint nánar hvað er. Ég held að það sé tími til kominn að krefja menn um rökstuðning fyrir svona málflutningi.
    Mér er spurn: Hefði það eitthvað þýtt í rokinu núna um helgina að ráðast barómetið og fara með nálina með handafli upp á ,,smukt"? Hefði veðrið hefði eitthvað lagast við það? Frjálsræði á mörkuðum er ekkert annað en mælir á tiltekið ástand. Og ástandið er það að það er allt of mikil eftirspurn í lánsfé. Hvað á svo að gera við því? Á að ráðast á mælinn? Er hægt að lækna
sjúkling með 41 stigs hita og óráð með því að dýfa honum í kalt þangað til 37 gráðum er náð? Er búið að lækna hann? Mér er spurn. Það er heldur ekkert hægt að keyra áfram á 100 km hraða með því að skipta um spjald í hraðamælinum og setja mílumæli. Það er ekki hægt að blekkja sjálfan sig með svona rugli.
    Ég tel að það sé forsenda fyrir því að atvinnulífið hér komist á betra ról og bætt lífskjör geti orðið í landinu að viðurkennd vestræn hagstjórn fari fram í landinu en ekki þessi austantjaldsósómi sem maður er vitni að hér. Þessi sýndarmennska, sem maður verður

vitni að hér í Alþingi, mun leiða íslensku þjóðina í hinar hræðilegustu ógöngur og til skertra lífskjara og það á félagslegum grundvelli. Áframhaldandi taprekstur atvinnuveganna þýðir stóraukin eftirspurn í allt of lítið fjármagn --- það er allt of lítið fjármagn til í landinu til að sinna þörfum ríkisins og atvinnulífsins --- og áframhaldandi taprekstur mun valda stóraukinni eftirspurn í lánsfé sem þýðir hækkaðir vextir, aukin verðbólga, skert lífskjör og atvinnuleysi. Ég vil mótmæla harðlega svona sýndarmennskusjónleik, að þykjast alltaf að vera að leysa einhvern vanda en leggja svo stórauknar álögur á atvinnulífið og þjóðina.